Skilaréttur leiðir til hærra matvöruverðs
Samkeppniseftirlitið segir í nýrri skýrslu að matarsóun leiði til hærra matarverðs. Brýnt er að bregðast við þeirri sóun á ferskum matvælum, aðallega kjötvörum, sem núverandi fyrirkomulag hefur í för með sér enda leiðir hún til hærra matvælaverðs.
Í skýrslunni segir að lengi hafi tíðkast að dagvöruverslanir hafi skilarétt á vörum sem þær kaupa af birgjum. Í því felst að verslanirnar geta skilað og fengið endurgreiddar vörur sem ekki seljast fyrir síðasta ráðlagða söludag. Á þetta einnig við um viðkvæmar vörur eins og t.d. ferskar kjötvörur. Samkvæmt ábendingum sem borist hafa Samkeppniseftirlitinu hefur þetta leitt til mikillar sóunar á matvælum þar sem ekki er unnt að nýta ferskar vörur sem skilað er til birgja eftir að þær hafa verið á boðstólum í verslunum, nema að takmörkuðu leyti.
Að mati Samkeppniseftirlitsins er brýnt að taka til skoðunar hvort endurskoða beri núgildandi samningsákvæði um skilarétt dagvöruverslana á vörum. Ástæða er til þess að ætla að einhliða skilaréttur sem hvílir á birgjum, sé til þess fallinn að draga úr hvata dagvöruverslunarinnar til þess að koma vörum í sölu, eftir atvikum með því að lækka verð þegar líður að síðasta söludegi. Af þessu hlýst sóun á matvöru sem leiðir jafnframt til hærra vöruverðs. Þá er ljóst að núverandi fyrirkomulag dregur úr hvata dagvöruverslana til að stýra innkaupum og framboði á viðkvæmum ferskum vörum í samræmi við raunverulega eftirspurn þar sem áhætta vegna rýrnunar hvílir nær alfarið á birgjum.
Brýnt er að bregðast við þeirri sóun á ferskum matvælum, aðallega kjötvörum, sem núverandi fyrirkomulag hefur í för með sér. Hvetur eftirlitið því bæði birgja og verslanir til að endurskoða núverandi verklag hvað þetta áhrærir til að koma í veg fyrir matarsóun og stuðla þannig að lækkuðu verði til neytenda.