Sæðisfrumum fækkar
Talning á sæðisfrumum hjá karlkynsbjöllum sýnir að frumunum fækkar við hækkandi hita og að margar karlkyns bjöllur verða ófrjóar við hitabylgjur.
Vísindamenn sem láta sig frjósemi karlkyns bjalla varða segja að ófrjósemi karlbjalla eigi eftir að aukast með hækkandi lofthita á jörðinni. Bjöllum í heiminum er skipt í um 400 þúsund ólíkar tegundir. Þrátt fyrir að fjöldi bjalla í heiminum sé enn mikill hefur þeim fækkað gríðarlega undanfarna áratugi.
Rannsóknir sýna einnig að fjöldi sáðfruma hjá spendýrum eins og mönnum, nautgripum og sauðfé fækkar einnig við hækkandi hita. Talning á sáðfrumum manna sýna að í mörgum löndum hefur fjöldi þeirra dregist saman um helming á síðustu 50 árum og ófrjósemi aukist.
Í sjálfu sér þarf aukin ófrjósemi mannkyns ekki að vera af hinu slæma á tímum offjölgunar. Verra er aftur á móti með bjöllurnar þar sem þær eru nauðsynlegur hlekkur í hringrás náttúrunnar.