Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi
Þrír starfsmenn Matvælastofnunar vekja athygli á nýjum lögum um dýralyf, í grein í nýju Bændablaði í tilefni nýliðinnar vitundarviku um skynsamlega notkun sýklalyfja. Þar segir að í lögunum komi skýrt fram að ekki skuli beita sýklalyfjum reglulega sem fyrirbyggjandi aðferð gegn dýrasjúkdómum.
Sýklalyfjaónæmi er talin vera ein helsta heilbrigðisógn manna og dýra í dag – og notkun sýklalyfja talinn sá þáttur sem hefur hvað mest áhrif á uppkomu ónæmra sýkla. Almennt er talið að þróun nýrra sýklalyfja sé ekki í takt við hraða þróun ónæmis.
59 prósent lamba fá lambatöflur
Í greininni kemur fram að Matvælastofnun hafi á undanförnum árum unnið að vitundarvakningu meðal bænda og dýralækna um þessa útbreiddu notkun á sýklalyfjum, í formi „lambataflna“, sem fyrirbyggjandi aðferð gegn slefsýki í unglömbum. Stofnunin hafi greint notkun á þeim á árunum 2020–2022 og þar hafi komið í ljós að á árinu 2020 fengu 66 prósent lamba slíkar töflur, en hlutfallið fór niður í 59 prósent árið 2021 og stendur í stað árið 2022.
Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir súna og lyfjaónæmis Matvælastofnunar, er meðal höfunda greinarinnar en hún flutti einnig erindi um málefnið á málþingi sóttvarnalæknis á evrópska sýklalyfjadeginum 18. nóvember. Hún segir að Íslendingar standi nokkuð vel þegar borin eru saman tilfelli sýklalyfjaónæmis manna og dýra hér á landi við önnur Evrópulönd, en staðan sé þó áþekk á hinum Norðurlöndunum. Hún segir erfitt að meta áhrif notkunar lambataflanna á tíðni ónæmra baktería í íslenskri sauðfjárrækt, en þær finnist klárlega í íslenskum lömbum. Engin gögn séu þó til, beinlínis, um samanburð við Evrópu um slík tilfelli.
Þörf á vitundarvakningu
Vigdís segir að þörf sé á því að vekja bændur til meðvitundar um þessi mál, ljóst sé að aðrir möguleikar séu í stöðunni til að fyrirbyggja slefsýki.
„Þessi grein er ein af leiðum okkar til að vekja athygli á þessu, en þetta er ekki fyrsta skiptið sem við tökum þetta upp – við höfum gert það bæði í greinum en líka á fundum með sauðfjárbændum. Eins hefur sérgreinadýralæknir sauðfjár tekið þetta upp á fundi með stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda. Best væri auðvitað að það kæmi vitundarvakning frá Bændasamtökum Íslands eða búgreinadeild sauðfjárbænda,“ segir Vigdís.