Verðlækkun SS á sauðfjárafurðum minni en annarra
Sláturfélag Suðurlands (SS) birti í dag verðskrá sína vegna sauðfjárslátrunar haustið 2017. Meðalverð fyrir lömb lækkar um 28,6 prósent miðað við verð í fyrra, fer úr 581,70 kr/kg í 415,28 kr/kg.
Þetta er þriðja verðskráin sem hefur verið birt meðal sláturleyfishafa og er verðlækkun SS 5,7 prósentum minni en hjá Norðlenska og 7,2 prósentum minni en hjá KS/SKVH að meðaltali þegar verðskrár eru bornar saman fyrir lömb. SS borgar 415 kr/kg að meðaltali fyrir lömb, Norðlenska 352,39 kr/kg og KS/SKVH 348,00 kr/kg.
Verðlækkun fyrir fullorðið fé nemur um 11,6 prósentum hjá SS, en það þýðir að verðið er komið nær hinum tveimur sláturleyfishöfunum sem ekki lækkuðu þetta verð núna. SS borgar þó ennþá meira fyrir fullorðið eða að meðaltali 117,44 kr/kg, en Norðlenska 110,56 kr/kg og KS/SKVH 115,80 kr/kg.