Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Lesendarýni 3. júní 2020
Áhættumat erfðablöndunar – Of fá veiðivötn skilgreind
Höfundur: Valdimar Ingi Gunnarsson.
Forsendur eru vafasamar eða beinlínis rangar í Áhættumati erfðablöndunar sem samþykkt var með lögum frá Alþingi Íslendinga árið 2019. Tveimur mikilvægum lykilforsendum er verulega ábótavant í Áhættumati erfðablöndunar sem gerir niðurstöður úr líkaninu marklausar, en þær eru:
-
Dreifing strokulaxa er mun minni en gert er ráð fyrir.
-
Veiðivötn með laxalykt sem strokulax gengur upp í eru mun fleiri en gert er ráð fyrir.
Ef stuðst er við réttar forsendur í líkaninu er varðar fjölda veiðivatna með laxi og dreifingu eldislaxa fæst allt önnur niðurstaða úr líkaninu en fékkst þegar Áhættumat erfðablöndunar var birt árið 2017 og aftur við endurskoðun árið 2020. Jafnframt mun alltaf vera mikil óvissa og áramunir í fjölda eldislaxa sem sleppa, lifun þeirra í sjó og fjöldi eldislaxa sem sækja upp í veiðivötn.
Veiðivötn með laxalykt á Vestfjörðum
Í Áhættumati erfðablöndunar er eingöngu gert ráð fyrir uppgöngu strokulaxa í fjögur veiðivötn á svæðinu frá Látrabjargi að Rit í norðanverðu Ísafjarðardjúpi. Hér er um að ræða veiðivötnin; Laugardalsá, Ísafjarðará, Langadalsá og Hvannadalsá sem eru allar í Ísafjarðardjúpi. Í raun eru fleiri, eða um um 25 veiðivötn með skráða laxveiði eða fundist hafa laxaseiði í nokkrum mæli og í Arnarfirði hefur komið fram í rannsóknum að laxaseiði finnist í sjö veiðivötnum. Eldislax sem sleppur leitar einkum í veiðivötn með laxalyst og þá sérstaklega í veiðivötn í þeim firði sem slysaslepping átti sér stað.
Dreifing strokulaxa ofmetin
Valdimar Ingi Gunnarsson.
Í Noregi er áhersla lögð á að leita eldislaxa í veiðivötnum í sama firði og slysaslepping átti sér stað sem betur verður gert grein fyrir í seinni greinum. Við slysasleppingu, t.d. í Arnarfirði, mun eldislaxinn leita í mestum mæli upp í veiðivötn í firðinum og í mun minna mæli í veiðivötn s.s. í Ísafjarðardjúpi. Áhættumat erfðablöndunar sýnir of mikla dreifingu á eldislaxi sem sleppur og er einfalt að fá slíka niðurstöðu ef ekki er kannað hlutfall eldislaxa í öllum veiðivötnum með laxalykt á eldissvæðum. Til að fá raunhæfa dreifingu á eldislaxi þarf að fara í öll veiðivötn með laxalykt og mæla hlutfall eldislaxa og þannig fást rétt gögn í líkanið sem stuðst er við í Áhættumati erfðablöndunar. – Af hverju er ekki grunnforsenda aflað?
Fjöldi veiðivatna með laxalykt
Í Áhættumati erfðablöndunar er gert ráð fyrir að ákveðnu hlutfalli eldislaxa sem sleppa, ákveðinni lifun í sjó og þannig geti skilað sér tiltekinn fjöldi eldislaxa í veiðivötn. Eldislaxarnir sem sleppa dreifa sér síðan í ákveðin veiðivötn. Sá alvarlegi vankanti er á Áhættumati erfðablöndunar að aðeins er gert ráð fyrir fjórum veiðivötnum með laxalykt á Vestfjörðum en þau eru í raun um 25. Með því að bæta við um 20 veiðivötnum inn í líkanið skila sér mun færri strokulaxar úr slysasleppingu t.d. í Arnarfirði í fjögur veiðivötn í Ísafjarðardjúpi. Ef miðað er við 4% hámarkshlutfall eldislaxa í veiðivatni eins og Áhættumat erfðablöndunar leggur til mun hlutfallið vera lágt í veiðivötnum í Ísafjarðardjúpi en hætta er á að farið verði vel yfir viðmiðunarmörkin í veiðivötnum á sunnanverðum Vestfjörðum.
Á að fórna veiðivötnum á eldissvæðum?
Í Áhættumati erfðablöndunar er látið þannig að minni veiðivötn á eldissvæðum með laxalykt s.s. á sunnanverðum Vestfjörðum séu ekki til af einhverjum óljósum ástæðum. Í umsögn Erfðanefndar landbúnaðarins við fiskeldisfrumvarpið á vorþingi 2019 kemur fram:
,,Ef ætlun með frumvarpinu er sú að undanskilja ákveðna stofna úr áhættumatinu þarf það að vera skýrt. Enn fremur þarf að rökstyðja þá afstöðu, meðal annars m.t.t. líffræðilegra þátta og jafnræðisreglna. Með jafnræðisreglum er hér átt við jafnræði landeigenda sem eiga veiðirétt í laxám, hvort sem er í Arnarfirði, á Barðaströndinni, í Dölunum eða annars staðar.“
Ef fara á eftir Áhættumati erfðablöndunar munu litlir laxastofnar í veiðivötnum á eldissvæðum verða fyrir miklum neikvæðum áhrifum á meðan stærri laxastofnar fjær eldissvæðum verða fyrir litlum eða engum áhrifum. Hugsanlega hefur ákvörðun verið tekin að fórna minni veiðivötnum og ef svo er væri heiðarlegt að láta það koma fram.