Tvíbreið brú byggð yfir Stóru-Laxá
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, skrifuðu nýlega undir verksamning um smíði brúar yfir Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Verkið felst í byggingu tvíbreiðrar brúar yfir Stóru-Laxá, gerð nýs vegarkafla Skeiða- og Hrunamannavegar beggja vegna, breikkun vegamóta við Skarðsveg og við Auðsholtsveg og gerð reiðstígs.
Nýja brúin verður til hliðar við núverandi brú, staðsteypt, eftirspennt bitabrú, 145 m löng í fjórum höfum.
Lengd vegkafla er rúmlega 1.000 metrar og lengd reiðstígs rúmir 300 metrar.
Ístak bauð rúma 791 milljón króna í verkið sem var tæplega 82 prósent af áætluðum verktakakostnaði.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi m.a. með fækkun einbreiðra brúa, greiða fyrir umferð af hliðarvegum og auka öryggi hestamanna. Áætluð verklok eru fyrirhuguð 30. september 2022.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, sem skrifuðu undir og handsöluðu samninginn um nýju brúna yfir Stóru-Laxá. Mynd / Vegagerðin