Sjónum verði beint að sjávarorkunni
Sjávarfallavirkjanir eru endurnýjanleg og hrein orkuauðlind sem Íslendingar gætu nýtt til orkuöflunar. Frekari rannsókna er þörf og grundvallaratriði að stjórnvöld horfi á sjávarorkunýtingu sem framtíðarvalkost í orkuöflun og marki um það stefnu.
Vorið 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands, með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar.
Einnig að leggja drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku. Var það í kjölfar skýrslu Valorku, fyrirtækis um nýsköpun og þróun sjávarhverfla til orkuframleiðslu, til þingsins 2011 um möguleika í sjávarorkunýtingu. Ráðherraskipuð nefnd var sett á laggirnar og skilaði sérfræðiskýrslu um málefnið nokkru síðar. Niðurstaðan var einkum að skynsamlegt væri að hefja rannsóknir og Látraröst á Vestfjörðum nefnd sem heppilegur byrjunarreitur. Ekkert var þó frekar aðhafst og skýrslan dagaði uppi í ráðuneytinu.
Valdimar Össurarson, framkvæmdastjóri Valorku og formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna, hvetur þingið til að rísa undir þessari samhljóða samþykktu þingsályktunartillögu.
„Tvennt þarf að gerast: annars vegar að stjórnvöld móti stefnu um að þau ætli að skoða sjávarorkunýtingu sem framtíðarvalkost í orkuöflun og svo hins vegar að hefja rannsóknir á þessari gríðarlegu orkulind sem þjóðin á þarna í sjónum,“ segir Valdimar. „Það er ekki hægt að stinga hausnum í sandinn lengur. Aðalatriðið er að fá upp umræðu og kynningu í samfélaginu um þennan valkost.“
Hann bendir á að mikill almennur áhugi sé á nýtingu sjávarfallaorku eins og könnun Maskínu í fyrra hafi leitt í ljós. „Samkvæmt henni vildu 72% aðspurðra nýta hana til öflunar viðbótarorku; langtum fleiri en vilja vatnsfalla- og vindorku. Sjávarfallaorka er geysilega umfangsmikil orkuauðlind hér við land og tækni til nýtingar hennar er þegar í sjónmáli; m.a. þróuð hérlendis.“
Ný skýrsla fyrir þingið í haust
Sú hugmynd að nota sjávarföll til orkuframleiðslu er síður en svo ný af nálinni. „Gríðarlega mikil þróun er í gangi og búin að vera lengi,“ segir Valdimar og heldur áfram: „Skotar hafa lengst beitt sér í þessu og eru með býsna öfluga stefnu í nýtingu á sjávarorku sem framtíðarorkuuppsprettu. Þeir drógu vagninn lengi vel en núna eru, má segja, öll þróuð ríki að skoða þessi mál af alvöru.
Sjávarfallaorka er þegar í notkun. Ekki er þó farið að fjöldaframleiða neinar túrbínur, að sögn Valdimars og aðferðin því ekki komin á sama stað og vindorka. „Það er engin tækni komin í fjöldaframleiðslu. En með frumgerðum er farið að framleiða inn á net, í tilraunaskyni.
Við þurfum ekki að horfa langt því Færeyingar eru nú að fá upp úr sínum sundum töluvert mikla raforku og eru komnir ljósárum fram úr okkur í þessum efnum.“
Hér á landi eru enn sem komið er aðeins örfáir að velta sjávarfallavirkjunum fyrir sér og segist Valdimar hafa til skamms tíma verið einn um þessar vangaveltur, raunar í ríflega hálfa öld. Hann á eina einkaleyfið á íslenskum hverfli sem er til á landinu, á 25 m frumgerð nothæfs hverfils, en segir tvo aðila aðra hér innanlands vera að skoða hugmyndir að annars konar hverflum. Valdimar hlaut gullverðlaun Alþjóðasamtaka hugvitsmanna árið 2011 og hefur komið á fót gagnasafni á sviði sjávarorku á vefnum valorka.is.
„Að störfum er nefnd hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem á að skila skýrslu um nýja orkuöflunarmöguleika, fyrir utan þá hefðbundnu og vindorku, upplýsir Valdimar. „Við mættum þar tveir sem höfum verið í sjávarorku á fund nú í sumarbyrjun. Skýrslan kemur líklega fyrir þingið í haust,“ bætir hann við.
Að byrja smátt og einmitt við Látraröst segir Valdimar skynsamlegt og tekur þar undir áðurnefnda sérfræðiskýrslu. Mikill sjávarstraumur liggur út Breiðafjörðinn með fram Látrabjargi og nefnist Látraröst þar sem straumurinn fer fyrir Bjargtanga. „Látraröst er stærsta röst landsins og aðstæður þar mjög heppilegar fyrir sjávarfallavirkjun. Þar er jafn straumur í sömu átt í tugi kílómetra og hægt að taka upp alveg gríðarlega orku þarna,“ segir hann jafnframt.
Sjávarfallaorka til kyndingar vatns á köldum svæðum
Í nýrri skýrslu Valorku: Raunhæfi sjávarfallavirkjana, athugun á virkjun í Látraröst og nýtingu sjávarorku, var gerð tilraun til að svara því hversu sjávarorkuvirkjanir gætu orðið umfangsmiklar hér við land, jafnvel allt að 340 TWst/ári. Valdimar segir að vissulega sé margt í skýrslunni matskennt en gefi þó ákveðnar vísbendingar um fýsileika. „Ég tel augljóst að með einfaldri og ódýrri túrbínu, líkt og ég hef þróað, sem safnar á ódýran hátt orku af víðu svæði eins og þarf í hafstraumi, þá sé hægt að framkvæma þetta mjög hagkvæmt.“ Fjármagn vanti sárlega til rannsókna, en ekki endilega víst að þær séu svo kostnaðarsamar.
Í skýrslu Valorku er í fyrsta skipti vakin athygli á hagkvæmni þess að nýta sjávarfallaorku til kyndingar vatns á hinum „köldu“ svæðum landsins. Sérstakri athygli er beint að „Vestfjörðum sem búa við einstaklega ótrygga orkuöflun og eru nánast án jarðhita til kyndingar. Þar eru öflugustu sjávarfallarastir landsins uppi við landsteina; óþrjótandi orkulind sem innan fárra ára verður aðgengileg til nýtingar án þeirra miklu umhverfisáhrifa sem fylgja vatnsfallavirkjunum og vindmyllum. Þó ýmis gögn skorti enn, s.s. varðandi endanlegan kostnað við virkjunina, eru allgóðar vísbendingar um að sjávarfalla- virkjun verði mjög hagkvæmur orkuöflunarkostur þar sem aðstæður eru góðar,“ segir í skýrslunni.