Rýr uppskera af melgresi
Fræskurður hefur staðið yfir í haust á vegum landgræðsluhluta Lands og skógar.
Fræskurður Lands og skógar í haust skilaði túnvingulsuppskeru í góðu meðallagi. Uppskera af melgresi er þó skv. upplýsingum stofnunarinnar fremur lítil.
„Að þessu sinni var melgresi eingöngu uppskorið á Mýrdals- sandi í nokkra daga. Ax er ekki mjög stórt og svo misstum við það að hluta í illviðri. Algengast er að fyrst sé skorið í Landeyjum, svo á Mýrdalssandi og stöku sinnum endað í Þingeyjarsýslum,“ segir Pétur Halldórsson, kynningarstjóri hjá stofnuninni.
Hann segir nákvæmar magn- og gæðatölur ekki liggja fyrir fyrr en líður á vetur og fræhreinsun lýkur.
Meginhlutverk fræverkunarstöðvar Lands og skógar í Gunnarsholti er frærækt og fræverkun tegunda til uppgræðslu. Tvær tegundir eru í framleiðslu: melgresi (Leymus arenarius) og túnvingull (Festuca richardsonii). Fræöflun fer fram síðla sumars og fram á haust þegar fræþroski nær hámarki, en þó áður en náttúruleg frædreifing hefur átt sér stað. Túnvingull þroskast í lok ágúst, en melgresi þroskast seinna og stendur melsláttur oft langt fram í september. Þegar fræið er komið í hús er það þurrkað og hreinsað.