Tæknin byltir matvælaiðnaði
Spennandi tímar eru framundan fyrir matvælarannsóknir og matvælaiðnaðinn. Tímarnir eru að breytast hratt og sömuleiðis neytendurnir.
„Miklar tæknilegar umbyltingar eiga eftir að eiga sér stað tengt matvælum í framtíðinni, en tæknileg umbylting á við um tækni sem annaðhvort leysir af hólmi þekkta tækni og hristir upp í iðnaðnum, eða er slík nýjung að hún býr til algjörlega nýjan iðnað,“ segir doktor Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís, sem heldur erindi á ráðstefnunni Þekking og færni í matvælageiranum.
Miklar breytingar í vændum
Hörður segir að allir þekki nú orðið fyrirtæki eins og Uber sem umbylti leigubílaiðnaðinum, AirBnB sem umbylti hóteliðnaðinum og svo iTunes sem gjörbylti því hvernig við hlustum á og nálgumst tónlist.
„Matvælaiðnaðurinn hefur verið frekar íhaldssamur, en það er að breytast. Heimurinn er að breytast hratt, og við sem vinnum að matvælarannsóknum og erum að þróa og framleiða mat þurfum að fylgjast vel með, skilja markaðinn og hvert hann stefnir. Annars missum við af lestinni,“ segir Hörður
Ný tækni sem prentar matvæli
„Það eru magnaðir hlutir að gerast tengt matvælum. Sem dæmi þá erum við að sjá fyrirtæki koma með tækni sem gerir okkur kleift að prenta matvæli eftir pöntun heima hjá okkur og þannig klæðskera matinn okkar eftir því hvaða næringargildi hann á að hafa, bragð, áferð og fleira.
Eldhús framtíðarinnar verður allt annað en það er í dag og verður svo tengt við okkur og netheima að það mun skilja okkar neyslumynstur í þaula, panta fyrir okkur matinn, hjálpa okkur að undirbúa hann og jafnvel elda fyrir okkur. Við erum svo að sjá matvælafyrirtæki prófa sig áfram með dróna til að koma með mat heim að dyrum. Líftæknin er líka að koma sterkari inn í matvælageirann, og eru menn til dæmis að þróa leiðir til að framleiða kjöt úr vöðvafrumum með stofnfrumutækni.“
Vel upplýstir neytendur
Sá hópur neytenda sem hefur mest áhrif á matvælamarkaðinn núna eru þúsaldarbörnin, að sögn Harðar, fædd 1980 til 2000. „Þessi hópur er mjög vel upplýstur og gerir meiri kröfur en aldrei fyrr til matvælaframleiðenda um gegnsæi og heilnæmi. Þeirra líf snýst um rafræna miðla og þurfa matvælafyrirtækin að vera vel meðvituð um það. Í dag eru litlu matvælafyrirtækin og sprotarnir að skapa framtíð matvælaiðnaðarins, því þau eru framsýnni og með meiri nýsköpunarkraft miðað við stærri fyrirtækin og höfða til hóps framtíðarneytenda. Stóru matvælafyrirtækin eru of hæg, eru ekki að fylgja tímanum hvað nýsköpun og vöruþróun varðar, og þau vita það. Þess vegna eru stóru fyrirtækin að fjárfesta í þeim litlu, t.d. í gegnum sína eigin áhættufjárfestingasjóði. Sem dæmi, í Bandaríkjunum hafa á undanförnum árum yfir 400 frumkvöðlafyrirtæki tengt matvælum búin að fá yfir $8 milljarða í fjármögnun frá áhættufjárfestingasjóðum og stórum fyrirtækjum. Stóru fyrirtækin eru að sjá fall í sölu og sjá vöxt í gegnum smærri frumkvöðlafyrirtækin. Má því gera ráð fyrir frekari klofnun eða skiptingu innan matvælageirans frekar en samþjöppun, en þetta skapar ný tækifæri. Fjárfestar þyrpast því núna í matvælageirann, m.a. þeir sem fjárfestu í tækniumbyltingunum í kísildalnum í Kaliforníu. Þeir sjá næstu umbyltingu eiga sér stað í matvælum, tæknivæðingu matvælaiðnaðarins.“
Ótal tækifæri
„Það eru ótal tækifæri fyrir okkur Íslendinga að skara fram úr á sviði matvælarannsókna og framleiðslu. Til þess að ná framúrskarandi árangri í því breytta landslagi sem við búum við þá þurfum við að vera óhrædd og kjörkuð til að gera hlutina á nýjan hátt. Við þurfum að sleppa takinu á því þægilega. Það sem virkaði fyrir okkur í gær mun ekki virka fyrir okkur á morgun,“ segir dr. Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís.