Hvað er „sjálfbær nýting lands til beitar“?
Um árabil hefur umræða um beitarmál hreift við fólki, eins og títt er um auðlindanýtingu hefur verið tekist á um hvernig henni skuli helst vera fyrir komið. Það er eðlilegt. Varðandi beitarmál hefur umræðan hins vegar of oft verið byggð á tilfinningarökum og viðhorfum fremur en beinum rannsóknum og mælingum.
Í gæðastýringu sauðfjárræktar hefur verið lagt út frá sjálfbærri nýtingu lands til beitar. Viðmið um sjálfbærni hafa verið sett fram með þeim hætti að lagt er mat á ástand beitilands skv. ákveðnum matskvarða. Falli beitiland í ástandsflokka 3, 4 og 5 að þriðjungi eða meira (>33%) telst landið ósjálfbært til beitar eða ef 5% eða meira af landinu flokkast í ástandsflokk 5. Það hljóta allir að sjá að þessi flokkun ein og sér er ákaflega mikil einföldun við mat á sjálfbærni. Þessi mörk byggja mér vitanlega ekki á eiginlegum rannsóknum heldur einfaldlega hlutfalli sem talin hafa verið hæfileg. Þessi viðmið sem hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarið, geta vart talist sterkur faglegur grunnur fyrir þetta mat. Hvað þá upphaf og endir þess sem telst rangt og rétt eins og vænta má af orðræðunni.
Tökum ímyndað dæmi:
Beitarhólf A: 8% landsins lendir í ástandsflokki 3,4 og 5 og 4% landsins er í ástandsflokki 5. Landið stenst því sjálfbærniviðmið.
Beitarhólf B: 42% landsins lendir í ástandsflokki 3,4 og 5 og 3% landsins er í ástandsflokki 5. Landið stenst ekki sjálfbærniviðmið.
Það gengur jafn margt fé í báðum hólfum og beitartími er svipaður. Gott valllendi í nokkuð frjósömum jarðvegi er samtals 1.000 ha í beitarhólfi A en 10.000 ha í beitarhólfi B. Í beitarhólfi A er beitarálag nokkuð mikið, virkur uppblástur í hluta hólfsins en hæg eða engin framför í öðrum hlutum þess (gróðurfar er í hvorugu hólfi komið á ,,hástig“ framvindu). Beitarálag er létt í beitarhólfi B og gróðurfar er í góðri framför í næstum öllu hólfinu. Hvort skyldi nýting á beitarhólfi A eða B teljast sjálfbærari ef einnig væri horft til þróunar gróðurfars og tilhögun nýtingar?
Þessi mjög einfalda flokkun lands hefur hins vegar verið notuð til að sigta út viðkvæmari svæði. Með einhverjum hætti verður að nálgast stýringuna og það er e.t.v. ekki órökrétt að byrja þarna – þ.e. beina fjármagni og orku að þeim svæðum sem eru í lakara ástandi. Á beitarsvæðum sem lenda utan prósentumarka sjálfbærniviðmiða er unnið að landbótaáætlunum þar sem bændur í samvinnu við fagaðila setja upp áætlun um atriði eins og nýtingartíma, beitarfriðun og uppgræðsluaðgerðir. Það er þessi vinna sem hefur verið kölluð grænþvottur og blekkingar í fjölmiðlum undanfarna daga. Ég ætla ekki að hafa nein frekari orð um þessi ummæli en ég held þau dæmi sig sjálf þegar málin eru skoðuð ofan í kjölinn. Má í þessu samhengi hæglega leiða að því líkum að á mörgum þessara svæða sé framför gróðurs hraðari með þessu fyrirkomulagi vegna þeirrar vinnu sem stunduð er af landnotendum, heldur en ef ekkert væri gert annað en að friða svæðin.
Landssamtök sauðfjárbænda hafa lengi talað fyrir því að faglegur grunnur við mat á sjálfbærni verið styrktur og áðurnefnd viðmið um sjálfbæra nýtingu verði betrumbætt. Hefur þar fyrst og fremst verið horft til þess að meta þróun gróðurfars. Allt frá því að gæðastýring í sauðfjárrækt var endurskoðuð (að frumkvæði Landssamtaka sauðfjárbænda) árin 2012-2013 hafa samtökin sleitulaust talað fyrir því að farið verði í öflugt vöktunarverkefni á gróðurfari. Enda hlýtur þekking á því hvort beitiland er í framför, stendur í stað eða er í afturför að vera algjört lykilatriði þegar kemur að því að meta sjálfbærni. Í kjölfar nýrra búvörusamninga árið 2017 var svo komist að samkomulagi um vöktun gróðurfars í landinu. Verkefnið er fjármagnað að miklu leiti af búvörusamningum og er samstarfsverkefni bænda, landgræðslu og stjórnvalda. Landgræðslan fer með framkvæmd og stjórn verkefnisins sem nefnist Grólind. Það er von mín að við munum hafa þolgæði til að nýta niðurstöður þessa vöktunarverkefnis til að efla og bæta stjórn beitarmála á faglegum forsendum í samvinnu við notendur eins og til var stofnað.