Loftslagsvænt kúabú
Rúmlega fimmtíu sauðfjár- og nautgripabú víðs vegar um landið vinna markvisst og mælanlega að því að minnka losun og auka kolefnisbindingu í búrekstri sínum gegnum verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður. Eitt þeirra er kúabúið Engihlíð í Vopnafirði. Þar hefur þeim Halldóru Andrésdóttur og Gauta Halldórssyni tekist svo vel til við loftslagsvænar umbreytingar að búið bindur töluvert meira kolefni en það losar. Auk þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í loftslagsmálum stuðla aðgerðir þeirra að betri búrekstri.
Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður er samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Það hófst í ársbyrjun 2020 og hefur vaxið jafnt og þétt síðan, með auknum fjölda þátttökubúa sem skuldbinda sig verkefninu í fjögur til fimm ár í senn.
Á félagsbúinu Engihlíð í Vopnafirði eru tæplega 60 mjólkandi kýr, framleiðslan telur um 400.000 lítra á ári og rúm níu tonn af nauta- og lambakjöti, en sauðfjárbúskapur er þar hliðarbúgrein.
Auðheyrt er á bændunum Halldóru og Gauta að af mörgu er að taka þegar kemur að metnaðarfullum búrekstri. En þau hafa unun af lífi og starfi bóndans.
„Það sem er skemmtilegast við að vera bóndi er að sjá nýtt líf lifna og vaxa, hvort sem það heitir að rækta gras, skjólbelti, skóg, kú eða kind. Þá er einnig auðvelt að finna áskoranir til að bæta sig. Mér þykir gaman að rækta búfé, reyna að bæta júgrin, ná fram meiri frjósemi í fénu, meiri fallþunga og mjólkurlagni. Við höfum semsagt brennandi áhuga á allri ræktun,“ segir Halldóra.
Undir það tekur Gauti. „Maður hefur gaman af því að rækta og sýsla með dýr og grös. Eins ertu alltaf í miklum tengslum við náttúruna.“
Þau sóttu um að taka þátt í Loftslagsvænum landbúnaði því þau töldu það ögrandi áskorun. Þau séu umhverfissinnar og vilji leggja sitt af mörkum. „Okkur fannst rétt að prófa hvort við gætum gert eitthvað sem stuðlaði að loftslagsvænni búrekstri,“ segir Gauti.
Nýta hverja ræsistund
Verkefnið felur í sér að búin setja sér markmið innan ákveðins tímaramma sem getur verið eitt ár eða fleiri í senn sem miða að því að draga úr losun og auka bindingu kolefnis. Fyrst er losun búsins áætluð miðað við stöðumat þar sem skrásett er notkun á aðföngum svo sem; olíu, rafmagni, plasti, áburði, kjarnfóðri og fleira. Bústofn, innistöðutími og meðhöndlun búfjáráburðar eru einnig skrásettar og gerð er grein fyrir gerð og ástandi ræktaðs lands og beitilands.
Aðgerðaráætlun búsins byggir einkum á markmiðum í að draga úr losun og auka bindingu. Auk þess sem hægt er að hugsa út fyrir boxið og koma með eitthvert frumlegt markmið sem fellur að verkefninu.
Halldóra og Gauti hafa skrásett og unnið markvisst að ríflega tíu mismunandi aðgerðum innan verkefnisins.
Eitt þeirra var að minnka notkun á olíu. „Við settum okkur markmið um að minnka olíunotkun um fimm prósent frá árinu á undan en samdrátturinn varð tíu prósent, úr 6.700 lítrum í 6.000 lítra,“ segir Gauti Þau telja erfitt fyrir þeirra bú að ganga lengra, nema að skipta út tækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti fyrir rafmagnsknúin tæki en rafmagnsdráttarvélar séu enn óraunhæfur möguleiki. Því grípa þau til ýmissa sparnaðarráða þegar dráttarvélarnar eru notaðar.
„Við reynum að nýta hverja ræsistund á vélum sem best og setja þær í gang eins sjaldan og hægt er á veturna. Svo reynum við að para betur saman tæki og dráttarvélar miðað við eyðslu þeirra,“ segir Halldóra.
Lækkuðu burðar- og sláturaldur
Landbúnaður var uppspretta 13% af losun Íslands árið 2019 samkvæmt landsskýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 2021. Stærsti hluti losunar frá landbúnaði kemur frá búfé, vegna iðragerjunar og meðhöndlunar húsdýraáburðar og frá nytjajarðvegi. Aukin losun frá búfé er rakin til aukins fjölda nautgripa.
Halldóra segir að ein gagnlegasta og hraðvirkasta aðferðin við að draga úr losun í nautgriparækt, sé að lækka burðaraldur á kvígum og lækka sláturaldur á sláturgripum.
„Við settum okkur markmið í hvoru tveggja, að lækka aldurinn um tvær vikur á árinu 2022. Við fórum langt fram úr því og er burðaraldurinn nú 23,7 mánuðir hjá kvígunum og sláturaldur 22 mánuðir hjá nautum. Aðferðirnar sem við notuðum var að nýta betur mestu vaxtagetuna hjá kálfunum, ná sem mestum vexti úr þeim á fyrstu tólf vikunum.“
Afleiðing aðgerðanna höfðu ekki síst jákvæð fjárhagsleg áhrif ofan á þau loftslagsmiðuðu.
Iðragerjun og hvatar
Iðragerjun er einn af stærstu losunarþáttum frá landbúnaði, enda felst í því metanlosun. Lítið hefur þokast í lausnum á því en þó eru fram komin efni sem hægt er að blanda í fóður og eiga að draga úr losuninni. „Flest þessara efna eiga það þó sameiginlegt að draga úr nytinni í kúnum, þannig ekki er enn raunhæft að nota þau,“ segir Halldóra. Hún segir því að enn sé áhrifamesta aðgerðin til að draga úr iðragerjun í mjólkurkúm að framleiða meiri mjólk á hvern grip, og dreifa þar með losuninni niður á meira magn afurða.
Gauti bendir hins vegar á að búvörusamningarnir, eins og þeir eru uppbyggðir í dag, vinni gegn þessum loftslagsvænu aðgerðum. „Greiðslum frá ríkinu er skipt í greiðslumark og gripagreiðslur. Því fleiri gripi sem þú ert með, því hærri gripagreiðslur færðu. Þó byrja greiðslurnar að skerðast við fimmtíu kýr.“ Halldóra tekur undir það. „Það er eiginlega fáránlegt hvernig þessu var breytt, þegar vægið á gripagreiðslunum var tvöfaldað.“
Þess í stað myndu þau vilja sjá kerfinu stýrt í átt að loftslagsvænni lausnum. Einnig sé æskilegt að koma til móts við bændur þegar fyrrnefnd efni til íblöndunar í fóðri fara í notkun.
„Þá gengur ekki að það sé þér til tjóns að nota efni sem draga úr losun. Ef menn vilja draga úr losun þá verður að vera til staðar hvati, það er ekki nóg að höfða bara til samviskunnar. Það virkar ekki á alla,“ segir Gauti.
Halldóra segist vilja sjá einhvers konar umbun til þeirra sem eru í aðgerðum til að draga úr losun eða auka bindingu kolefnis í endurskoðun búvörusamninga.
Kyngreining sæðis er loftslagsmál
Kyngreining á sæði er eitt af hagsmunamálum innan nautgripa- ræktar. Á meðan slík tækni stendur bændum í nágrannalöndum til boða hefur hún ekki verið innleidd hér á landi.
Auk þess að vera hagkvæmnismál telja Halldóra og Gauti að notkun á slíkri tækni sé einnig stórt loftslagsmál og því brýnt að koma henni á hér á landi sem fyrst.
„Þú gætir fengið kvígur úr bestu mjólkurkúnum þínum og notað hinar til að framleiða Angus blendinga sem vaxa margfalt hraðar en Íslendingarnir,“ bendir Halldóra á.
Minnkuðu áburðarnotkun um nær 10 tonn
Áburðarnotkun er stór þáttur í losun búa auk þess sem áburðarkaup eru einn stærsti útgjaldaliður bænda.
Því hefur minnkandi notkun áburðar bæði hagræn og loftslagsvæn áhrif. En minnkandi áburðarnotkun má þó ekki koma niður á gæði heyja, enda sýnir það sig að eiginleikar fóðurs hafa bein áhrif á iðragerjunina.
Halldóra og Gauti settu sér það markmið að minnka áburðarnotkun um 5% á hverja framleidda fóðureiningu. Að ári liðnu kom í ljós að þau fóru langt fram úr þeim áætlunum og minnkuðu notkunina mun meira. Þrjár aðferðir reyndust lykillinn að þessum árangri.
„Við keyptum okkur niðurlagningarbúnað á skítatankinn sem eykur nýtnina á lífræna áburðinum. Við tókum sýni úr skítnum og létum efnagreina hann. Einnig notuðum við meira af haugmeltu sem á að draga úr tapi á köfnunarefni við dreifingu. Þá reyndum við að hafa skráningar eins nákvæmar og við gátum svo við værum ekki að bera meira af tilbúnum áburði á en við nákvæmlega þurftum. Þetta höfðum við aldrei gert áður. Við höfum líka fengið til okkar verktaka sem bera á fyrir okkur með tölvusýrðum áburðardreifara sem er afar nákvæmur,“ segir Halldóra.
Með þessum aðferðum reyndust þau spara um tíu tonn af áburði. „Við notuðum 29 tonn af áburði á síðasta ári fyrir þessa framleiðslu, en áður notuðum við hátt í 40 tonn,“ segir Gauti. Slík minnkun á notkun hafi enn fremur afskaplega jákvæð áhrif á rekstur búsins.
Af öðrum aðgerðum sem þau hafa ráðist í er notkun á niturbindandi plöntum í endurrækt túna, sem þau þó gerðu áður og féll því vel að verkefninu. Þau segja að fóðrið verði líka lystugra þannig. Með því spara þau einnig áburð.
„Verkefnið snýst um að nýta betur það sem þú ert með í höndunum. En það krefst þess að þú fylgist vel með og sért með skráningar í lagi,“ segir Halldóra.
Skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis
Halldóra og Gauti búa að því að vera með töluvert landsvæði undir. Á því hafa þau undanfarin ár staðið í skógrækt og landgræðslu, óháð verkefninu.
En nú fellur öll slík vinna vel að áætlun þeirra að loftslagsmarkmiðum. Þannig hafa þau, síðan árið 2013, ræktað skóg og eru með ríflega 200 hektara svæði þar undir í skógræktaráætlun og planta í um 4–5 hektara ár hvert.
„Svo erum við með gróðurlausa mela sem við erum að græða upp. Við berum á þá skít og moð og setjum svo tilbúinn áburð þar sem við komum skítnum ekki að,“ segir Gauti en auk þess hafa þau fyllt ofan í skurði og þar með endurheimt um 90 hektara af votlendi.
Vilja meiri hvata
Allar upplýsingar og gögn skrá þau svo inn í kolefnisreiknivél RML og þaðan fá þau niðurstöðu um bindingu og losun búsins. Samkvæmt þeim stuðlum bindur Engihlíð töluvert meira en það losar.
Gauti bendir þó á að kolefnisreiknivélin sé ófullkomin og nauðsynlegt sé að bæta hana. „Mér skilst að meiningin sé að þú getir sett inn þína stærstu losunarþætti og fengið út tölu hvað losunin er á lítra mjólkur eða kíló kjöts. Í dag er þetta í heildartölum.“
Eins séu margir óvissuþættir í útreikningunum.
„Það sem vantar í íslenskan landbúnað eru mælingar á losun frá landi, bæði ræktuðu og þurrkuðu.“ Hann segir jákvætt skref að ríkið hafi falið Landgræðslunni að endurmeta losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi.
„Það þurfa að koma raunhæfar niðurstöður um losun frá landi. Það er ekkert gáfulegt að vera að moka ofan í skurði í tuttugu ár og sjá svo að það var ekki til neins,“ segir Gauti.
Halldóra segir að í framhaldi þurfi bændur og landeigendur fjárhagslegan hvata til að taka þátt í loftslagsvænum aðgerðum, á borð við endurheimt votlendis.
„Þeim bændum sem leggja það á sig að gera landið betra ætti að vera umbunað fram yfir þá sem ekki gera slíkt. Mér finnst í raun ekki ganga upp að allir sitji við sama borð.“
Þau telja til dæmis gerlegt að koma slíkum hvötum á í kjötframleiðslu, með því að votta og markaðssetja sérstaklega kjöt sem framleitt er á loftslagsvænan hátt.
Þátttakendur bera saman bækur sínar
Þátttakendur í Loftslagsvænum landbúnaði fá hálfa milljón króna á ári ef þau skila árangri samkvæmt aðgerðaráætluninni. Halldóra og Gauti telja það fjármagn ákveðna þóknun en verkefninu fylgja kvaðir við skrásetningar sem geta verið tímafrekar.
Aftur á móti segjast þau læra mikið af því að taka þátt. Þau sitja fjölbreytta fyrirlestra á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sem þau láta vel að.Í raun sé þó mesti ábatinn betri búrekstur sem skilar sér beint í fjárhagsafkomuna.
„Það er ekki annað hægt en að hvetja bændur til að taka þátt því það hefur jákvæð áhrif á reksturinn,“ segir Gauti.
Þau segja jafnframt gefandi að vera í samskiptum við aðra bændur sem taka þátt í verkefninu.
„Það er mjög mikill hugur í því fólki sem tekur þátt. Við hittumst hér í sumar og sýndum hvað við vorum að gera. Maður sér alltaf eitthvað hjá öðrum sem hægt er að læra af. Eins er gott fyrir okkur að hitta annað fólk sem er að hugsa um þessa hluti.“