Stefnt að því að áburðarverksmiðja verði reist á Reyðarfirði
Stefnt er að því að umhverfisvæn áburðarverkmiðja verði reist á Reyðarfirði. Ef áætlanir ganga eftir gæti slík verksmiðja orðið að veruleika eftir fimm til sex ár.
Unnið er að hagkvæmnisathugun á því að slík verksmiðja verði reist í tengslum við verkefnið Orkugarður Austurlands.
Rafeldsneyti og ammoníak
Hugmyndin er að með vetnisframleiðslu í orkugarðinum verði hægt að búa til rafeldsneyti með rafgreiningu, til dæmis ammoníak – sem hægt verði að nýta til áburðarframleiðslunnar.
Magnús Bjarnason hjá MAR Advisor leiðir vinnuna við þróun á verkefninu í samvinnu við Landsvirkjun, Copenhagen Infrasturucture Partners (CIP), Landsvirkjun og Fjarðabyggð.
Hann segir að unnið sé að því að kanna hagkvæmni þess að þróa slíkan orkugarð – og samhliða slíka áburðarverksmiðju.
Orkuskipti og áburðarframleiðsla
„Í Orkugarði Austurlands er hugmyndin að þróa leiðir sem gagnast við orkuskipti á Íslandi, sem meðal annars felur í sér að framleiða vetni með rafgreiningu og þannig búa til rafeldsneyti, til dæmis ammoníak sem einnig getur nýst í áburðarframleiðslu.
Ef vel tekst til með verkefnið er von okkar að hægt verði að skipta út jarðefnaeldsneyti og nota rafeldsneyti í þunga- og skipaflutninga sem og sjávarútveg.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að nota hliðarafurðir sem verða til við vetnisframleiðslu í aðra starfsemi.
Þannig verður til súrefni sem getur nýst í landeldi og varmi sem getur nýst í upphitun húsa.
Eins og hefur komið fram opinberlega þá hefur verið samið um samstarf við íslensk fyrirtæki um þróun hugmynda í Orkugarði Austurlands, eins og Atmonia, Laxa og Síldarvinnsluna,“ segir Magnús.