Síðasti frumskógurinn í Evrópu
Trjálundur í Białowieża-skógi í Póllandi er síðasti frumskógurinn í Evrópu og á Heimsminjaskrá Unesco. Þrátt fyrir það hefur skógarhögg á svæðinu þrefaldast á undanförnum árum.
Stjórn Evrópusambandsins hefur farið þess á leit við stjórnvöld í Póllandi að skógarhögg í skóginum verði bannað og skógurinn friðaður. Talið er að um 30.000 rúmmetrar af trjám hafi verið felld í skóginum á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs.
Náttúruverndarsamtök í Evrópu hafa miklar áhyggjur af trjáfellingum í Białowieża-skóginum og segja að ef fram haldi með skógarhöggið muni síðasti frumskógurinn í Evrópu heyra sögunni til og allt skóglendi í álfunni vera manngert.
Í síðustu viku hótaði Unesco að taka skóginn af Heimsminjaskrá ef felling skógarins verði ekki hætt strax.