Miklar framfarir og greinilegt að kynbótastarfið skilar árangri
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Guðmundur Páll Steindórsson, sem starfað hefur sem ráðunautur undanfarin 45 ár, lét af störfum um nýliðin mánaðamót.
Starfssvæðið hefur lengst af verið í Eyjafirði og einkum og sér í lagi hefur Guðmundur ráðlagt nautgripabændum. Guðmundur lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1966 og búfræðikandidatsnámi árið 1970. Það sama ár kom hann til starfa fyrir norðan. Hann er fæddur og uppalinn í Þríhyrningi í Hörgárdal og þykir afar vænt um þá sveit. Guðmundur hefur á starfsævi sinni upplifað miklar breytingar í nautgriparæktinni, kúabúum hefur fækkað umtalsvert, en þau að sama skapi stækkað og þá hefur meðalnyt aukist verulega á þessum tíma.
Þríhyrningur í 117 ár
Fjölskylda Guðmundar hefur átt og stundað búskap í Þríhyrningi í 117 ár samfleytt. Afi hans og amma í föðurætt, Guðmundur Jónsson og Pálína Pálsdóttir, keyptu jörðina árið 1898 af Gudmannsminde, sem þá var spítali á Akureyri. Foreldrar hans, Steindór og Helga Þórðardóttir, tóku við búrekstri árið 1938. Þá tóku bræður hans við, fyrst Haukur og síðar gekk Þórður til liðs við hann, en þegar þeir brugðu búi árið 2007 tók Sigríður, dóttir Guðmundar, og hennar maður, Ingólfur Valdimarsson, við rekstrinum. Lengst af var búskapurinn blandaður, en hin síðari ár hefur þar verið kúabú. Nú er líklegt að þessi tími sé á enda runninn því jörðin hefur nýlega verið auglýst til sölu.
Eiginkona Guðmundar er Svanhildur Axelsdóttir frá Bakkakoti í Stafholtstungum. Þau kynntust þegar bæði voru við nám í Borgarfirði, hún á Varmalandi og hann á Hvanneyri. Guðmundur og Svanhildur eiga þrjú börn.
Í farskóla
Guðmundur minnist þess að hafa á æskuárum sínum stundað nám við farskóla sem starfræktur var í sveitinni, en Þelamerkurskóli, grunnskóli sveitarfélagsins, var þá ekki tekinn til starfa. Skólanum var komið fyrir á bæjunum einn vetur í senn og segist Guðmundur hafa á sinni barnaskólatíð verið á fimm bæjum. Þetta fyrirkomulag gilti í Skriðuhreppi þar til Þelamerkurskóli var tekinn í notkun árið 1963. Síðan lá leið Guðmundar í Héraðsskólann á Laugarvatni. Hugur hans stóð ekki endilega til þess að gerast bóndi, fremur vildi hann feta menntaveginn og hélt suður á Hvanneyri til náms við Bændaskólann þar og þá með framhaldsnám í huga. Lauk fyrst búfræðiprófi vorið 1966 og síðan framhaldnáminu árið 1970.
Guðmundur kom til starfa á heimaslóðum norðan heiða strax að lokinni útskrift og var fyrst starfsmaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, en síðan Sambands nautgriparæktarfélaga Eyjafjarðar. Við sameiningu þessara tveggja félaga árið 1977 varð hann á ný starfsmaður BSE þar sem hann starfaði samfellt til ársloka 2012 ef frá er talið hálft ár sem hann nýtti í námsleyfi. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins tók til starfa í ársbyrjun 2013, á nýársdag, sama dag og Guðmundur fagnaði því „að verða löggilt gamalmenni“ eins og hann orðar það. „Ég var ekki tilbúinn að hætta störfum alveg strax, fannst ég eiga svolítið eftir,“ segir hann. Síðustu tvö og hálft ár starfsferilsins var Guðmundur því starfsmaður RML.
Kynbótastarfið hefur skilað sér
„Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á þeim tíma sem ég hef starfað sem ráðunautur í nautgriparækt,“ segir Guðmundur. Árið 1970 voru kúabú í Eyjafirði 238 talsins og fjöldi mjólkurkúa tæplega 5.700. Af þeim voru skýrslufærðar um 70%. Meðalnyt árskúa var á þeim tíma tæplega 3.900 kíló. Á meðalbúi í Eyjafirði voru þá 18,4 árskýr. Nú er staðan með þeim hætti að búum hefur fækkað verulega, þau eru 93 í dag á svæðinu með rúmlega 6.000 mjólkurkýr, 96% búanna halda skýrslu og meðalstærð þeirra er 51,4 árskýr. Meðalnytin var tæplega 5.700 kíló á síðasta ári.
„Það hafa orðið miklar framfarir á þessu sviði, fóðrun og aðbúnaður allur hefur stórbatnað og kynbótastarfið skilað verulegum árangri,“ segir Guðmundur.
Í framhaldi af skráningu fjósa í héraðinu á árunum 1996–´97 og spurningum til kúabænda um líklega framvindu í búskap þeirra næstu fimm árin spáði Guðmundur því að kúabúin á svæðinu yrðu um 100 talsins að tíu árum liðnum, „og það stóðst nánast alveg, þau voru eitthvað rétt yfir 100 á þeim tíma, en þarna árið 1997 þótti þetta afskaplega svartsýn spá hjá mér.“
Fyrsta skrifstofan í fjósinu í Lundi
Tæknin hefur líka tekið breytingum, fyrsta skrifstofa Guðmundar var í tilraunafjósi í Lundi sem þá var ofan Akureyrar. Þar var 48 kúa fjós þar sem fram fóru afkvæmarannsóknir á nautum, á Rangárvöllum var svo ungneytafjós þar sem gerðar voru uppeldistilraunir. Þegar byggðin færðist upp að landi jarðanna á áttunda og níunda tug síðustu aldar var þessi starfsemi lögð af. Um tíma rak SNE einnig svínabú, sem lagt var niður árið 1984.
„Við sátum þarna fyrstu árin með lítið fullkomnar reiknivélar og allt var lagt saman í höndunum. Í það fór alveg gríðarlegur tími, svo það má sannarlega segja að mikil framför hafi orðið með tilkomu tölvutækninnar. Síðan má tala um byltingu á þessu sviði þegar allt skýrsluhald nautgriparæktarinnar fór inn í miðlægan gagnagrunn þar sem mikið magn upplýsinga liggur fyrir og niðurstöður nást nánast á augabragði. Á þeim byggist hið sameiginlega kynbótastarf og hver bóndi fær margs konar fróðleik um einstakar kýr og bú sitt í heild,“ segir Guðmundur.
Skiptast á skin og skúrir í landbúnaði
Uppgangur var í landbúnaði á fyrsta áratug Guðmundar í starfi, frá 1970 til 1980, bændur voru bjartsýnir og byggðu sín bú upp af myndarskap. Töluvert var um fjósbyggingar á þeim tíma í héraðinu. Vindar tóku að blása úr annarri átt upp úr 1980, dregið var saman í mjólkurframleiðslunni og settar á takmarkanir. Framkvæmdir drógust í kjölfarið saman og þannig var ástandið allt fram yfir árið 1995 þegar aftur fór að birta til.
„Það skiptast á skin og skúrir í landbúnaði líkt og í öðrum atvinnugreinum. Það var afskaplega rólegt yfir um all langt skeið og fór ekki að lifna að nýju fyrir en um miðjan 10. áratuginn. Það var svo þokkalega bjart yfir allt fram að hruni, ef til vill má orða það svo að á árunum fyrir hrun hafi markaðurinn verið mjög líflegur, verð á bæði jörðum og kvóta rauk upp úr öllu valdi, var eiginlega út úr öllu korti, þetta gekk út í öfgar og einkenndist af ákveðinni ævintýramennsku,“ segir Guðmundur um góðærisárin svonefndu.
Algjör stöðnun ríkti á árunum eftir hrun en hin síðari misseri hafa framkvæmdir tekið vel við sér. „Menn eru að endurheimta bjartsýnina, síðustu tvö ár hafa verið ágæt.“
Bændur hafa staðið sig vel
Markaðurinn kallar á aukið magn, bæði í mjólk og kjöti sem bæði skýrist af auknum fjölda ferðamanna hér á landi og einnig viðhorfsbreytingu meðal landsmanna sjálfra þegar kemur að neyslu á mjólkurvörum.
„Síðustu tvö ár hefur neyslan aukist verulega, það hefur ef svo má segja orðið sprenging. Fituneysla er ekki lengur litin hornauga, Íslendingar hafa tekið mjólkurvörum af öllu tagi vel og bændur hafa brugðist við kallinu og reyna hvað þeir mögulega geta að auka framleiðslu sína til að fullnægja innanlandsþörfinni. Að mínu mati hafa þeir staðið sig mjög vel, en vissulega tekur tíma að ná framleiðslunni upp,“ segir Guðmundur.
Áfram mikil innanlandsneysla
Hann telur að innanlandsneyslan aukist áfram á komandi árum. „Þetta var heilmikið stökk, þannig að vera má að eitthvað dragi úr aukningunni á næstu árum, en almennt er ég þó bjartsýnn með mjólkurneysluna. Helsta óvissan sem ég finn fyrir nú við starfslok varðar stjórnvöld og til hvaða aðgerða þau grípa, það verður erfitt fyrir okkur að keppa við framleiðslu frá öðrum löndum þar sem aðstæður til búskapar eru betri en hér. Þá rennur samningur milli ríkis og kúabænda út eftir eitt og hálft ár og það er mjög líklegt að á honum verði breytingar, en ég vona svo sannarlega að ekki komi til einhverjar kollsteypur,“ segir Guðmundur.
Í hlutverki sálusorgara
Guðmundur segir að ánægjulegt hafi verið að starfa sem ráðunautur í Eyjafirði. Oft hafi verið bjart yfir á þeirri nær hálfu öld sem hann hefur sinnt ráðgjöf til bænda og mikið um að vera þó svo að einnig hafi komið erfiðari tímar þar sem samdráttur var ríkjandi með tilheyrandi svartsýni.
Þegar vindar hafi blásið hvað mest á móti hafi hann á stundum upplifað sig í hlutverki sálusorgara.
„Það kom fyrir að maður þyrfti að hughreysta menn. Ekki er auðvelt að taka ákvörðun um stórar breytingar á búskaparháttum eða jafnvel að bregða búi eins og iðulega kom fyrir á mestu samdráttartímunum,“ segir hann.
Gaman að grúska í gömlum skræðum
Guðmundur kvíðir ekki aðgerðarleysi við starfslok. „Nú fer ég bara að gera það sem mér sýnist,“ segir hann.
„Ég hef undanfarin ár verið dálítið að grúska mér til gamans og þá helst í ættfræði, við þá iðju er tíminn fljótur að líða.“ Guðmundur var tvívegis í ritnefnd vegna útgáfu bókanna Byggðir Eyjafjarðar, fyrst 1990 og síðan 2010, og segir það hafa verið skemmtilegt verkefni.„Þarna fékk ég nasaþefinn af því að gramsa í gömlum heimildum og get vel hugsað mér að halda því áfram.“ Guðmundur hefur starfað með Sögufélagi Eyfirðinga sem gefur út tímaritið Súlur og einnig Sögufélagi Hörgársveitar sem gefur úr árbókina Heimaslóð með ýmsum fróðleik úr sveitarfélaginu.