Skoða grundvöll fyrir miðhálendisþjóðgarði
Umhverfis- og auðlindaráðherra ætlar að setja á á fót nefnd sem ætlað verður að kanna forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu.
Í frétt á vef umhverfisráðuneytisins segir að nefndin eigi að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins, með langtímahagsmuni að leiðarljósi.
Fyrirsjáanlegt er að álag aukist á svæðinu með aukinni ásókn ferðamanna og því er mikilvægt að kanna hvaða stjórntæki séu ákjósanlegust til að stýra álagi til lengri tíma.
Í nefndinni munu sitja fulltrúar frá forsætisráðuneyti, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bændasamtökum Íslands, Samorku, umhverfisverndarsamtökum, Samtökum útivistarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þá munu sérfræðingar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði starfa með nefndinni auk þess sem Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands veita nefndinni ráðgjöf og upplýsingar.