Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sólon frá Þúfum hlaut hæstu hæfileikaeinkunn ársins.
Sólon frá Þúfum hlaut hæstu hæfileikaeinkunn ársins.
Fréttir 10. desember 2020

Öflugt ár þrátt fyrir heimsfaraldur

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson fyrrverandii ábyrgðarmaður í hrossarækt hjá RML

Sýningarárið 2020 var að mörgu leyti öflugt ár í íslenskri hrossarækt. Þetta var um margt sérstakt ár vegna kórónuveirufaraldurs en kynbótasýningar gengu þó samkvæmt áætlun. Landsmót sem átti að vera á Hellu í ár var ekki hægt að halda en þess í stað var blásið til Landssýningar kynbótahrossa, þar sem efstu hross ársins voru heiðruð í öllum flokkum ásamt afkvæmahestum.

Alls voru haldnar 16 sýningar um landið og aldrei hafa fleiri hross verið dæmd á miðsumarssýningum eins og nú. Alls voru felldir 1388 dómar og voru fullnaðardómar 1222. Þetta er afar góður fjöldi, sérstaklega miðað við að það var ekki Landsmót en við höfum náð að viðhalda afar góðri mætingu hrossa til dóms á síðastliðnum árum. Það sem hafði að öllum líkindum jákvæð áhrif á mætingu hrossa til dóms í vor, var fyrrnefnd Landssýning kynbótahrossa, sem haldin var á Gaddstaðaflötum við Hellu. Þetta var eins dags viðburður, haldin laugardaginn 27 júní. 

Þar sem ekki var unnt að halda Landsmót þótti verðmætt að ná að halda einn hátíðardag hrossaræktarinnar þar sem hægt væri að kynna og heiðra efstu hross í einstaklingssýningum og ekki síst þannig að hægt væri að kynna þá stóðhesta sem áttu rétt á afkvæmaverðlaunum. Á þessum degi komu fram 10 efstu hrossin í öllum flokkum hryssna og stóðhesta. Þá voru fjórir hestar sýndir til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi. Það voru þeir Stormur frá Herríðarhóli, Ölnir frá Akranesi, Konsert frá Hofi og Skaginn frá Skipaskaga. Skaginn stóð efstur þessara hesta og hlaut að launum Orrabikarinn, en þetta var í fyrsta skipti sem þessi bikar er veittur efsta hesti með fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi, gefinn af Orrafélaginu. Þá voru þrír hestar sem komu fram með afkvæmum og hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi en það voru þeir Loki frá Selfossi, Óskasteinn frá Íbishóli og Skýr frá Skálakoti en Skýr stóð efstur og hlaut Sleipnisbikarinn.

Það var Félag hrossabænda sem stóð að viðburðinum, ásamt Rangárbökkum ehf., Horses of Iceland verkefninu og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Hægt var að horfa á streymi frá viðburðinum á vef Eiðfaxa og velja um streymi á íslensku, ensku og þýsku. Fjöldi manns í alls 20 löndum horfði á viðburðinn á streyminu en rúmlega 1.000 manns voru á staðnum. 

Breytingar á ræktunarkerfinu

Á Landssýningunni voru stóðhestar heiðraðir á grunni nýrra reglna um afkvæmaverðlaun í fyrsta skipti en þær má sjá í heild sinni inná heimasíðu RML. Ein aðal breytingin á afkvæmaverðlaununum er sú að nú hljóta hross verðlaun byggt annað hvort á aðaleinkunn eða aðaleinkunn án skeiðs, sem farið var að reikna í fyrsta skipti í vor. Stormur frá Herríðarhóli hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og Loki heiðursverðlaun á grunni þessarar nýju aðaleinkunnar en þetta er afar verðmæt viðbót og skemmtileg. Þá hlutu þeir einnig afkvæmaverðlaun á árinu þeir Borði frá Fellskoti (fyrstu verðlaun) og Sveinn Hervar frá Þúfu í Landeyjum (heiðursverðlaun); ræktendur og eigendum allra þessara hesta er óskað hér enn og aftur til hamingju með árangurinn. 

Fleiri breytingar voru gerðar á árinu eins og þekkt er en gagngerar breytingar voru gerðar á kynbótakerfinu; unnið eftir nýjum dómskala, aðaleinkunn var reiknuð á grunni nýrra vægistuðla og kynntar nýjar aðaleinkunnir sem aukaupplýsingar en það er hæfileikar án skeiðs og aðaleinkunn án skeiðs sem fyrr segir. Þessar breytingar gengu í heild sinni vel í gegn. Framtíðin mun að sjálfsögðu leiða í ljós gagnsemi þeirra og verðmæti. Þróunin mun að sjálfsögðu halda áfram. Hvað varðar notkun á hinum nýja dómaskala, þá er viðbúið að það taki tvö til þrjú ár þannig að nýr dómskali fari að virka að fullu, með t.d. þeirri samræmingu dómarahópsins sem þarf til. Þegar meðaltöl eiginleikanna eru skoðuð þá eru ekki miklar breytingar á þeim á milli ára (sjá töflur). Meðaltöl eiginleikanna hafa heldur verið að hækka á síðastliðnum árum en notkun á dómskalanum hefur haldist á milli ára sem lýsir sér í nánast óbreyttu staðalfráviki þannig að dómarnir eru ekki að verða t.d. miðlægari með árunum. Gaman er að skoða árlega hvaða feður eru á bak við sýnd hross en alls voru 275 stóðhestar sem áttu afkvæmi sem komu til dóms í ár. Í meðfylgjandi töflu má sjá hvað stóðhestar áttu 10 eða fleiri sýnd afkvæmi á árinu.  

Þá voru einnig tekin í notkun ný dómblöð í ár en þau gefa færi á því að stiga ákveðna undirþætti eiginleikana (t.d. fótaburður, skreflengd, mýkt…á tölti) á línulegum skala frá 1 til 5. Þetta gefur færi á því að lýsa hverjum hesti á mun ítarlegri hátt en áður og munu verða afar verðmætar upplýsingar til framtíðar. Þetta mun meira að segja kannski gefa færi á því að meta kynbótagildi hrossa sérstaklega fyrir framhæð eða mýkt eða fótaburð í framtíðinni!

Hæstu hross ársins

Alls voru sýndar 49 fjögurra vetra hryssur í fullnaðardóm á árinu og voru þær um 5% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins var Drift frá Austurási eða 8,24, ræktendur Driftar eru Ragnhildur Loftsdóttir og Haukur Baldvinsson en eigandi er Anja EggerMeier. Drift er dóttir Draupnis frá Stuðlum en fyrstu afkvæmi hans komu til dóms í ár og lofar hann afar góðu sem kynbótahestur. Fjögur afkvæmi komu til dóms; framfalleg og myndarleg og efnileg á gangi. Drift er stólpagripur með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og bak og lend og 8,5 fyrir samræmi. Þá hlaut hún 8,5 fyrir tölt, brokk og samstarfsvilja; skrefmikil, samstarfsfús og fluga hestefni. Drift stóð efst fjögurra vetra hryssna á Landssýningunni. 

Með aðra hæstu einkunn ársins eða 8,28 var List frá EfstaSeli, sýnd á miðsumarssýningu á Gaddstaðaflötum. Ræktendur hennar eru Daníel Jónsson og Hilmar Sæmundsson og eigandi er Gæðingar ehf. List er undan Skaganum frá Skipaskaga og gæðingamóðurinni Lady frá NeðraSeli en hún hlýtur heiðursverðlaun í ár. List er afar fínleg og framfalleg hryssa með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og 8,30 í aðaleinkunn sköpulags. Þá er hún gæðingsefni á gangi, hágeng og viljug með 8,27 fyrir hæfileika. 

Með hæstu einkunn ársins í fjögurra vetra flokki hryssna í ár var Eygló frá Þúfum, með hvorki meira né minna en 8,59. Ræktandi hennar og eigandi er Mette Mannseth. Eygló er undan Eldi frá Torfunesi og Happadísi frá Stangarholti. Hún er afar fríð, og vel gerð hryssa í sköpulagi með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og bak og lend og fótagerð. Þá er hún skrefmikil og skrokkmjúk, með m.a. annars 9,0 fyrir tölt og samstarfsvilja enda afar þjál, með léttan og fyrirstöðulausan vilja. 

183 hryssur í fimm vetra flokki

Í fimm vetra flokki hryssna voru sýndar 183 hryssur og voru þær 18% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins eða 8,43 var Kastanía frá Kvistum en hún var sýnd á miðsumarssýningu á Gaddstaðaflötum. Ræktandi hennar og eigandi er Kvistir ehf. Kastanía er undan Ómi frá Kvistum og Kötlu frá Skíðbakka III. Hún hlaut 8,06 fyrir sköpulag; með hátt settan háls og sterka yfirlínu í baki. Þá hlaut hún 8,63 fyrir hæfileika; afar flink og mögnuð á tölti með 9,5 fyrir bæði tölt og hægt tölt, 8,5 fyrir skeið og 9,0 fyrir samstarfsvilja og fegurð í reið, ótrúlegar einkunnir fyrir svo ungt hross. 

Með aðra hæstu einkunn ársins er undrahrossið Lydía frá EystriHól. Hún hlaut í aðaleinkunn 8,46, ræktandi hennar og eigandi er Hestar ehf. Lýdía er undan Lexus frá Vatnsleysu sem hefur verið að gefa eftirtektarverð útgeislunarhross á síðastliðnum árum og móðir hennar er Oktavía frá Feti sem var eftirminnileg, einmitt fyrir útgeislun einnig. Lýdía er fegurðardjásn og sérstaklega framhá og sjálfberandi af svo ungu hrossi að vera. Hún hlaut 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi, afar reist og framhá og sameinar fínleika, léttleika og styrk í byggingunni. Þá hlaut hún 9,5 fyrir tölt, stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið; sannarlega eitt eftirtektarverðasta hross sem kom fram í ár. 

Með hæstu einkunn ársins var svo Álfamær frá Prestsbæ en hún hlaut 8,55 í aðaleinkunn. Ræktendur og eigendur er Inga og Ingar Jensen. Álfamær er undan Spuna frá Vesturkoti og Þóru frá Prestsbæ en hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi nú í haust. Álfamær er vel gerð hryssa með 8,5 fyrir flesta þætti sköpulagsins. Hún er skrefmikil og skrokkmjúk alhliða hryssa. Þá er hún snillingur á skeiði en hún hlaut 9,5 fyrir skeið; sniðföst, takthrein og einkar jafnvægisgóð. Hún hlaut einnig 9,5 fyrir samstarfsvilja enda afar taugasterk, þjál og flugviljug.   

Svarta Perla frá Álfhólum, „dunandi djasslag á fjórum fjaðrandi fótum“.

204 hryssur í fullnaðardóm

Í flokki sex vetra hryssna voru sýndar 204 hryssur í fullnaðardóm og voru þær 20% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins var Þrá frá Prestsbæ en hún hlaut í aðaleinkunn 8,59. Ræktendur og eigendur er Inga og Ingar Jensen. Þrá er undan Arion frá EystraFróðholti og Þóru frá Prestsbæ. Þrá er með 8,40 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 8,5 fyrir háls, herðar og bóga, enda með afar hátt settan háls og lausa, framskotna bóga sem bjóða upp á góðar hreyfingar. Þá er hún með 9,0 fyrir samræmi enda afar fótahá og 9,0 fyrir fótagerð. Þrá býr yfir mikilli skrokkmýkt, fótaburði og teygju en hún hlaut 9,0 fyrir tölt og skeið en einnig samstarfsvilja og fegurð í reið. 

Með aðra hæstu einkunn ársins var Líf frá Lerkiholti. Ræktendur og eigendur eru Kári Steinsson og Lerkiholt ehf. Líf er undan Stála frá Kjarri og Maríu frá Feti sem stóð efst í flokki 6 vetra hryssna á Landsmóti 2011. Líf er með 8,06 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 8,5 fyrir bak og lend og hófa. Þá er Líf afar öflug og mögnuð alhliða hryssa, hágeng og rúm. Hún hlaut 9,0 fyrir tölt og fet, 9,5 fyrir skeið og 9,0 fyrir samstarfvilja; afar fjölhæf alhliða hryssa. 

Með hæstu einkunn ársins í sex vetra flokki hryssna var Askja frá EfstuGrund. Ræktendur hennar og eigendur eru Sigríður Lóa Gissurardóttir og Sigurjón Sigurðsson. Askja er undan Skýr frá Skálakoti og Kötlu frá YtriSkógum og er heimsmeistarinn í tölti, Þokki frá EfstuGrund, því bróðir Öskju að móðurinni. Askja stóð efst fjögurra vetra hryssna á síðasta Landsmóti og stóð efst í ár í sínum flokki á Landssýningunni. Askja er stórbrotin gæðingur; næm, afar viljug og virkjamikil á gangi. Hún hlaut 8,82 fyrir hæfileika; 9,0 fyrir tölt, skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið og 9,5 fyrir brokk. Þá er einnig áhugavert að nefna hryssuna sem var í fjórða sæti í þessum flokki en það er klárhryssan Svarta Perla frá Álfhólum, ræktandi hennar er Sara Ástþórsdóttir en eigandi er Millfarm Corp ehf. Hún er undan Eldhuga frá Álfhólum og Dimmuborg frá Álfhólum. Svarta Perla er eitt eftirtektarverðasta hross sem kom fram í ár en hún hlaut 9,5 fyrir tölt, brokk, hægt stökk, samstarfvilja og fegurð í reið. Þá hlaut hún einnig 9,5 fyrir samræmi en hún er afar fínleg, þurrbyggð og framhá. Svarta Perla er einstök hvað léttleika varðar og býr yfir miklu fjaðurmagni og flinkheitum á gangi, næm, létt og spilandi viljug og er í raun eins og dunandi djasslag á fjórum fjaðrandi fótum. 

289 hryssur komu til dóms í elsta flokki

Í elsta flokki hryssna, 7 vetra og eldri, komu 289 hryssur til dóms eða um 28% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins, 8,60, var Auður frá Varmalandi í Sæmundarhlíð. Ræktendur og eigendur hennar eru Birna Sigurbjörnsdóttir og Sigurgeir Þorsteinsson. Auður er undan Auði frá Lundum II og Flugu frá Varmalandi. Auður er glæsilega og vel gerð hryssa með 8,83 fyrir sköpulag, þar sem hæst ber 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi og hófa og 9,5 fyrir bak og lend. Auður er alhliða hryssa með 8,48 fyrir hæfileika; 8,5 fyrir tölt, 9,0 fyrir skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið. Jafnar með 8,73 í aðaleinkunn eru þær Hremmsa frá Álftagerði III og Fold frá Flagbjarnarholti. Hremmsa er undan Eldi frá Torfunesi og Gjálp frá Álftagerði IV. Ræktendur eru Arngrímur Geirsson og Gígja Sigurbjörnsdóttir en Gígja er eigandi hryssunnar. Hremmsa er myndarleg og öflug alhliða hryssa með 8,43 fyrir sköpulag. Reist, framhá og fótahá. Þá er hún gæðingur á gangi með 8,89 fyrir hæfileika þar sem hæst ber 9,0 yfir tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið, 8,5 fyrir skeið og 9,5 fyrir brokk. Eldur frá Torfunesi hefur verið að skila góðum afkvæmum til dóms á síðastliðnum árum, skrokkmjúkum og traustum í lund og virðist vera að gefa afar góða reiðhesta og svo afrekshross í bland. 

Einnig með 8,73 í aðaleinkunn var á árinu Fold frá Flagbjarnarholti en hún stóð ofar á Landssýningunni þar sem hún var hærri fyrir hæfileika. Fold er undan Ómi frá Kvistum og Gyðju Baldursdóttur frá Lækjarbotnum, af afreks og skeiðlínu í móðurlegg. Fold er fínleg og prúð hryssa með afar sterka yfirlínu í baki. Þá er hún flink á gangi, léttstíg og hágeng með 9,0 fyrir tölt, 8,5 fyrir brokk og 9,5 fyrir skeið enda frábær á þeirri gangtegund. Þá er hún afar viljug og þjál með 9,5 fyrir samstarfsvilja. 

Með hæstu einkunn ársins í elsta flokki hryssna er Harpa Sjöfn frá Hvolsvelli en hún var sýnd á síðsumarssýningu á Hólum. Ræktendur hennar eru Helga Friðgeirsdóttir og Ásmundur Þórisson og eigendur eru Anja EggerMeier og Bjarni Jónasson. Harpa Sjöfn er undan Mjölni frá Hlemmiskeiði 3 og Orku frá Hvolsvelli. Harpa er með 8,70 fyrir sköpulag; 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi og hófa, enda reist, sterkbyggð og bolfalleg. Þá er hún fjölhæfur alhliða gæðingur, skrefmikil og ganghrein með 8,95 fyrir hæfileika. 

31 hestur í flokki fjögurra vetra stóðhesta

Í flokki fjögurra vetra stóðhesta voru sýndir 31 hestar eða um 4% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins er Árvakur frá Auðsholtshjáleigu en hann var sýndur á miðsumarssýningu á Hellu og hlaut 8,26 í aðaleinkunn. Ræktendur eru Kristbjörg Eyvindsdóttir og Gunnar Arnarson og eigandi er Gunnar Arnarson ehf. Árvakur er undan Álfarni frá SyðriGegnishólum og Rímu frá Auðsholtshjáleigu. Árvakur er stólpagripur sem á framtíðina fyrir sér, myndarlegur og skrefmikill. Hann hlaut 8,34 fyrir sköpulag þar sem hæst ber 9,0 fyrir bak og lend og 8,5 yfir samræmi, fótagerð og hófa. Þá er hann afar efnilegur alhliða hestur og hlaut fyrir hæfileika 8,22. 

Með aðra hæstu einkunn ársins var Skyggnir frá Skipaskaga en hann hlaut 8,35 í aðaleinkunn. Ræktendur hans eru Sigurveig Stefánsdóttir og Jón Árnason en eigandi er Skipaskagi ehf. Skyggnir er undan Skýr frá Skálakoti og Skynjun Þóroddsdóttur frá Skipaskaga. Skyggnir er glæsilega gerður hestur með 8,56 fyrir sköpulag en hann hlaut 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi og fótagerð. Skyggnir er efnilegur alhliða hestur með 8,23 fyrir hæfileika en hann hlaut 9,0 fyrir samstarfsvilja og 8,5 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið. 

Með hæstu einkunn ársins í flokki fjögurra vetra stóðhesta og efstur á Landssýningunni var Róbert frá Kirkjufelli, með 8,45 í aðaleinkunn. Ræktandi hans er Bryndís Mjöll Gunnarsdóttir og hún er einnig eigandi ásamt Skipaskaga ehf. Róbert er undan Skýr frá Skálakoti og Gjólu Gustsdóttur frá Skipaskaga. Róbert hlaut 8,54 fyrir sköpulag en hæst hlaut hann 9,0 fyrir samræmi, fótagerð og réttleika en einnig hlaut hann 8,5 fyrir háls, herðar og bóga. Þá fékk hann 8,39 fyrir hæfileika þar sem hæst ber 9,0 fyrir samstarfsvilja og 8,5 fyrir tölt, skeið, hægt stökk, fet og fegurð í reið og er Róbert efni í myndarlegan, skrefmikinn, ganghreinan og þjálan alhliða hest.

99 hestar í fullnaðardóm í flokki fimm vetra stóðhesta

Í flokki fimm vetra stóðhesta komu fram 99 hestar í fullnaðardóm eða 10% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins var Sindri frá Hjarðartúni með 8,58 í aðaleinkunn. Ræktandi er Óskar Eyjólfsson og eigendur eru Einhyrningur ehf, Bjarni Elvar Pétursson og Kristín Heimisdóttir. Sindri er undan Stála frá Kjarri og Dögun frá Hjarðartúni en hún er undan heiðursverðlaunahryssunni Dögg frá Breiðholti. Sindri er ágætlega gerður í sköpulagi með 8,0 fyrir háls, herðar og bóga og 8,5 fyrir bak og lend og samræmi. Þá er Sindri frábær alhliða gæðingur með 8,75 fyrir hæfileika; hágengur, fímur og rúmur, með 9,0 fyrir tölt og hægt tölt sem er afar verðmætt. Einnig er hann með 9,0 fyrir skeið, samstarfsvilja og fegurð í reið. 

Með aðra hæstu ársins var Hilmir frá Árbæjarhjáleigu II, undan Spuna frá Vesturkoti og Eldingu frá Árbæjarhjáleigu II og er hann því bróðir Jarls frá sama bæ. Ræktandi er Marjolijn Tiepen og eigandi er Katrin TaylorSheehan. Hilmir er mjúkvaxinn og sterkbyggður með 8,50 fyrir byggingu þar sem hæst ber 9,0 fyrir fótagerð. Hilmir er afar fjölhæfur og jafnvígur alhliða hestur með 9,0 fyrir tölt, hægt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið; skrefmikill, mjúkur og hágengur, með einkar trausta lund.

Hæstu einkunn í þessum flokki hlaut Leynir frá Garðshorni á Þelamörk en hann hlaut 8,77 í aðaleinkunn. Ræktendur hans eru Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir og eigandi er Sporthestar ehf, Leynir er undan Höfðingja frá Garðshorni á Þelamörk og Grósku frá sama bæ. Leynir hlaut 8,58 fyrir sköpulag, með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og bak og lend, enda með afar hátt settan, hvelfdan og reistan háls og sterka yfirlínu. Leynir hlaut fyrir hæfileika 8,88, afar viljugur og samstarfsfús, rúmur og teygjumikill í ganglagi, með 9,0 fyrir tölt, brokk og skeið og 9,5 fyrir samstarfsvilja.

84 hestar í flokki 6 vetra stóðhesta 

Í flokki 6 vetra stóðhesta voru sýndir 84 hestar í fullnaðardóm eða um 8% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins var Tumi frá Jarðbrú með 8,61 í aðaleinkunn. Tumi er undan Trymbli frá StóraÁsi og Gleði frá Svarfhóli, ræktandi og eigandi er Þröstur Karlsson. Tumi hlaut fyrir sköpulag 8,56 en hann er með afar sterka yfirlínu í hálsi og baki og hálsinn er reistur og rétt lagaður. Fyrir hæfileika hlaut Tumi 8,63 þar sem hæst ber 9,0 fyrir tölt og brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið; enda hágengur og léttstígur og einkar taktviss og öruggur á brokki. 

Með aðra hæstu einkunn ársins var Eldjárn frá Skipaskaga með 8,72. Ræktandi hans er Jón Árnason og eigandi er Skipaskagi ehf. Eldjárn er undan Jarli frá Árbæjarhjáleigu II og Glímu frá Kaldbak. Eldjárn er stórmyndarlegur, sterkbyggður og prúður hestur enda með 9,0 samræmi og hófa, 9,5 fyrir fótagerð, 10 fyrir prúðleika og 8,5 fyrir frambyggingu. Fyrir hæfileika hlaut Eldjárn 8,71; mjúkur og takthreinn á tölt, ferðmikill og öruggur á skeiði, viljugur með afar trausta lund og fasmikla framgöngu. 

Með hæstu einkunn ársins í þessu flokki var svo Viðar frá Skör með 8,89 í aðaleinkunn. Ræktandi hans er Karl Áki Sigurðsson og eigendur eru Flemming Fast og Gitte Fast Lambertsen. Viðar er undan Hrannari frá Flugumýri II og Vá frá Auðsholtshjáleigu. Viðar hlaut fyrir sköpulag 8,76 þar sem hæst ber 9,0 fyrir bak og lend og 9,5 fyrir samræmi. Þá hlaut Viðar 8,96 fyrir hæfileika þar sem hæst ber 9,5 fyrir brokk og m.a. 9,0 fyrir tölt, fet, samstarfsvilja og fegurð í reið enda skrokkmjúkur, skrefmikill og hágengur og voldugur á brokki.

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum var hæsta dæmda kynbótahross ársins.

Sýndir voru 76 hestar í elsta flokki stóðhesta

Í elsta flokki stóðhesta voru sýndir 76 hestar eða rúmlega 7% sýndra hrossa. 

Með þriðju hæstu einkunn ársins var Rauðskeggur frá Kjarnholtum I með 8,87 í aðaleinkunn. Ræktandi og eigandi hans er Magnús Einarsson. Rauðskeggur eru undan Kiljan frá Steinnesi og Heru frá Kjarnholtum. Rauðskeggur er þekktur gæðingur og fór í ár í sinn hæsta dóm. Fyrir sköpulag hlaut hann 8,76; með reistan, hátt settan og hvelfdan háls, framhár og fótahár með sterka yfirlínu. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,92, þar sem hæst ber 9,5 fyrir skeið og samstarfsvilja og 9,0 fyrir tölt, hægt tölt, greitt stökk og fegurð í reið. 

Með aðra hæstu einkunn ársins var Sólon frá Þúfum en hann er undan Trymbli frá StóraÁsi og Kommu frá Hóli við Dalvík, ræktendur eru Gísli Gíslason og Mette Mannseth. Sólon er með 8,51 fyrir sköpulag; með reistan og mjúkan háls, hátt frambak og myndarlegur á velli. Þá er Sólon með afar fallega framgöngu undir manni, nýtir hálsinn afar vel, reistur og hvelfdur með léttar og háar hreyfingar. Hann hlaut 9,5 fyrir tölt, 9,0 fyrir brokk, skeið og fegurð í reið og 10 fyrir samstarfsvilja enda sameinar hann mikinn vilja, næmni og yfirvegun. 

Með hæstu einkunn ársins í elsta flokki stóðhesta í ár var Álfaklettur frá SyðriGegnishólum með 8,94 í aðaleinkunn sem var hæsta aðaleinkunn sem kynbótahross hlaut á árinu. Ræktandi og eigandi hans er Olil Amble. Álfaklettur er undan Stála frá Kjarri og hinni mögnuðu Álfadísi frá Selfossi. Álfaklettur hlaut fyrir sköpulag 8,82 enda afar fríður á höfuð, með reistan, hvelfdan og fínlegan háls, sterka yfirlínu og einstakt samræmi; framhár, léttbyggður og fótahár. Fyrir hæfileika hlaut hann 9,01. Þar hefur hann magnaðar einkunnir, 9,5 fyrir skeið og samstarfsvilja; afar samstarfsfús og viljugur og 9,0 fyrir tölt, hægt tölt, brokk, greitt stökk og fegurð í reið. Hann var efstur á Landssýningunni í elsta flokki stóðhesta og skartaði þar sínum miklu og góðu kostum; léttleika, fimi og fjölhæfni og afar heillandi framgöngu en fínleikinn, fríðleikinn og léttleikinn setja punktinn yfir iið þegar kemur að hans miklu reiðhestskostum. 

Heilbrigðisskoðanir kynbótahrossa

Heilbrigði kynbótahrossa var skoðað eins og undanfarin ár, bæði fyrir og eftir dóm. Allir áverkar sem hrossin hlutu í dómi voru stigaðir í þrjá flokka og átti þetta við bæði særindi í munni og ágrip á fótum. 

Fyrsta stigs athugasemdir teljast ekki vera eiginlegir áverkar en eru t.d. særindi í munni sem ná ekki í gegnum slímhúð eða strokur á fótum sem ná ekki í gegnum húð og eru án eymsla eða bólgu. 

Annars stigs athugasemdir eru áverkar, s.s. lítil sár í munni eða ágrip á fótum sem ná þó ekki einum cm. 

Þriðja stigs athugasemdir eru alvarlegir áverkar og á þá lund að hrossið hlýtur ekki reiðdóm og getur ekki mætt til yfirlitssýningar. Skráð voru ágrip á fótum í 12% tilfella sem er töluvert lægra en undanfarin ár og hefur aldrei verið lægra en t.d. í fyrra þá var heildartíðni ágripa 19%. 

Megnið af þessu athugasemdum eða tæplega 70% voru í flokki 1, tíðni eiginlegra áverka á fótum (flokkar 2 og 3) var því um 4%, þar sem áverkar af þriðja stigi fundust bara á einu hrossi. Þetta er lægra en í fyrra en þá var tíðni þeirra 5%. 

Þá voru skráð særindi eða blóð í munni í 3,5% tilfella og var í nær öllum tilfellum um 1. stigs særindi að ræða. Það má því segja að staðan á þessum málum sé góð þar sem tíðni eiginlegra áverka er lág og hefur sem fyrr segir aldrei verið lægri. Það verða þó allir sem koma að sýningunum að vera á tánum í þessum efnum. 

Undirbúningur og sýningar kynbótahrossa hafa að sjálfsögðu verið að batna og orðið hestvænni með árunum. Þá má leiða að því líkum að þessi góða niðurstaða í ár sá að hluta til nýjum dómskala og vægistuðlum að þakka þar sem meiri áhersla er lögð á yfirvegun, janvægi og gæði á hægum gangi.

Starfsfólk og staðarhaldarar

Að lokum er rétt og ljúft að þakka öllu starfsfólki sýninganna fyrir vel unnin störf á árinu eins og vant er. 

Þetta er vel þjálfaður og samhentur hópur starfsfólks sem kemur að sýningunum á hverju ári. Þá tóku nýir dómarar til starfa í ár en það voru þau Elisabeth Marie Trost og Gísli Guðjónsson, þau eru boðin hjartanlega velkomin í hópinn en þau eru afar efnileg í þessu starfi; vel menntuð á þessu sviði og áhugasöm. Einnig vil ég þakka gott samstarf við staðarhaldara á hverjum stað en alls staðar er verkefninu tekið af áhuga og metnaði og reynt að hafa alla þætti sýninganna sem besta. Þá vil ég að þakka sýnendum, ræktendum og eigendum hrossanna fyrir skemmtilega viðkynningu og gott samstarf á árinu.

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...