Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Pálmi Einarsson, bóndi í Gautavík í Berufirði, reyndi fyrir sér með ræktun á iðnaðarhampi í sumar og var vöxtur plantna góður þrátt fyrir slæma tíð. Tilgangur ræktunarinnar er að athuga hvort hægt sé að framleiða trefjaplöntur úr heimaræktuðum hampi.
Pálmi Einarsson, bóndi í Gautavík í Berufirði, reyndi fyrir sér með ræktun á iðnaðarhampi í sumar og var vöxtur plantna góður þrátt fyrir slæma tíð. Tilgangur ræktunarinnar er að athuga hvort hægt sé að framleiða trefjaplöntur úr heimaræktuðum hampi.
Fréttir 30. september 2019

Möguleikar í nýtingu hamps óendanlegir

Höfundur: Vilmundur Hansen

Nýbýlingarnir í Gautavík í Beru­firði stefna á að verða sem mest sjálfbær og framleiða sem mest sjálf til eigin nota. Í sumar gerðu þau tilraun með að rækta iðnaðarhamp til framleiðslu á trefjaplöntum sem hráefni í gjafavörur og leikföng sem þau framleiða.

Á síðasta ári létu Pálmi Einars­son og eiginkona hans, Oddný Anna Björnsdóttir, gamlan draum rætast og keyptu sér jörð, Gautavík í Berufirði. „Jörðin er 850 hektarar að stærð, með tveggja kílómetra strandlengju og jafn­löngum fjallgarði og um fjórir kíló­metrar þar á milli og því nóg pláss fyrir okkur og krakkana,“ segir Pálmi.

Oddný Anna Björnsdóttir, sjálfstæður ráðgjafi og bóndi í Gautavík, í miðjum hampakri.

Pálmi, sem er iðnhönnuður og bóndi, er einlægur tals­maður sjálfbærni og samvinnu. Hann hefur einnig mikinn áhuga á að rækta hamp og vekja athygli á fjölbreyttu notagildi hans. Pálmi lærði iðnhönnun í Hollandi og bjó í sjö ár í Bandaríkjunum. Hann er fyrrum þróunarstjóri Össurar hf. og með 30 ára reynslu í hönnun og að koma vörum á markað. Hjónin reka hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækið Geislar og framleiða umhverfisvænar gjafavörur, minjagripi og módel­leikföng.

Markmiðið er sjálfbærni

„Hugmyndin við að flytja í Beru­fjörð er að gera okkur sem mest sjálfbær og að vinna að rannsóknum tengdum sjálfbærni. Ég hef enga trú á því að við komum til með að reka stórt bú í framtíðinni heldur stunda blandaðan búskap fyrst og fremst til sjálfsþurftar og vinna með öðrum í sveitinni að því að verða sem mest sjálfbær. Sjálfbærni þýðir ekki að við verðum að framleiða allt sjálf heldur að við framleiðum ákveðna hluti og aðrir annað og svo getum við deilt þeim okkar á milli eftir þörfum.

Ein af þessum sjálfbærni­hug­myndum tengist því að rækta iðnaðarhamp og vinna úr honum hráefni fyrir eigin framleiðslu.“

Góður vöxtur var í plöntunum í sumar þrátt fyrir sérlega slæma tíð og náðu þær um 130 sentímetra hæð.

Hátæknilausnir með hampi

„Áhugi minn á hampi og notkun á hampafurðum hófst þegar ég starfaði hjá Össuri hf. við rannsókna- og þróunarstarf. Í kringum 2010 ætlaði ég að leggja til að fyrirtækið skipti út kol- og glertrefjum, sem eru notaðar í framleiðslu gervilima og spelka, yfir í hamptrefjar, en ekkert varð úr því. Í mínum huga var þetta ekki bara umhverfisvæn lausn heldur líka hátæknilausn sem ég stóð gapandi yfir á þeim tíma. Þegar ég fór að kynna mér möguleika hamps til framleiðslu á alls kyns hlutum, bæði til iðnaðar og til lyfjagerðar, trúði ég varla mínum eigin augum og áttaði mig fljótlega á hversu röng pólitíkin í kringum plöntuna er og hversu miklir hagsmunir eru í húfi á mörgum sviðum. Það er reyndar með ólíkindum hvað er hægt að gera úr hampi og möguleikunum hefur fjölgað mikið á síðustu árum.“

Í vor hófu þau hjónin tilrauna­ræktum á hampi á um hektara til að athuga hvort hægt væri að framleiða trefjaplötur úr heima­ræktuðum hampi til að nota í framleiðslu Geisla. „Hugmyndin er að rækta sjálf hráefnið sem við þurfum til eigin framleiðslu og vera þannig sjálfbær á þann hátt.

Í dag notum við innfluttan birki­krossvið í gjafavörurnar og MDF plötur í módelleikföngin en langar að geta framleitt okkar eigið hráefni hér á staðnum og þar kemur hampur sterkur inn. Samkvæmt þeim rannsóknum sem ég hef séð eru hamp­trefjar með allra sterkustu trefjum sem finnast í plöntuheiminum og þótt víðar væri leitað. Í dag eru plötur úr hamp­trefjum mikið notaðar í klæðningar og sem einangrun í bílum og kjötið innan úr stönglunum í steypu til húsbygginga, undir­burð og fleira.

Pálmi Einarsson, iðnhönnuður og bóndi í Gautavík, skoðar vöxt iðnaðarhampsins í Berufirði. 

Úr lyfjahampi, sem er annað afbrigði en sá hampur sem við erum að rækta, eru unnin lyf sem innhalda til dæmis virka efnið THC. Það efni er í snefilmagni í iðnaðarhampi og ólöglegt að rækta plöntur sem innihalda meira en 0,2% af því hér á landi.“

Felina, Futura og Finola

Pálmi segir að þau hafi sáð þremur afbrigðum af iðnaðarhampi frá Hempoint í vor, Felina 32, Futura 75 og Finola. Felina 32 afbrigðið er aðallega ræktað vegna blómanna sem innihalda CBD kannabíóða en hefur einnig góðan massa og trefjar. Futura 75 er aðallega trefjaplanta og blómstrar lítið. Finola er sama tegundin og Sveinn á Kálfskinni gerði tilraun með að rækta 2008 og ég ásamt öðrum gerðum tilraun með að rækta á Heklusvæðinu 2013. Hún er aðallega ræktuð vegna blómanna og fræjanna sem eru næringarrík fæða fyrir menn og dýr og úr þeim unnin meðal annars hampolía og próteinduft sem fæst í flestum matvöru­verslunum.

Við sáðum beint út í tilraunareitina 1. júní og öll afbrigðin hafa komið vel út eftir sumarið. Plönturnar eru um 130 sentímetrar að hæð en geta orðið allt að þrír metrar þegar best lætur. Sumarið sem leið var óvenju þurrt og greinilegt að skortur á vatni dró úr vexti í sumar. Hér var einnig ríkjandi norðvestanátt í sumar, hvasst og kalt og það dró örugglega líka úr vextinum.

Tilraunasvæðið skiptist í mörg minni hólf sem eru að stórum hluta í kringum íbúðarhúsið og í nágrenni við það. Hólfin eru alls níu og hvert um sig um 13 metrar á kant.

Fyrsta skrefið í uppskerunni var að skera blómin af Finola afbrigðinu, þurrka og skoða kristalmyndunina á blómum og laufum.

Vöxturinn var greinilega mestur þar sem við gátum vökvað reglulega. Til að byrja með var vöxturinn víðast lítill vegna vatnsskorts, vinds og kulda og plönturnar ekki nema 5 til 10 sentímetra háar fram í byrjun júlí. Þá fór að rigna og var milt í veðri í tæpar tvær vikur og þá var dagamunur á plöntunum. Ég gat nánast horft á þær vaxa, eða að minnsta kosti mælt 5 til 7 sentímetra vöxt á sólarhring.“

Uppskera og vinnsla

„Fyrsta skrefið í uppskerunni var að skera blómin af Finola afbrigðinu, þurrka og skoða kristalmagnið í þeim. Restin verður svo öll skorin og bundin í knippi og látin standa úti í um mánuð til að veðrast. Eftir það eru stönglarnir þurrkaðir og marðir til að merja kjötið frá trefjunum og að lokum eru stönglarnir valsaðir. Afurðin sem eftir stendur er hnoðri af trefjum sem er spunninn eins og hver annar þráður eða ull. Eða þá að trefjarnar eru pressaðar í plötur eins og ég ætla að gera við þær.

CBD kristallarnir sem hamp­plantan framleiðir er meðal annars notað sem fæðubótarefni sem hefur góð áhrif á ónæmis­kerfi mannslíkamans. CBD er til dæmis notað við mígreni, flogaveiki og margs konar öðrum manna­meinum með góðum árangri og margir sem hafa góða reynslu af notkun hennar. Notkun á olíunni hefur ekki vímu í för með sér og því ekki notuð í þeim tilgangi.

Til geta flutt inn fræ af iðnaðar­hampi þarf að fá leyfi frá Matvælastofnun, eins og með öll önnur fræ. Það sem Matvælastofnun skoðar er meðal annars hvort fræ­framleiðandinn sé með tilskilin vottorð um að fræin innihaldi innan við 0,2% af THC og að þau séu sótthreinsuð.“

Stönglarnir bundnir í knippi og þurrkaðir.

Pálmi segist hafa séð talsvert magn af kristöllum í blómum bæði af Finola og Felina 75 afbrigðunum eftir sumarið, jafnvel í mjög lág­vöxnum plöntum, en þessi afbrigði eiga að innihalda um 3–6% af CBD kannabíóðum. „Satt best að segja kemur kristal­magnið í plöntunum mér á óvart og ég er sannfærður um að það liggja miklir möguleikar í framleiðslu á olíum úr svona blómum hér á landi, enda gríðarlegur markaður fyrir efnið bæði hérlendis og erlendis og verðið mjög hátt.“

Góð landnámsjörð

Pálmi segir að Gautavík sé góð landnámsjörð og talið að Þang­brandur hafi búið þar um tíma og reynt með takmörkuðum árangri að kristna menn með Biblíuna í annarri hendi og sverð í hinni. „Hér var kaupstaður áður en hann var fluttur á Djúpavog og búskapur þar til skömmu eftir síðustu aldamót. Ég var búinn að fylgjast með jörðinni í nokkur ár, en Oddný vildi vera nær höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég sýndi henni hana svo síðastliðið vor og bað hana að gefa henni séns, þrátt fyrir fjarlægðina frá Reykjavík, áttaði hún sig á því að hún uppfyllti allar okkar kröfur og rúmlega það. Tveimur mánuðum seinna vorum við alflutt.
Hér er gott íbúðarhús og rúmir þúsund fermetrar af útihúsum. Þar á meðal 110 fermetra einangruð vélaskemma sem nú hýsir fyrirtækið okkar, Geisla, sem var áður til húsa í Bolholti í Reykjavík.“

Pálmi skoðar blóm hampsins undir smásjá.

Engin spurning hvort tilraununum verður haldið áfram

Pálmi er ekki í neinum vafa um að þau muni halda hampræktuninni áfram. „Árangurinn í sumar var mjög góður og við höfum lært talsvert af þeirri reynslu og munum nýta okkur hana. Ég komst til dæmis að því að uppskeran var mest þar sem var tætt, sáð, vökvað og valtað og sett plast yfir í nokkra daga eftir sáningu. Við erum fyrst og fremst að gera þessar tilraunir til að vekja athygli á öllum þeim tækifærum sem felast í ræktun á iðnaðarhampi og vinnslu óteljandi vara úr honum. Hampurinn gefur Íslendingum tækifæri til að verða sjálfbærari um fjölbreytt hráefni í iðnað, eins og byggingarefni, textíl, pappír, plast, eldsneyti, matvæli, lyf og fæðubótarefni svo eitthvað sé nefnt og eru bændur lykillinn að því að svo geti orðið, því fyrsta skrefið er auðvitað ræktunin sjálf,“ segir Pálmi Einarsson, bóndi og iðnhönnuður, að lokum. 

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...