Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóði, sem gerir þeim kleift að fara í frekari framþróun með sína ræktun og verðmætasköpun úr hliðarafurðunum.
„Við vorum í Suður-Frakklandi að kynna okkur hvítlauksyrki sem við gætum mögulega notað hjá okkur,“ segir Haraldur Guðjónsson, sem ásamt konu sinni, Þórunni Ólafsdóttur, hóf ræktun á hvítlauk síðasta haust til markaðssetningar á Íslandi. „Stækkun stendur nú yfir á landinu sem við ætlum að nota undir ræktunina í haust, en við förum úr 0,4 hektara í tvo hektara – þar sem ræktunarsvæðið verður um 1,2 hektarar. Viðtökurnar hafa verið þannig að okkur fannst það liggja beint við að stækka landið. Það liggja tvö tún að okkar landi sem við fáum afnot af undir ræktunina.“
Blóðbergsblandað hvítlaukssalt
Haraldur segir að annar styrkurinn sé úr Afurð, en þar séu verkefni sem séu komin af hugmyndastigi en afurðirnar þó ekki tilbúnar til markaðssetningar. „Það verður einmitt verkefnið í haust að þróa fjórar vörur til viðbótar hvítlaukssaltinu sem við settum á markað í byrjun þessa árs – sem er í raun hliðarafurð af sjálfri hvítlauksræktuninni. Til viðbótar við hvítlaukssaltið Skjöld, sem hefur fengið góðar viðtökur, ætlum við að koma með hvítlaukssalt sem verður blandað blóðbergi úr sveitinni, hvítlauksolíu, hvítlauksmauk og hvítlauks-confit – sem ekki er til hér á Íslandi en er hvítlaukur sem hitaður er í olíu við vægan hita og hægt er til dæmis að smyrja beint á brauð eða hvað sem er.“
Einnig fengu þau styrk úr Fjársjóði, til að afla sér frekari þekkingar um hvítlauksræktunina og möguleg hvítlauksyrki til notkunar í Dölunum.
Fimm til tíu prósent hliðarafurðir
Hliðarafurðirnar úr hvítlauksræktuninni eru nánar tiltekið afgangs hvítlauksgeirar, sem ná ekki stærðarviðmiðum til að verða útsæði. Það sem afgangs varð frá síðasta hausti, þegar þau settu niður í fyrsta skipti lauk til markaðssetningar, var notað til þróunar og framleiðslu á Skildi. Haraldur segir að reikna megi með að um fimm til tíu prósent uppskerunnar gangi þannig af og sé hægt að nýta til verðmætasköpunar með framleiðslu á nýjum afurðum.
Raunin sé sú að framleiðslan úr hliðarafurðunum stefni í að verða álíka verðmæt og sjálfur hvítlaukurinn, en flestir sem séu stórtækir í hvítlauksræktun hendi bara þessum afgangsgeirum.
„Við reiknum með að fara í þessa vöruþróun á nýjum afurðum í október,“ segir Haraldur að lokum.