Mest sykurneysla en minnst borðað af grænmeti á Íslandi
Embætti landlæknis hefur staðið fyrir norrænni könnun á mataræði, hreyfingu og holdafari hér á landi í samstarfi við rannsakendur frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Meira er borðað af sykurríkum vörum hér en á hinum Norðurlöndunum og minnst er neysla á grænmeti og ávöxtum á Íslandi.
Í skýrslu vegna könnunarinnar kemur fram að fleiri fullorðnir á Norðurlöndunum borða óhollan mat samkvæmt könnuninni 2014 miðað við 2011. Hlutfall Norðurlandabúa sem borða óhollan mat hefur aukist úr 18% árið 2011 í 22% árið 2014. Ef eingöngu eru skoðaðar tölur fyrir Ísland þá er aukningin meiri hér á landi, fer úr 19% í 25%.
Íslendingar borða minnst af grænmeti
Á Íslandi er meira borðað af sykurríkum matvörum, súkkulaði, sælgæti, kökum og gosdrykkjum, en á hinum Norðurlöndunum.
Íslendingar borða minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og hefur neyslan hér ekki breyst á tímabilinu. Sömuleiðis borða Íslendingar minnst af heilkornabrauði og hefur neyslan minnkað milli ára. Fiskneysla er aftur á móti mest á Íslandi.
Fullorðnir Íslendingar feitastir
Fleiri fullorðnir flokkast of feitir á Norðurlöndunum 2014 en 2011. Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum.
Jákvæð þróun í mataræði barna
Niðurstöður varðandi mataræði barna á Norðurlöndunum eru jákvæðari en hjá fullorðnum. Tæplega 15% norrænna barna flokkast með mataræði sem telst óhollt. Hlutfallið á Íslandi er sambærilegt við hin Norðurlöndin.
Félagslegur ójöfnuður í mataræði hefur þó aukist meðal barna á Norðurlöndum. Þannig teljast tvöfalt fleiri börn foreldra með minnstu menntun borða óhollt.
Börn hreyfir sig of lítið
Sex af hverjum tíu norrænum börnum hreyfa sig ekki í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu árið 2014 líkt og 2011. Finnsk og íslensk börn hreyfa sig helst í samræmi við ráðleggingarnar. Norrænar stúlkur uppfylla síður ráðleggingarnar en drengir.
Íslensk og finnsk börn borða mest af sykurríkum fæðutegundum. Íslensk og norsk börn borða aftur á móti minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og íslensk og sænsk börn borða minnst af heilkornabrauði og minnkaði neysla á heilkornabrauði hér á landi á tímabilinu. Íslensk börn borða aftur á móti mest af fiski.
Fullorðnir hreyfa sig lítið
Að meðaltali hreyfa um einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu árið 2014 líkt og 2011 og á það einnig við um Ísland. Hlutfall þeirra sem hreyfa sig ekkert er hæst í Noregi og á Íslandi árið 2014 og hefur aukist hér á landi úr 14% í 17% á tímabilinu. Athygli vekur að hlutfall 18 til 24 ára Norðurlandabúa sem hreyfa sig ekkert hefur nær tvöfaldast.
Hvað kyrrsetu varðar verja 30% Norðurlandabúa fjórum klukkustundum eða meira við skjá í frítíma 2014 og hefur það aukist lítillega frá 2011. Þetta hlutfall er lægst meðal Svía og Íslendinga.