Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi í fyrsta skiptið markaðssettar á Íslandi.
Vörurnar verða seldar undir vörumerkinu Grænlamb, sem er verkefni þriggja kvenna sem stunda sauðfjárbúskap í Kelduhverfi.
„Okkar framtíðarsýn er meðal annars að efla sauðfjárrækt í Kelduhverfi og gera það að eftirsóttum stað til búsetu,“ segir Guðríður Baldvinsdóttir í Lóni 2, sem er ein þeirra þriggja sem standa að verkefninu. Hinar konurnar eru Salbjörg Matthíasdóttir í Árdal og Berglind Ýr Ingvarsdóttir, Fjöllum 2. „Það viljum við gera með því að byggja á styrkleikum okkar – framleiðslu sauðfjárafurða á vel grónu landi í sátt við náttúruna, sem verða verðlagðar hærra á þeim forsendum. Lykilorð okkar er sjálfbærni, bæði hvað varðar landnýtingu og búrekstur.“
Vel gróið beitiland í Kelduhverfi
Að sögn Guðríðar hefur Kelduhverfi þá sérstöðu að mest allt beitiland er þar vel gróið. Um 90 prósent af því fellur í tvo bestu flokkana samkvæmt flokkunarkerfi GróLindar, sem metur og vaktar ástand gróður- og jarðvegsauðlinda landsins auk þess að þróa sjálfbærnivísa fyrir landnýtingu á Íslandi.
Á landsvísu er hlutfallið um 40 prósent. „Unnið hefur verið að verkefninu með hléum, samhliða öðrum störfum, enda erum við í verkefnisstjórninni í mörgum hlutverkum eins og aðrir sauðfjárbændur. Upphaf verkefnisins var þátttaka í Hacking Norðurland, frumkvöðlakeppni sem haldin var á vormánuðum 2021 og við unnum. Síðan fengum við ágætan styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2022 sem gerði okkur kleift að halda áfram,“ segir Guðríður.
Stefna á að vörurnar fáist víða
Takmarkið með verkefninu er að vörur seldar undir merkjum Grænlambs fáist víða, bæði beint frá býli og í völdum verslunum og kjötvinnslum. Einnig að veitingastaðir bjóði upp á Grænlambskjöt. Í byrjun verður hægt að kaupa vörur frá þeim þremur bæjum sem eru þátttakendur í verkefninu.
„Nú erum við komnar á þann stað að gera okkur sjálfar að tilraunadýrum og prufukeyra verkefnið í haust með að selja milliliðalaust okkar vörur. Við vonumst eftir góðum undirtektum því að sjálfsögðu viljum við taka verkefnið áfram og leyfa því að þróast,“ segir Guðríður.
Leitað eftir samstarfsaðilum um markaðssetningu
Aðrir bændur í Kelduhverfi eru jákvæðir út í verkefnið, að sögn Guðríðar, en hafa ekki allir áhuga eða tök á að vera sjálfir í beinni markaðssetningu og sölu. Þær sjá því fyrir sér samstarf í framtíðinni við aðila sem geta tekið þann þátt til sín. „Við viljum ná til þeirra neytenda sem hafa dregið úr eða jafnvel hætt neyslu lambakjöts vegna fyrirkomulags landnýtingar í dag en einnig stórs kolefnisspors. Við viljum sumsé vinna til baka þann markað.“
Vilja ná til nýrra neytenda
„Það var gerð óformlega skoðanakönnun á opnu Facebook-síðunum Gamaldags matur og Matartips sem sýndi að tæplega 50 prósent svarenda myndu frekar kaupa lambakjöt af vel grónu landi og að 80 prósent þeirra væru tilbúin að borga meira fyrir það en annað lambakjöt.
Við höfum því fulla trú á að það sé eftirspurn eftir þeirri vöru sem Keldhverfingar hafa upp á að bjóða. En við erum ekki eingöngu að tala um lambakjöt, því við erum einnig að vinna með ullina og ein okkar býður upp á ullarband af sínum kindum,“ segir Guðríður.
Á næstu dögum verður vefur verkefnisins opnaður á slóðinni graenlamb.is, þar er ýmsan fróðleik og upplýsingar að finna.
Guðríður segir að þær taki gjarnan við fyrirspurnum í gegnum netfangið graenlamb@graenlamb.is.