Mikilvægt og gott samstarf hjá kjúklinga- og eggjabændum
Dagana 9.–11. nóvember var haldin norræn ráðstefna kjúklinga- og eggjabænda á Norðurlöndunum, Nordic Poultry Conference (NPC), rétt fyrir utan Osló í Noregi. Ráðstefnan hefur aldrei verið fjölmennari en um 240 manns úr greinunum mættu til leiks. Frá Íslandi fylgdust fulltrúar frá Ísfugli, Líflandi, Bændasamtökunum, Kjúklingabúinu Vor og MAST með því sem fram fór.
Ráðstefnan er haldin á hverju ári en var frestað á síðasta ári og haldin á rafrænu formi vegna heimsfaraldursins. Það voru þó ekki eingöngu fulltrúar frá Norðurlöndunum sem mættu á ráðstefnuna því einnig komu aðilar sem tengjast geiranum frá fleiri Evrópuþjóðum. Á hverju ári er ákveðið þema á ráðstefnunni eins og dýravelferð, dýraheilsa, sjálfbærni, matvælaöryggi, matvælastefnur, sérstakar sjúkdómsáskoranir og fleira.
Undirbúningshópurinn fyrir Nordic Poultry Conference sem haldin var rétt fyrir utan Osló í nóvember en á næsta ári á svipuðum tíma verður ráðstefnan haldin í Álaborg í Danmörku.
Bera saman bækur sínar
Farið var yfir marga þætti þessa tvo ráðstefnudaga, eins og til dæmis fuglaflensu, sem hefur víða numið lönd og valdið miklum skaða, nýja möguleika í fóðrun fugla, farið var yfir nýjar og umdeildar aðferðir við kyngreiningar ásamt sjúkdómsstöðu á Norðurlöndunum. Seinni daginn var ráðstefnunni skipt upp í sex stofur þar sem hægt var að velja til dæmis sérstofu fyrir kalkúnaframleiðslu, eggjaframleiðslu, kjúklingarækt, stofnahald, fóðrun og dýralækna svo dæmi séu tekin.
„Ísland er aðili að samtökum alifuglabænda á Norðurlöndunum. Þeirra aðalverkefni ár hvert er að halda ráðstefnu um alifuglarækt. Eins og alltaf er ráðstefnan afar áhugaverð. Þar eru margvíslegir fyrirlestrar um nýjar aðferðir í fuglarækt, hvað er efst á baugi hverju sinni, heilsufar fugla á Norðurlöndunum en þar trónir Ísland á toppnum með besta heilbrigðið og margt fleira. Dýravelferðarmál er atriði sem fær alltaf töluverða umfjöllun.
Venju samkvæmt er haldin söngvakeppni milli Norðurlandanna á aðalkvöldi ráðstefnunnar og þó að íslenski hópurinn hafi talið brotabrot af þátttakendum hinna keppnislandanna bar hann glæsilegan sigur úr býtum með laginu Ég er kominn heim.
Ráðstefnuna sækja flestir sem hafa snertiflöt við alifuglarækt, ráðunautar, bændur, dýralæknar, rekstraraðilar fyrirtækja í alifuglarækt, tækjasalar og vísindafólk svo eitthvað sé nefnt. Gefst þarna kærkomið tækifæri til að bera sama bækur við kollega okkar á Norðurlöndunum.
Ráðstefnan er okkur alifuglaræktendum afar fróðleg og mikilvæg,“ segir Jón Magnús Jónsson á Reykjabúinu.