Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Eitt mesta áhyggjuefnið á alþjóðavísu hvað fuglainflúensu varðar er sá faraldur sem nú geisar af völdum skæða afbrigðisins H5N1 í mjólkurkúm í Bandaríkjunum.
Eitt mesta áhyggjuefnið á alþjóðavísu hvað fuglainflúensu varðar er sá faraldur sem nú geisar af völdum skæða afbrigðisins H5N1 í mjólkurkúm í Bandaríkjunum.
Mynd / Pixabay
Fréttir 31. janúar 2025

Sérfræðingar mjög á varðbergi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ísland fer ekki varhluta af skæðri fuglainflúensu sem hefur undanfarið sýkt og drepið villta fugla. Vísindamenn eru ekki síst smeykir við fuglainflúensustofn sem kominn er í bandarískar mjólkurkýr.

Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á baráttu gegn útbreiðslu fuglainflúensu og birti á heimasíðu sinni í desember ákall til allra þjóða heims um að leggja meiri áherslu á eftirlit og aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslu skæðra fuglainflúensuveira.

Skæðar fuglaflensuveirur af HPAI H5N1 stofni hafa verið í mikilli útbreiðslu um allan heim hin síðari ár. Fyrsta greining á H5N1 veiru var gerð árið 1959 í Skotlandi í alifuglum. Á árabilinu 1979- 1997 voru H5N1-inflúensustofnar í fuglum sem einangraðir voru fremur stöðugir. Ár 1996 kom upp faraldur í alifuglum í sunnanverðu Kína með veiru af H5N1-gerð og barst hún árið eftir til Hong Kong í alifugla. Af þeim 18 tilfellum sem greindust í mönnum létust sex manns. Milljónum fugla var slátrað bæði í S-Kína og Hong Kong til að stöðva faraldurinn. Árið 2003 komu H5N1-veirur fram á nýjan leik í S-Kína í alifuglum og dreifðust þá til fjölda landa í Asíu og greindust mörg tilfelli einnig í mönnum.

Tæp þúsund tilfelli í mönnum

Árið 2005 tóku H5N1-veirur að dreifast enn frekar um heiminn með villtum fuglum, m.a. til landa í Afríku, Mið-Austurlöndum og Evrópu. Síðan þá hafa margir HPAI H5-erfðahópar (Clade) og línur myndast víða um heim.

Frá 1997 hafa meira en 970 tilfelli af H5N1-fuglaflensu greinst í mönnum í 24 löndum. Einkenni sýkinga með H5N1- fuglaflensuveirum hafa verið frá því að vera einkennalaus til mjög alvarlegrra einkenna. Um 50% tilfella í mönnum hafa leitt til dauða. H5N1-smit milli manna eru þó mjög sjaldgæf og einungis tvö eða þrjú líkleg tilfelli þekkt.

Frá árinu 2005 hafa tugir milljóna fugla smitast í Evrópu, aðallega villtir vatna- og sjófuglar en einnig alifuglar. Smit hafa jafnframt greinst í fjölda spendýrategunda, aðallega villtum rándýrum sem eru í náinni snertingu við villta fugla, en einnig á m.a. loðdýrabúum og í ketti. Þessi þróun sýnir glöggt hæfileika veirunnar til að aðlagast nýjum dýrategundum.

Andfuglar og mávar eru höfuðhýslar fuglainflúensuveiru og vanalega veikjast fuglarnir ekki. Nokkuð óvenjulegt þykir með H5N1 að hún er mjög skæð í villtum fuglum og drepur þá í stórum stíl.

Sá H5-stofn (Clade 2.3.4.4B) sem hefur verið í dreifingu í Evrópu hefur ekki oft greinst hjá fólki og smithætta fyrir almenning í Evrópu talin lítil. H5N1-sýking hefur greinst í andabónda í Skotlandi og starfsmanni á spænsku minkabúi og alvarleg veikindi og jafnvel andlát hafa orðið hjá fólki m.a. í Asíu og S-Ameríku, en flestir einstaklinganna virðast hafa verið í langvarandi eða náinni snertingu við veika fugla í tengslum við fuglahald við heimili.

Fuglainflúensustofninn H5N1 (Clade 2.3.4.4B) greindist fyrst á Íslandi í villtum fuglum vorið 2022 og að auki í heimilishænum á sama stað, skv. Matvælastofnun (Mast). Þá olli H5N1 stórfelldum súlnadauða sama ár.

Úr einum stofni í annan

H5N1-stofn fuglainflúensu sem grasserað hafði undanfarin misseri á Íslandi, hætti nánast að greinast síðasta haust og er nú skæður H5N5-stofn ráðandi, sem er gamla H5N1-veiran búin að skipta m.a. N-erfðaefnisbútnum út. Veiran er með átta erfðaefnisbúta sem hún getur stokkað upp að hentugleikum til að fjölga sér innbyrðis.

H5N5 hefur greinst í villtum fuglum á norðurslóðum frá árinu 2021, en einnig að einhverju marki í villtum spendýrum eins og rauðref, þvottabirni og skunki í austurhluta Kanada, rauðrefum og gaupu í Noregi og otri í Hollandi.

H5N5 fannst fyrst hér á landi í dauðum haferni úti fyrir Barðaströnd og æðarfugli á Ólafsfirði haustið 2023 og hefur verið að greinast í villtum fuglum síðan. Seint á síðasta ári hafði, skv. upplýsingum frá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, mest borist af veikum eða dauðum hröfnum og mávum.

Fuglainflúensustofninn H5N5 hefur greinst í villtum fuglum á norðurslóðum frá árinu 2021.

Ekki vísbendingar um smit milli spendýra

Skömmu fyrir síðustu áramót stakk H5N5-fuglainflúensa sér niður á alifuglabúi, en fljótt náðist þó að koma böndum á frekari útbreiðslu þar. Undanfarið hafa svo borist tilkynningar um marga dauða eða veika villta fugla, ekki síst grágæsir á höfuðborgarsvæðinu, en einnig álftir. Í þeim hefur greinst skæð H5N5-fuglainflúensa.

Tvö staðfest H5N5-smit eru í heimilisköttum í janúar og fleiri kattahræ til rannsóknar. Líklegast þykir að kettirnir hafi smitast af sýktum villtum fugli. Auk þess fannst hræ af mink í Vatnsmýri fyrir fáum dögum og er rannsakað m.t.t. fuglainflúensusmits.

Þetta mun vera í fyrsta sinn í heiminum sem veira af þessari gerð greinist í heimilisketti svo vitað sé og fyrsta tilfelli um veiruna í dýri í haldi manna, skv. Mast.

Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að skæð fuglainflúensa berist í spendýr hér á landi, bæði í villt dýr og húsdýr á borð við hunda og ketti. Skv. Þóru J. Jónasdóttur, yfirdýralækni Mast, eru þó ekki vísbendingar um að H5N5- fuglainflúensan smitist milli spendýra. Segir hún að sýkt spendýr hafi að öllum líkindum veikst við að éta hræ sýktra dýra.

Mast segir smithættu fyrir fólk af völdum fuglainflúensu H5N5 talda litla en þó er fólk minnt á að gæta hreinlætis í umgengni við dýr og umhirðu þeirra. Þeir sem hafa verið í umgengni við fuglainflúensuveik dýr þurfa þó að fara í sýnatöku og almenningi er ráðið frá að snerta dauða fugla.

Fuglainflúensa í bandarískum mjólkurkúm

Eitt mesta áhyggjuefnið á alþjóðavísu hvað fuglainflúensu varðar er sá faraldur sem nú geisar af völdum skæða afbrigðisins H5N1 í mjólkurkúm í Bandaríkjunum. Arfgerð þeirrar veiru sem þar um ræðir hefur þó enn sem komið er ekki greinst annars staðar í heiminum, skv. Mast. Veiran er í kúamjólk og búin að aðlaga sig nautgripum í fjölda ríkja og smitast milli þeirra. Þar er víða vinsælt að drekka ógerilsneydda mjólk, sem veldur áhyggjum. Yfir 60 tilfelli eru þekkt í fólki í Bandaríkjunum og þau flest komin úr kúm, en fram til þessa hafa einkennin verið væg í mönnum. Bandaríska landbúnaðarráðuneytið gaf út alríkisfyrirmæli skömmu fyrir áramót um að mjólk yrði prófuð á landsvísu.

H5N1 greindist fyrst í nautgripum í Bandaríkjunum fyrir tæpu ári og eru hæg viðbrögð yfirvalda í að takmarka útbreiðslu sögð valda því að nú séu hið minnsta 860 hjarðir í 16 ríkjum sýktar, skv. Scientific American, SCIAM-veftímaritinu, seint í desember sl.

Um miðjan desember varð unglingur í Kanada lífshættulega veikur af H5N1 sem talin er hafa komið úr fuglum en ekki úr nautgripum, skv. vísindatímaritinu Science. Ekki hefur þó tekist að staðfesta uppruna smitsins í drengnum.

Í Finnlandi hefur verið ákveðið að bólusetja starfsfólk í landbúnaði fyrir fuglainflúensu og er sú umræða einnig komin upp í Bandaríkjunum þar sem um 4,8 milljónir skammta af bóluefni munu vera til á lager, skv. SCIAM.

Vísindamenn telja margir enga leið að segja til um hvort faraldur í mönnum brjótist út eða ekki, stökkbreytingar veirunnar séu illfyrirsjáanlegar.

Óttast faraldur í mönnum fyrr eða síðar

Þótt það sé enn ekki að fullu staðfest með raðgreiningum, þá virðist H5N5-afbrigðið sem er í gangi á Íslandi ekki vera með neinar sjáanlegar stökkbreytingar sem eru aðlögun að manni. Þannig virðist ekki um að ræða sama raðgreiningarafbrigði/ stökkbreytingu sem þekkt er í mörgum veirum úr fuglum sem hafa farið yfir í menn.

Vísindamenn telja margir enga leið að segja til um hvort faraldur í mönnum brjótist út eða ekki, stökkbreytingar veirunnar séu illfyrirsjáanlegar. Ýmsar nýlegar niðurstöður virðast þó benda til að hættan á því að núverandi H5N1 í nautgripum og fuglum valdi heimsfaraldri sé í raun meiri en áður var talið.

Vírusinn gæti þó þurft lengri tíma til að ná hinni réttu samsetningu stökkbreytinga til að komast yfir í menn. Veiruónæmisfræðingurinn Scott Hensley, við Perelman læknaháskólann í Pennsylvaníu, segir í grein í vísindatímaritinu Science, truflandi til þess að hugsa að vírusinn í kanadíska unglingnum gæti hafa haft allt sem þurfti til að valda heimsfaraldri, ef sá vírus hefði borist í fleiri einstaklinga.

Fyrstu ummerki árið 1996

Upphaf áhyggna manna af fuglainflúensu má sem fyrr segir rekja til ársins 1996, í S-Kína og Hong Kong, þar sem vísindamenn byrjuðu að fylgjast vandlega með H5N1. Eftir faraldurinn þá varð ekki mikið vart við veiruna næstu áratugina, þó að hún stingi sér eitthvað niður.

Árið 2005 fór fuglainflúensa hins vegar af stað í villtum fuglum víða um heiminn og þóttu líkindi til að hún myndi berast til Íslands. Fuglainflúensan var skæð og var talað um 60–80% líkur á dauða.

Um það leyti hófu Keldur átak í að vakta fugla, fyrst og fremst villta fugla, og byggð var fullkomin P3-öryggisrannsóknastofa (Bio Safety Level 3+) sem er fullkomnasta krufninga- og öryggisrannsóknastofa landsins. Fuglainflúensuveiran hefur síðan verið fyrirferðarmikil í starfsemi Keldna og er rannsökuð undir hæstu öryggisstöðlum.

Kapphlaup milli hýsils og veiru

Bylgjur sýktra og dauðra fugla í einstökum fuglastofnun stafa fyrst og fremst af því að sýkingin hefur borist í fuglahópa þar sem lítið eða ekkert hjarðónæmi er fyrir hendi og því mikið um fullmóttækilega fugla. Einnig getur veiran verið með einhverjar breytingar í erfðaefninu sem gera afbrigðið meinvirkara og/eða hæfara til að sýkja tiltekna fuglategund.

Í Covid-faraldrinum völdust til að mynda æ mildari stofnar og þótt Covid sé enn töluvert í gangi hér á landi er ekki rætt mikið um það lengur því svo mikið ónæmi er í samfélaginu og stofnarnir hafa valist til að vera tiltölulega meinlausir.

Aðgerðir í landnotkun reynast ábatasamar
Fréttir 28. febrúar 2025

Aðgerðir í landnotkun reynast ábatasamar

Mörg hundruð milljarða ábati er af landnotkunaraðgerðum stjórnvalda samkvæmt kos...

Vilja fella niður lög um gæðamat
Fréttir 28. febrúar 2025

Vilja fella niður lög um gæðamat

Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um að fella b...

Háihólmi veltir meira en milljarði króna
Fréttir 28. febrúar 2025

Háihólmi veltir meira en milljarði króna

Háihólmi ehf. hagnaðist um 7,9 milljónir króna í fyrra. Rekstrartekjur heildsölu...

Fréttaveita frá deildafundum búgreina
Fréttir 27. febrúar 2025

Fréttaveita frá deildafundum búgreina

Deildafundir búgreina hjá Bændasamtökum Íslands fara fram í dag og á morgun á Hi...

Matarsóun mælist mest á frumframleiðsluþrepi
Fréttir 27. febrúar 2025

Matarsóun mælist mest á frumframleiðsluþrepi

Matarsóun mælist mest í frumframleiðsluþrepi virðiskeðjunnar; 29.130 tonn, eða 4...

Þróunarverkefni búgreina styrkt
Fréttir 27. febrúar 2025

Þróunarverkefni búgreina styrkt

Matvælaráðuneytið úthlutaði rúmum 172 milljónum króna til 51 þróunarverkefnis í ...

Aukið kornhlutfall í fóðri hefur jákvæð áhrif á kjötgæði
Fréttir 27. febrúar 2025

Aukið kornhlutfall í fóðri hefur jákvæð áhrif á kjötgæði

Í niðurstöðum skýrslu sem Matís hefur gefið út um áhrif fóðrunar á gæði kjöts af...

Enn er deilt um Geitdalsárvirkjun
Fréttir 26. febrúar 2025

Enn er deilt um Geitdalsárvirkjun

Fyrirhuguð framkvæmd allt að 9,9 MW virkjunar í Geitdalsá, á hálendi Austurlands...