Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hugmynd af virkjun Skúfnavatna  við suðaustanvert Ísafjarðardjúp hefur verið lengi í skoðun.
Hugmynd af virkjun Skúfnavatna við suðaustanvert Ísafjarðardjúp hefur verið lengi í skoðun.
Fréttir 9. febrúar 2016

Skúfnavatnavirkjun við Djúp hefur verið í skoðun í 68 ár

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hugmynd að Skúfnavatnavirkjun og virkjun Þverár á Langadals­strönd, nokkru utan við Rauða­mýri í Ísafjarðardjúpi, er búin að vera í deiglunni í nær 70 ár.
 
Er þetta ein af mörgum smávirkjanakostum á Vestfjörðum sem verið er að skoða í dag. Í síðasta Bændablaði var greint frá áhuga tveggja bræðra frá Bakkafirði á að gera svokallaða Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal við Djúp. Þar er verið að tala um allt að 35 megawatta virkjun. Þá er 55 megawatta Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum í rannsóknarferli. Eins var þar greint frá framangreindri virkjun Skúfnavatna, en að vísu var þar ranghermt að hún héti „Skúfnadalsvirkjun“. 
 
Indriði Aðalsteinsson, bóndi í Skjaldfannardal, segir að virkjun Þverár og Skúfnavatnanna þar fyrir ofan sé búin að vera mjög lengi á hugmyndastigi. Þetta hafi þó farið frekar hljótt, en hann segir að Skúfnavötn séu í nokkuð mikilli hæð. Þá hafi hann líka heyrt hugmyndir um að ekki þyrfti að grafa nema 18 metra djúpan skurð til að veita vatninu norður í Hvalárvirkjun á Ströndum. Reyndar munu, samkvæmt athugun Bændablaðsins, vera um 68 ár frá því farið var að skoða þennan virkjunarkost í alvöru.  
 
Rætt um 8,5 MW virkjun
 
Í núverandi hugmyndum í forathugun Orkustofnunar er miðað við að vatni verði veitt úr Hvannadalsá og Austurmannagili yfir í Þverá. Virkjað er fall úr 412 metrum yfir sjó niður í 75 metra yfir sjó. Gerð er áætlun um 8,5 (MW) virkjun sem framleiddi um 60 GWh af orku á ári. 
 
Þverá yrði stífluð neðan Skúfnavatna og myndast 24,5 gígalítra miðlun sem einnig yrði inntakslón virkjunar. Þaðan er virkjað í einu þrepi niður í Hvannadal með um 900 metra löngum aðrennslisskurði og 1400 metra niðurgrafinni pípu, að stöðvarhúsi sem staðsett yrði í Rauðamýrarfjalli. Frá því myndu svo liggja 600 metra löng frárennslisgöng með útrás í Hvannadalsá. 
 
Stofnkostnaður á orkueiningu er í skýrslunni sagður vera um 42 kr/kWh/a (verðlag janúar 2001). Fyrirkomulagi virkjunar er lýst ásamt kostnaðaryfirliti helstu verkþátta og fjallað er lauslega um staðhætti, jarðfræði og umhverfismál.  Stofnkostnaður án virkisaukaskatts á verðlagi 2007 var áætlaður rúmir 3,4 milljarðar króna. 
 
Forathugun gerð 2006
 
Í rammaáætlun um nýtingu vatnsorku og jarðvarma er að finna forathugun Orkustofnunar á Skúfnavatnavirkjun. Var þessi athugun framkvæmd af Almennu verkfræðistofunni hf. samkvæmt samningi sem gerður var á vordögum 2006. 
 
Fyrstu hugmyndir um Skúfnavatnavirkjun frá 1948
 
Í skýrslu um málið kemur fram að hugmyndir um virkjun Þverár úr Skúfnavötnum séu ekki nýjar af nálinni. Þegar á 5. áratug síðustu aldar var hafist handa við að kortleggja umhverfi Skúfnavatna, langsnið mögulegrar pípulínu landmælt og vatnsmælingar settar í gang árið 1948. Loftur Þorsteinsson, þá verkfræðingur hjá Raforkumálastjóra, gerði drög að áætlun um Skúfnavatnavirkjun árið 1952. Síriti var svo settur upp árið 1966.  
 
Árið 1974 kom hugmynd um 10 megawatta virkjun 
 
Tveimur áratugum síðar var blásið nýju lífi í Skúfnavatnavirkjun þegar Rafmagnsveitur ríkisins fólu Almennu verkfræðistofunni að kanna aftur virkjunaraðstæður og var farin nokkurra daga ferð á virkjunarsvæðið og mælingar framkvæmdar á lónstæði, stíflustæðum og pípulínu. Skrifuð var stutt skýrsla haustið 1974 um niðurstöðu athugana. Þar kom fram að virkja mætti Þverá með 18 gígalítra (GL) miðlun í Skúfnavötnum, Austurmannagilsveitu og Hvanna­dalsárveitu í 10 megawatta (MW) orkuveri með 64 gígawattstunda (GWh) orkuvinnslugetu á ári. Allar þessar tölur voru þó gerðar með fyrirvara um frekari gagnaöflun. Stofnkostnaður var metinn 810 milljónir króna á verðlagi 1974 en tekið fram að matið væri óábyggilegt vegna ófullnægjandi upplýsinga um efnisnámur o.fl.  
 
Í framhaldinu fólu Rafmagns­veitur ríkisins Almennu verkfræðistofunni að gera kostnaðar- og hagkvæmnisathugun og voru niðurstöður birtar í skýrslu í júlí 1976.
 
RARIK talar um 20 megawatta virkjun 1976
 
Í tilhöguninni er gert ráð fyrir 840 m löngum aðrennslisgöngum og 2275 m langri stálþrýstipípu niður hlíðina í Hvannadal þar sem stöðvarhús er fyrirhugað. Gert var ráð fyrir að veita Austurmannagili og Hvannadalsá yfir til Þverár og stærð miðlunar í Skúfnavötnum 50 Gl. Virkjað rennsli var ráðgert 7,8 m3/s og uppsett afl 20 MW. Orkugeta Skúfnavatnavirkjunar var áætluð frá 75 GWh/ári til 95 GWh/ári eftir því hvort virkjunin væri tengd við landskerfið eður ei. Stofnkostnaður var áætlaður 4.360 milljónir króna miðað við verðlag í apríl 1976.
 
Orkustofnun endurreiknar dæmið í 16 megawött árið 1988
 
Árið 1988 endurskoðaði og endurreiknaði Orkustofnun virkjanahugmyndir á Vestfjörðum og byggði niðurstöður sínar á orkulíkani Orkustofnunar og verðlagi í desember 1987. Áætlunin tók fyrir Skúfnavatnavirkjun og gerði ráð fyrir 16 MW virkjun sem framleiddi um 85 GWh af orku á ári.
 
Stofnkostnaður á orkueiningu var 16,6 kr/kWh/a. Fyrirkomulag virkjunar gerði ráð fyrir að Þverá væri stífluð rétt neðan við Skúfnavötn og veitu Hvannadalsár. 
 
Greinilegt er af þessum athugunum að virkjun Skúfnavatna þykir vel mögulegur kostur til raforkuframleiðslu. Sumar af fyrri hugmyndum um allt að 20 megawatta virkjun þykja þó vart raunhæfar.
Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...