Sala á drykkjarmjólk dregst saman
Sala á mjólkurvörum síðustu sex mánuði er yfir áætlunum. Sala á Smjöri og Smjörva helst nokkurn veginn óbreytt miðað við sama tímabil í fyrra en sala á osti hefur aukist um 2,6%.
Samkvæmt því sem segir í Mjólkurpóstinum, fréttabréfi Mjólkursamsölunnar, heldur sala á drykkjarmjólk áfram að gefa eftir en sala á bragðbættri mjólk eins og Kókómjólk, Hleðslu og Næringu eykst um 4,9% frá sama tíma í fyrra. Sala á skyri, jógúrt og rjómavörum dregst saman um 1,5%. Mjólkursamsalan gerði ráð fyrir 14.595 milljóna sölu, en sala var yfir áætlun og fór í 14.777 milljónir króna eða 183 milljónir yfir tekjuáætlun tímabilsins.
Ferðamenn auka sölu. Í kjölfar afléttinga vegna Covid-19 hefur sala á hótelum, veitingastöðum og kaffihúsum aukist og hefur það skilað sér til Mjólkursamsölunnar í auknum viðskiptum.
Í Mjólkurpóstinum segir að hjá MS hafi orðið vart við neyslubreytingar sem koma meðal annars fram í aukinni neyslu á nýmjólk en samdrætti í fituminni mjólk og bragðbættar drykkjarvörur hafa verið í sókn undanfarið.