Skýr afstaða í könnun
Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjármagn til að koma í veg fyrir riðu í sauðfé.
Þetta er niðurstaða viðhorfskönnunar sem fyrirtækið Prósent framkvæmdi frá 25. apríl til 12. maí síðastliðinn.
Alls svöruðu 1.366 manns netkönnun þar sem spurt var um viðhorf til þess að íslenska ríkið leggi aukið fjármagn í aðgerðir til að koma í veg fyrir riðu í sauðfé. Alls svöruðu 73% því að þeir væru mjög eða frekar sammála því, 21% svaraði hvorki né og 6% voru mjög eða frekar ósammála.
Þá var marktækur munur á afstöðu eftir búsetu, en 86% svarenda á Norðurlandi og 85% svarenda á Suðurlandi voru mjög eða frekar sammála en hlutfallið mældist 68% á höfuðborgarsvæðinu.