Veiðistjórn rjúpu á tímamótum
Staðfest hefur verið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu og hún sögð stuðla að sjálfbærum veiðum og viðhaldi stofnsins.
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu er sú fyrsta sinnar tegundar fyrir dýrastofn á Íslandi. Hún er sögð mikilvægur liður í því að stuðla að sjálfbærum veiðum og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi.
Þá segja stjórnvöld að með áætluninni verði tímamót í veiðistjórnun rjúpu. Héðan í frá verði veiðistjórnun á rjúpu svæðisbundin, þar sem landinu er skipt niður í sex svæði.
Fastir þættir sem ekki breytast á milli ára hafa verið staðfestir, svo sem að veiðitímabil hefjist fyrsta föstudag á eða eftir 20. október, veiðidagar séu heilir og veiði sé leyfileg föstudaga til þriðjudaga innan veiðitímabils. Þá voru stofnlíkön þróuð og verða notuð til að reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils sem getur verið mismunandi á milli svæða. Þessir föstu þættir eru sagðir stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu sem auki traust á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.
Áætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Samstarfshópurinn fékk einnig aðstoð frá dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.
Rjúpa (Lagopus muta) er eftirsóttasta veiðibráð á Íslandi en árlega ganga að jafnaði fjögur til fimm þúsund manns til rjúpna. Vísbendingar eru um að til lengri tíma litið hafi rjúpnastofn landsins minnkað og er tegundin á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í yfirvofandi hættu. Að stofninum steðja ýmsar ólíkar ógnir, en þær helstu eru loftslagsbreytingar, skógrækt, landbreyting og veiði.
Rjúpnaveiði hefst 25. október.