Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hans Þór Hilmarsson upplifði þann draum á Landsmótinu í sumar þegar hann sýndi Sindra frá Hjarðartúni að fá 9,38 fyrir hæfileika, sem er jafnframt hæsta hæfileikaeinkunn sem gefin hefur verið íslenskum hesti í kynbótadómi frá upphafi
Hans Þór Hilmarsson upplifði þann draum á Landsmótinu í sumar þegar hann sýndi Sindra frá Hjarðartúni að fá 9,38 fyrir hæfileika, sem er jafnframt hæsta hæfileikaeinkunn sem gefin hefur verið íslenskum hesti í kynbótadómi frá upphafi
Mynd / Aðsend
Fréttir 7. desember 2022

Upplifði drauminn

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Að sýna hross yfir 9,00 fyrir hæfileika er draumur flestra atvinnumanna og sýnenda kynbótahrossa.

Hans Þór Hilmarsson upplifði þann draum á Landsmótinu í sumar þegar hann sýndi Sindra frá Hjarðartúni í 9,38 fyrir hæfileika, sem er jafnframt hæsta hæfileikaeinkunn sem gefin hefur verið íslenskum hesti í kynbótadómi frá upphafi.

„Sindri er með einstakt geðslag og frábærar gangtegundir. Það sem er sérstakt við hann er kannski fyrst og fremst þetta fjaðurmagn og léttleiki sem hann hefur á tölti og brokki en samt með þetta rými sem hann býr yfir. Það er kannski það sem skilur hann frá mörgum öðrum góðum hestum sem maður hefur verið með,“ segir Hans en ef skoðaðar eru umsagnir Sindra fyrir eiginleikana í hæfileikadómi má sjá orðunum léttstígt, ferðmikið, takthreint og mýkt bregða ansi oft fyrir.

Hans Þór tekur við viðurkenningu á Hrossarækt 2022. Með honum eru Sveinn Steinarsson, formaður deildar hrossabænda, og Heiðrún Ósk Eymundsdóttir, varaformaður. Mynd /GB1
Úthugsuð sýning

Þegar hross sýna svo mikil afköst þarf að passa vel upp á þau og varast að fara ekki fram úr þeim. Að baki svona sýningum eru ófáar þjálfunarstundir og mikilvægt er að hesturinn sé líkamlega og andlega tilbúinn í verkefni sem þetta.

„Í þessu tilviki var ég búinn að setja upp og taka nokkrar æfingar þar sem við fórum yfir hvernig ég ætlaði að stilla sýningunni upp. Hvaða gangtegundir hjálpuðu okkur yfir í næstu gangtegundir og alls konar þannig pælingar. Ég t.d. ákvað að byrja á töltinu og klára það af, bæði upp á fyrstu hughrif hjá dómurunum og svo líka að það er þægilegt að stilla hann inn á töltið. Ég var líka búinn að ákveða að taka skeiðið á eftir brokki, þar sem hann fær að vera lægri og koma með bakið upp og ég vissi líka að ég vildi koma fetinu inn fyrir skeiðið til að hann fengi aðeins andrými.“

Vallaraðstæður breyttust

Allar þessar æfingar áttu eftir að skila þeim Hansa og Sindra stóru tölunum. Fyrir sýninguna á Landsmótinu tóku þeir félagar eina æfingu á vellinum og ákvað Hansi að ríða honum með léttari hlífar en hann hafði gert áður þar sem aðstæður á vellinum voru þannig. Daginn sem hann sýnir svo Sindra höfðu aðstæður þó breyst, það hafði mikið rignt og brautin var orðin mýkri.

„Það var ekki rétt hjá mér að ríða honum á þessum hlífum. Ég fann það strax í fyrstu ferðinni þegar ég kom ríðandi inn á á tölti að hann var ekki eins góður og hann gæti verið. Ég vissi því að ég ætti inni fyrir yfirlitið og ætti auðveldlega að geta sótt hálfan punkt á tölti, en fyrir yfirlitið var hann með 9,0 fyrir tölt.“

Hans og Sindri bættu þó heldur betur í á yfirliti. Þeir sóttu þennan hálfa sem Hansa fannst vanta á töltið og hækkuðu einkunnirnar fyrir skeið og fegurð í reið. Þeir enduðu með þrjár tíur í farteskinu; 10 fyrir skeið, 10 fyrir samstarfsvilja og 10 fyrir brokk en þeir höfðu fengið þær einkunnir fyrir yfirlit.

Vildi sækja hálfan punkt

„Markmiðið á yfirlitinu var að sækja þennan hálfa punkt á tölti sem ég vissi að við áttum. Mig langaði síðan að reyna við skeið og fegurð í reið. Það var uppleggið á yfirlitinu. Ég átti ekkert endilega von á því að allar þessar dýrmætu einkunnir ættu eftir að falla.

Ég átti alveg von og markmiðið var að komast yfir 9,0 fyrir hæfileika en ég átti ekki von á svona tölu. Maður er nú ekki alveg það ruglaður að gera sér vonir um að ríða í 9,30 og eitthvað,“ segir Hansi.

Eftir sýninguna á yfirlitinu tók við smá bið eftir að lesnar voru upp hækkanir sem höfðu átt sér stað í hollinu þeirra. Það mátti skynja spennuþrungið andrúmsloftið en áhorfendabrekkan var á iði og þegar lesnar voru upp hækkanirnar brutust út mikil fagnaðarlæti enda var þetta sannkölluðu gæsahúðarsýning.

Stefna á Landsmót 2024

„Mér leið mjög vel allan tímann sem ég sýndi hestinn. Ég hafði á tilfinningunni þegar ég reið úr braut eftir yfirlitið að eitthvað væri að fara að gerast. Andrúmsloftið eftir síðustu ferðina var bara þannig. Það helltist yfir mann hálfgerð geðshræring þegar tölurnar voru lesnar upp. Rugl augnablik sem maður er þakklátur að fá að upplifa.“

Hansi og Sindri stefna nú á keppnisbrautina og ætla sér að mæta firnasterkir til leiks í A flokkinn á Landsmóti hestamanna 2024.

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...