Möguleikar skoðaðir til skilvirkari framleiðslu í sauðfjárrækt
Um síðustu mánaðamót fór nýtt verkefni formlega af stað hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem hefur það að markmiði að skoða möguleika á skilvirkari framleiðslu og þar með að bæta nýtingu á aðföngum í sauðfjárrækt. Annars vegar verða skoðaðar leiðir, meðal annars með því að fjölga burðum á ársgrundvelli og hins vegar að nýta sauðamjólk til matvælaframleiðslu.
Að sögn Runólfs Sigursveinssonar, verkefnisstjóra hjá RML yfir verkefninu, sem heitir „Fundið fé – þróun á framleiðslukerfi í sauðfjárrækt“, verður farið yfir þá þekkingu sem til er varðandi líffræðilega og lífeðlisfræðilega þætti sauðfjárræktar, eins og fóðrun, jarðrækt og bútækni til að setja fram sviðsmyndir um mismunandi framleiðslukerfi.
Nýta betur land til sumarbeitar, fjölga burðum og slátra oftar
„Sauðfjárbúskapur hér á landi byggir að mestu leyti á framleiðslu lambakjöts innan hins hefðbundna framleiðsluárs, þar sem ær bera í maí, ganga í sumarhögum frá miðjum júní fram í byrjun september með lömbin, sem er síðan slátrað við 4–5 mánaða aldur,“ segir Runólfur.
„Langstærstur hluti tekna sauðfjárbúa koma annars vegar úr sauðfjársamningi og hins vegar af sölu á kjöti til sláturleyfishafa á haustin. Þar sem slátrun er svo árstíðarbundin þarf að frysta megnið af kjötinu til dreifingar og vinnslu á öðrum tímum ársins.
Fjölmargar rannsóknir og athuganir hafa verið gerðar á ýmsum afbrigðum frá þessu framleiðsluferli, sem dæmi má nefna að nýta ræktað land til sumarbeitar, að slátra utan hefðbundins sláturtíma, mjólka ær og nýta til ostagerðar, og fjölga burðum á ári. Þessar athuganir hafa þó í flestum tilfellum haft mjög afmarkað viðfangsefni þar sem ekki hefur verið farið í hagkvæmniathugun eða settar fram leiðir til að nýta niðurstöðuna inn í framleiðsluferil sauðfjárbús,“ segir Runólfur.
Hann segir að markmið verkefnisins sé að setja upp sviðsmyndir sem lýsa leiðum sem hægt er að fara til að auka framleiðslu bænda með betri nýtingu á aðföngum. „Sviðsmyndirnar verða síðan greindar út frá innra og ytra umhverfi þar sem leitast verður við að meta áhrif mismunandi þátta á framkvæmd sviðsmyndanna. Að lokum verður gerð hagkvæmnigreining á sviðsmyndunum út frá þeim upplýsingum sem verður aflað.“
Verkefnið, sem hugsað er til 12 mánaða, er sett fram sem rannsóknar- og þróunarverkefni þar sem bornar verða saman mismunandi leiðir sem eru frábrugðnar hefðbundnu ferli í sauðfjárrækt, áskoranir og áhrifaþættir kortlögð og hagkvæmni þeirra metið. „Með verkefninu má ætla að verði til þekking sem getur nýst þeim sem hafa áhuga á nýsköpun og aukinni verðmætasköpun í sauðfjárrækt með vöruþróun og matvælaframleiðslu sem byggir á fjölbreyttara framboði af vörum,“ segir Runólfur.
Verkefnið verður unnið með fjárhagslegum stuðningi úr Matvælasjóði og niðurstöður verkefnisins settar fram á formi rafræns bæklings sem verður öllum aðgengilegur, en einnig verða niðurstöðurnar kynntar meðal annars á fundum og með greinarskrifum.
Runólfur Sigursveinsson, verkefnisstjóri hjá RML.