Ný kornyrki þróuð
Ný kornyrki sem aðlöguð eru íslenskum aðstæðum verða þróuð á næstu árum með tilstuðlan verkefnis um kynbætur á byggi, hveiti og höfrum.
Samkomulag um verkefnið var undirritað milli matvælaráðuneytis og Landbúnaðarháskóla Íslands þann 24. janúar síðastliðinn. Samkomulagið byggir á því að verkefnið verði framkvæmt á árunum 2024–2028 og tryggir fjármögnun þess á árinu 2024. Heildarfjárhæð verkefnisins á árinu 2024 eru 54 m.kr.
Helsta markmið verkefnisins er að þróa kornyrki sem eru aðlöguð íslenskum aðstæðum og að byggja upp hæfni og getu í plöntukynbótum og plöntuerfðafræði á Íslandi.
Kornkynbæturnar munu fara fram í samvinnu við sænska fyrirtækið Lantmännen, sem hefur nú þegar lagt til vinnu við byggkynbætur sem heldur nú áfram. Einnig mun hefjast í fyrsta sinn kynbætur á vetrarhveiti og höfrum. Í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu segir að verkefni þetta marki nýtt upphaf kornkynbóta á Íslandi. Gert er ráð fyrir að framlengja samkomulagið árlega til eins árs í senn fram til ársloka 2028. Niðurstöður tilrauna verða gefnar út fyrir bændur, ráðgjafa og sáðvöruinnflytjendur.