Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Emil Þórðarson og Hulda Björk Haraldsdóttir eru nýju bændurnir á Berustöðum. Áður bjuggu þau á Selfossi þar sem Hulda vann við tamningar og hrossarækt og Emil við vörubíla- og vélaverktöku. Þau segja að ef maður ætli sér eitthvað þá geti maður það.
Emil Þórðarson og Hulda Björk Haraldsdóttir eru nýju bændurnir á Berustöðum. Áður bjuggu þau á Selfossi þar sem Hulda vann við tamningar og hrossarækt og Emil við vörubíla- og vélaverktöku. Þau segja að ef maður ætli sér eitthvað þá geti maður það.
Mynd / ál
Viðtal 15. febrúar 2024

Nýtt fólk á Berustöðum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Emil Þórðarson og Hulda Björk Haraldsdóttir tóku við kúabúinu á Berustöðum í Ásahreppi um áramótin. Þau bjuggu áður á Selfossi og segja ótrúlegt að þeim hafi tekist markmið sitt að gerast bændur verandi úr þéttbýli.

Á Berustöðum voru Egill Sigurðsson og Erla Traustadóttir bændur og eru þau ekkert tengd nýjum ábúendum.

Emil ólst upp á Hvolsvelli og var mikið í kringum búskap sem krakki þar sem hann á ættir að rekja til Bakkakots í Vestur-Landeyjum. Í gegnum föður sinn hefur Emil frá unga aldri verið viðriðinn véla- og vörubílaútgerð og stofnaði fyrirtæki utan um landbúnaðarverktöku árið 2021. Hulda bjó með foreldrum sínum til tíu ára aldurs á Sólheimum í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem þau stunduðu búskap. Fluttu þau þaðan til Reykjavíkur en síðan á Selfoss. Fjölskylda hennar hefur allta tíð stundað hrossarækt og Hulda starfað mikið við tamningar.

Emil er tuttugu og sex ára og Hulda þrítug. Þau kynntust árið 2016 og saman eiga þau tvo stráka og átti Hulda einn fyrir. Sá elsti heitir Baldur og er tíu ára, svo koma Þórður, fimm ára og Haraldur, þriggja ára.

Berustaðir eru í Ásahreppi í Rangárvallasýslu, rétt hjá Landvegamótum. Þar er rekið bú með rúmlega níutíu kúm, tæplega hundrað kindum, þrjátíu og fimm hestum og hundruð og fimmtíu nautgripum.

Féllu fyrir bænum

„Þetta hefur síðustu árin tosað mikið í okkur,“ segir Hulda aðspurð hvort það hafi lengi verið draumur hjá þeim að gerast bændur. Þau voru búin að liggja yfir fasteignaauglýsingum og voru Berustaðir auglýstir snemma síðasta sumars.

Þrátt fyrir þennan draum voru þau sannfærð um að það væri ekki möguleiki fyrir þau að gerast bændur og höfðu þau aldrei farið á staðinn til að skoða jörð sem var á sölu. Þegar þau sáu Berustaði auglýsta höfðu þau hins vegar samband við fasteignasöluna og bókuðu skoðun í byrjun júlí.

„Ég vissi ekki til hvers í ósköpunum,“ segir Emil því hann gat ekki séð að það væri möguleiki að kaupa jörð með þessum verðmiða. „Maður hélt að þetta væri bara þannig að fólk tæki við af foreldrum sínum.“ Þegar þau mættu var blíðskaparveður og féllu þau alveg fyrir staðnum, aðstæðunum og því sem jörðin hafði upp á að bjóða. „Það er frábært fjós, miklir möguleikar í ferðaþjónustu, gott land og frábær tækjalistinn sem fylgdi. Þessi jörð hafði allt,“ segir Hulda. Emil bætir við að búið hafi staðið vel undir verðinu.

Þau vissu til þess að fleiri hefðu sýnt Berustöðum áhuga og sendu því kauptilboð um miðjan júlí. „Við vorum að stökkva í djúpu laugina. Okkur fannst eins og þetta væri jörðin, þetta væri búið og þetta væri það sem við vildum kaupa,“ segir Hulda.

Fjósið er nútímalegt með lausagöngu og tveimur mjaltaþjónum.

Byggðastofnun völundarhús

Þá hófst langt ferli þar sem þau leituðu að fjármagni til kaupanna. Þau voru búin að leggja grunn að þeim með því að kaupa sína fyrstu fasteign á Selfossi árið 2019 áður en mesta hækkunin á húsnæðisverði gekk yfir. Fyrst leituðu þau til viðskiptabanka en þar var viðmótið það að þau væru heldur bjartsýn og ættu að safna sér meiri pening.

Eftir það leituðu þau til Byggðastofnunar þar sem viðtökurnar voru mun betri. Framvindunni þar líkja þau þó við völundarhús og benda á að fólk þurfi að gefa sér góðan tíma þar sem stofnunin sé ekki hraðvirk. Ferlið sé þó á margan hátt svipað hvort sem verið sé að fjármagna fasteign fyrir fimmtíu milljónir eða fimm hundruð. Það taki þó styttri tíma þegar fjárhæðin sé lægri.

Í lok september fengu þau tilkynningu um að stjórn Byggðastofnunar hefði samþykkt að veita þeim lán. Þá hafi þau drifið í að selja hús sem þau voru að byggja á Hvolsvelli og tóku fráfarandi ábúendur íbúðina þeirra á Selfossi upp í.

Um miðjan október settust Hulda og Emil á fund með Agli og Erlu, þáverandi bændum á Berustöðum, þar sem gerð var áætlun um ábúendaskiptin. Unga parið flutti svo á Berustaði í lok október og var ákveðið að þau tækju endanlega við um áramótin. Þau fengu því liðlega tvo mánuði til að læra á búreksturinn af fráfarandi bændum og voru fljótlega farin að taka fullan þátt í bústörfum.

„Þetta var mjög dýrmætur tími þar sem við gátum verið með þeim, bæði Agli og Erlu og Eygló, dóttur þeirra. Því betur sem ég kynntist þeim varð ég alltaf þakklátari fyrir að við hefðum keypt af þessu fólki,“ segir Hulda. Þau hafi lært mikið á þessum tíma og voru forréttindi að vera undir þeirra leiðsögn. „Þau hefðu mátt búa hérna alltaf mín vegna,“ bætir Emil við glettinn.

Emil og Hulda fjármögnuðu kaupin í gegnum Byggðastofnun en höfðu lagt grunninn með því að kaupa sína fyrstu fasteign árið 2019.
Uppbygging fram á síðasta dag

Þau segja fyrri ábúendur hafa haldið áfram uppbyggingu þangað til þau stigu út úr fjósinu í síðasta sinn. Emil og Hulda vilja halda á sömu braut í búskapnum fyrst um sinn því það þurfi ekki að gera miklar breytingar á því sem gangi vel. Hins vegar ætli þau að hefja uppbyggingu á ferðaþjónustu, en með jörðinni fylgdu aukalega tvö einbýlishús og eitt sumarhús.

„Komandi úr þéttbýli, þá er það einstakt frelsi að komast í sveitina. Við horfum í kringum okkur og það er land allt um kring sem við sjáum um og ráðum yfir. Þetta eru algjör forréttindi,“ segir Emil. Þá finnist þeim dýrmætt að geta gefið börnunum sínum tækifæri til að alast upp í sveit því það þurfi rétt að stíga út úr húsi til að vera kominn í heim ævintýra. „Mér er alveg sama hvað vinnudagurinn minn er langur á meðan það er gaman,“ segir Emil. Þau vilji ná langt og það sem þau taki sér fyrir hendur vilji þau gera vel

Hann segir hálf ótrúlegt að þeim hafi tekist að komast í búskap svona ungum. „Það er einhvern veginn þannig að ef maður ætlar sér eitthvað þá getur maður það. Það þarf bara að finna leiðina til að gera það.“

Kýr, kindur og hestar

Á Berustöðum er lausagöngufjós með tveimur mjaltaþjónum. Þar eru að jafnaði rúmlega níutíu kýr og var heildarframleiðsla mjólkur síðasta árs rúmlega 650.000 lítrar. Þá er nokkur nautakjötsframleiðsla þar sem aldir eru kálfar frá bænum. Með kaupunum voru innifalin fjárhús með níutíu og sex kindum og segist Emil hafa óvart fengið algjöra dellu fyrir sauðfé, þó svo að hann hafi verið búinn að ákveða að einbeita sér að kúnum.

Þá eru þau búin að flytja þrjátíu og fimm hesta á jörðina sem tilheyrðu upphaflega hrossarækt foreldra Huldu, sem þau hafa tekið yfir. Sex kettir fylgdu með kaupunum á Berustöðum sem sinna meindýravörnum í útihúsunum og eignuðust þau hvolpinn Bellu í haust. Emil og Huldu telst til að skepnurnar á bænum séu nálægt þrjú hundruð og áttatíu.

Skylt efni: Berustaðir

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt