Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Grunnvatnskerfið í norðvesturhluta Indlands hefur tapað gríðarlegu vatni frá nóvember 2002 til nóvember 2008 samkvæmt þessum myndum NASA. Blátt merkir aukningu á grunnvatni, því meiri eftir því sem blái liturinn er dekkri. Rauði liturinn á vinstri myndinn
Grunnvatnskerfið í norðvesturhluta Indlands hefur tapað gríðarlegu vatni frá nóvember 2002 til nóvember 2008 samkvæmt þessum myndum NASA. Blátt merkir aukningu á grunnvatni, því meiri eftir því sem blái liturinn er dekkri. Rauði liturinn á vinstri myndinn
Fréttir 22. desember 2014

Ört er gengið á grunnvatnsbirgðir víða um heimsbyggðina

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þótt Íslendingum sé gjarnt að kvarta og kveina yfir að fá ekki umyrðalaust aðgang að öllum matarbirgðum heimsins á hrakvirði, þá væri okkur hollt að hugsa málið aðeins nánar í samhengi við heimsbyggðina. Fæðuöryggi og trygging fyrir aðgengi að drykkjarvatni er nefnilega síður en svo eitthvað til að grínast með. Þróunin á heimsvísu er skelfileg, ekki síst hversu hratt er gengið á nýtanlegar grunnvatnsbirgðir.  

Íslendingar eru í einstakri stöðu hvað varðar möguleikana til að komast af. Hér erum við með ein gjöfulustu fiskimið heims við bæjardyrnar, ógrynni neysluvatns, gnægð virkjanlegs vatns og jarðhita og mikil flæmi af ónýttu ræktarlandi. Sennilega er engin þjóð í heiminum sem býr við slíkan lúxus í dag. Við sitjum hreinlega á gullnámu hvað alla þessa þætti varðar, en erum um leið hrikalegir umhverfissóðar.

Íslendingar kærulausir

Við förum með vatn af miklu kæruleysi og sóum gríðarlegri orku í einstefnu hitaveitukerfum eins og á höfuðborgarsvæðinu, í stað þess að vera með hringtengt lokað fjarvarmakerfi sem kallar á mun minni uppdælingu. Má segja að með ótæplegri uppdælingu á heitu vatni getum við kannski verið að snerta þann veruleika sem við blasir víða um heim vegna uppdælingar á grunnvatni til neyslu og áveitu. Jarðhitavatn er nefnilega ekki ótæmandi auðlind, ekki frekar en grunnvatn til almennrar neyslu.

Aðgengi jarðarbúa að hreinu neysluvatni fer hratt þverrandi

Aðgengi jarðarbúa að hreinu neysluvatni fer hratt þverrandi, ekki bara í fátækum þróunarlöndum, heldur einnig í iðnríkjum Vesturlanda sem og í ört vaxandi efnahagsveldum Asíu. Er því spáð að baráttan um þennan lífsnauðsynlega vökva sem við Íslendingar eigum enn nóg af  muni í náinni framtíð verða uppspretta blóðugra átaka. Samhliða því verður tekist á um fæðu þar sem vatnsskortur mun án efa draga úr fæðuframboði þegar lengra líður.
Farið er að ræða það í fúlustu alvöru að vegna vatnsins geti Ísland og Íslendingar orðið skotmark hryðjuverkahópa sem muni sækjast eftir því að nota vatn sem skiptimynt í sínu valdatafli. Þetta er síður en svo fráleitt ef litið er til nýlegra fregna af stöðu grunnvatns m.a. í Bandaríkjunum, Asíu, Afríku, Evrópu og víðar. Því er ekki endilega sjálfgefið að þeir sem koma til með að vilja berjast  á forsendum vatnsaðgengis muni eigi uppruna sinn í Mið-Austurlöndum, því þörfin er mun víðar.

Fjármálamenn gætu verið helsta ógn Íslendinga

Fyrir Íslendinga er þó augljósasta hættan sú að fjármálamenn sölsi undir sig vatnsréttindum sveitarfélaga og ríkisins. Það hlýtur því að teljast einstakur aulaháttur löggjafarvaldisns að taka ekki af öll tvímæli og hreinlega banna einkaréttarsölu á vatnsréttindum.

Ógnvænleg tíðindi frá NASA og fleiri vísindastofnunum

Í Los Angeles Times í ágúst síðastliðnum var birt grein undir fyrirsögninni „63 billjónir gallona af grunnvatni hafa tapast vegna þurrka“. Er þar miðað við tímabilið frá mars 2013 til mars 2014.

Vísað er til rannsókna Kalifoníuháskóla (UC San Diego’s Scripps Institution of Oceanography) og jarðfræðirannsókna bandarískra yfirvalda sem hófust 2013. Þar hafi komið í ljós að 63 billjónir (63.000.000.000.000) eða sem svarar 238,77 billjónir lítra af grunnvatni hafi tapast. Það samsvarar um 10 sentímetra djúpu vatni sem næði yfir allt landsvæði vestan Klettafjalla í Bandaríkjunum, eða álíka og árlegt leysingavatn á Grænlandsjökli. Er þetta vatnstap og lítið snjófarg í Klettafjöllunum sett í samhengi við að landmassinn hafi risið um 0,6 tommur á 18 mánuðum eða sem nemur um 1,5 sentímetrum. Mesta upplyftingin á landi er í Kaliforníu þar sem grunnvatnið hefur að jafnaði verið mest.

Minnkun grunnvatns hefur verið staðfest með rannsóknum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA í samvinnu við þýsku geimferðastofnunina DLR. Spanna rannsóknirnar yfir rúman áratug og greint var frá þessu 2. október síðastliðinn og birt í grein í Journal Science. Þar er vísað til mælinga tveggja gervitungla í rannsóknarverkefni sem kallað er GRACE eða Garvity Recovery and Climate Experiment.

Gervitunglin eru mjög nákvæm mælitæki sem mæla breytingar á aðdráttarafli jarðar í hlutfalli við breytingar á þeim massa jarðar sem flogið er yfir. Þar koma einnig greinilega fram breytingar á massa jarðar sem orsakast af tapi grunnvatns undir yfirborði jarðar. Birtar voru samanburðarmyndir af Kaliforníu frá júní 2002 , júní 2008 og frá júní 2014. Þar sést greinilega að grunnvatnið í Central-dalnum er orðið hættulega lítið, en þar er m.a. stunduð mikil ávaxtarækt sem útheimtir gríðarlega vökvun.

Dæla 18 milljörðum tonna af vatni árlega úr jarðlögum

Öllu vatni sem þarf til ræktunarinnar er dælt upp úr grunnvatnslögum í nágrenni Sacramento-árinnar sem liggur eftir endilöngum Central-dalnum og San Joaquin-árinnar sem syðsti endi þessa vatnakerfis. Stöðugt þarf að bora dýpra eftir vatni og er grunnvatnsstaðan í berginu á svæðinu nú komin niður fyrir yfirborð ánna. Hefur það leitt til þess að vatn úr ánum leitar í auknum mæli út í jarðveginn svo yfirborð ánna lækkar stöðugt. Frá 2011 hefur verið dælt upp úr grunnvatnslögum um 4 billjónum gallona af vatni árlega eða sem nemur ríflega átján milljörðum tonna af vatni (18.200.000.000 tonn). Stöðugt er gengið á grunnvatnsbirgðirnar og hefur regnvatn, sem reyndar hefur einnig verið af skornum skammti, ekki lengur undan að viðhalda grunnvatnsstöðunni sem komin er á hættulegt stig.

Það sem líka gerist við uppdælingu vatns úr jarðlögunum er að jörðin, sem er eins og svampur, dregst saman við þurrkunina og hefur víða orðið vart við landsig í Central-dalnum af þeim orsökum. Um leið og jarðvegurinn sígur saman og bergið þéttist minnka möguleikar þess á að taka við grunnvatni á nýjan leik. Skaðinn er því varanlegur.

Á örfáum árum hafa tapast 64 rúmkílómetrar af vatni

Suðaustan við Central-dalinn er Colorado-vatnasvæðið sem einnig hefur verið mjög gjöfult ræktarland. Það vatnasvæði sér um 40 milljónum Bandaríkjamanna fyrir vatni sem og 4 milljóna ekra ræktarlandi eða sem nemur um 1,6 milljón hekturum. Rannsóknir GRACE sýna að þar hefur einnig verið að tapast gríðarlega mikið af grunnvatni. Frá desember 2004 til nóvember 2013 hafa tapast á þessu svæði um 64,8 rúmkílómetrar af ferskvatni. Um 75% þess vatns er talið hafa tapast af grunnvatnsbirgðum svæðisins.  Er talað um að vatnstapið sé af áður óþekktri stærðargráðu og af ógnvænlegum hraða.

Ógn við langtímahæfni jarðvegsgrunnsins

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá höfuðstöðvum NASA, Jet Propulsion Laboratory í Pasadena í Kaliforníu og Kaliforníuháskóla í Irvin, segir að samhliða lítilli snjósöfnun  í fjöllum og auknum fólksfjölda á svæðinu, sé þetta ástand líklegt til að ógna langtímahæfni jarðvegsgrunnsins til vatnssöfnunar. Það muni hafa áhrif í sjö ríkjum Bandaríkjanna og líka í Mexíkó.

„Við vitum í raun ekki hversu mikið grunnvatn er eftir, svo við vitum ekki hvenær grunnvatnslindirnar tæmast,“ segir Stephanie Castle, vatnasérfræðingur í Kaliforníuháskóla. „Við héldum að myndin væri býsna slæm en við urðum fyrir áfalli þegar við sáum stöðuna.“

Kína í hrikalegum vanda

Grunnvatnstap í stórum stíl er ekki bara vandamál í Bandaríkjunum því nýlegar fréttir frá Kína sýna að þar er ástandið engu skárra. Í frétt CBS-sjónvarpsstöðvarinnar 28. nóvember síðastliðinn segir m.a.: „Ef þú heldur að vatn í Kaliforníu sé af skornum skammti, þá ættir þú að líta til þess sem er að gerast í Kína. Þar er ástandið svo skelfilegt að kommúnistastjórnin mun taka tappann úr heimsins stærsta vatnsmiðlunarverkefni nú í desember.


Yongding River sem einu sinni sá Beijing fyrir vatni hefur þornað upp ásamt 27 þúsund öðrum ám í Kína vegna iðnvæðingarinnar í landinu og byggingu stíflna fyrir raforkuver samhliða þurrkum.“

Í frétt CBS er haft eftir umhverfisfræðingnum Ma Jung að stórir hlutar sléttunnar í norðurhluta Kína muni líklega þjást af vatnsskorti. „Sumar borgir gætu hreinlega orðið vatnslausar,“ segir Ma Jung. 

Flytja gríðarlegar vatnsbirgðir milli landshluta

Til að reyna að leysa þetta vandamál hafa yfirvöld í Kína ákveðið að verja sem svarar  80 milljörðum dollara til að byggja nærri 2.700 mílna (um 4.350 km) langt vatnsveitukerfi sem er nærri þrisvar sinnum lengd þjóðvegar 1 á Íslandi.

Fjórir fimmtu hlutar allra vatnsbirgða í Kína eru í suðurhéruðum landsins. Hugmyndin er að flytja hluta þess vatns til þéttbýlissvæðanna í norðri þar sem það verður látið mynda uppistöðulón. Það þýðir að flytja verður 350 þúsund manns á landi sem fer undir vatn til nýrra heimkynna.  Ma Jung telur að þetta verði þó aðeins neyðarúrræði og  skammgóður vermir.
„Þetta mun hjálpa okkur í einhvern tíma, en ekki duga til að fylla upp í þann vatnsskort sem við blasir.“

Vandinn í Mið-Austurlöndum

Samkvæmt mælingum NASA hafa um 144 rúmkílómetrar af ferskvatni tapast í Tyrklandi, Sýrlandi, Írak, Íran og meðfram ánni Tígris og Efrad á árunum frá 2003 til 2010. Það er um það bil sama vatnsmagn og er í Dauðahafinu. Í viðleitni við að reyna að halda landbúnaði og matvælaframleiðslu gangandi hafa bændur á þessum svæðum dælt upp ógrynni af grunnvatni. Sem dæmi boruðu Írakar 1000 brunna í þurrkunum 2007.

Bandaríkin vara við átökum út af vatnsskorti

Í Suður-Asíu er grunnvatnstapið enn meira. Um 75% bænda reiða sig á uppdælingu á grunnvatni. Uppdæling á vatni hefur aukist um 70% frá 1990 og tapast um 54 rúmkílómetra af grunnvatni á hverju ári og vatnsnotkunin eykst stöðugt. Vegna stöðunnar í Indlandi gáfu bandarísk stjórnvöld út viðvörun árið 2012 um að ofnotkun á vatni gæti valdið átökum og ógnað öryggi Bandaríkjanna. Þar var sagt að á næstu tíu árum myndu mikilvæg innflutningsríki á vörum til Bandaríkjanna upplifa vandamál vegna vatnsskorts.

Skelfileg þróun í norðvesturhéruðum Indlands

Á Indlandi blasir við enn eitt risavandamálið varðandi neyslu- og áveituvatn.  Indverjar hafa sannarlega lyft grettistaki við að brauðfæða þjóðina, en stöðug fólksfjölgun eykur aftur á vandann. Vatnsskortur er víða og hefur hann m.a. verið leystur með uppdælingu á grunnvatni sem er að hafa skelfilegar afleiðingar eins og rannsóknir NASA og DLR sýna.

Aðeins á  einum áratug hefur grunnvatn undir norðvesturhéruðum Indlands, Punjab, Haryana og Rajasthan minnkað um meira en 108 milljarða rúmmetra sem er nærri átta sinnum meira en allt vatnsmagnið í Lake Mead sem er stærsta vatnsforðabúið í Bandaríkjunum. Er þessi minnkun grunnvatns í norðurhéruðum Indlands farin að ógna tilveru 120 milljóna íbúa. Ef vatnið þverr hefur það ekki einungis áhrif á drykkjarvatnsframboð, heldur mun það hafa geigvænleg áhrif á landbúnað og uppskeru í þessum miklu landbúnaðarhéruðum og þar með fæðuframboð.

Viðvarandi vandi í Afríku

Vatnsskortur víða í Afríku hefur verið þekkt vandamál um áratuga skeið. Þar hafa menn líka farið þá leið að bora eftir grunnvatni sem síðan er dælt upp. Þá hafa þurrkar orsakað vatns- og fæðuskort í álfunni.

Vatn ekki lengur sjálfgefið í Evrópu

Í Evrópu er staðan í vatnsmálum enn þolanleg, en langt í frá trygg. Samkvæmt tölum evrópsku umhverfisstofnunarinnar EEA óttast menn að langtímajafnvægi í vatnsbúskap kunni að vera ógnað. Vatnsveitukerfi eru víða bágborin og orsaka mikla sóun á neysluvatni. Í Frakklandi og á Spáni tapast t.d. á bilinu 24–34% af vatni í vatnsveitukerfum áður en það nær til neytenda. Þá bendir EEA á að við hlýnandi loftslag minnki framboð af vatni sem gæti þýtt alvarlega stöðu fyrir suðurhluta Evrópu.

Vatnsskortur getur haft stórkostleg umhverfisáhrif

Lítið vatnsframboð hefur alvarlegar afleiðingar að mati EEA, einkum á landbúnað, skógrækt, orkuöflun og drykkjarvatnsframboð.

„Samdráttur á vatni í lífkerfinu og minnkun grunnvatns getur haft stórkostleg umhverfisleg áhrif.“

EEA segir að í heildina sé notaður tiltölulega lítill hluti af nýtanlegum vatnsbirgðum í Evrópu. Staðan sé þó mjög misjöfn milli svæða og landa, en í öllum ríkjum ESB sé samt farið að ganga á vatnsbirgðirnar. Á meðan Ísland og Noregur búi við mikla sérstöðu hvað þetta varðar, þá hafi mörg mjög þéttbýl lönd innan ESB tiltölulega lítið aðgengi að vatni á hvern íbúa. Segir EEA að það eigi m.a. við um Þýskaland, Pólland, Ítalíu, Spán og suðurhluta Bretlandseyja.

Vatnsmagnið hefur verið tiltölulega stöðugt í flestum ríkjunum síðan 1990, en hefur þó minkað um 10% í 15 Vestur-Evrópuríkjum. Mest hefur gengið á vatnið í Austur- og Mið-Evrópu, eða allt að 40%. Allt mun þetta hafa áhrif á framtíðarmöguleika ræktunar og matvælaframleiðslu.
Ofan á allt þetta vara vísindamenn nú við hækkandi sjávarstöðu vegna bráðn­unar íss á pólsvæðum jarðar. Þar með skapast hætta á að ræktarsvæði á láglendi tapist líka undir sjó. Gott aðgengi að ræktarlandi og náttúruauðlindum á borð við vatn er því alls ekki sjálfgefið.

Skylt efni: Umhverfismál

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...