Rækta papaja og ástaraldin í Kenía
Höfundur: Vilmundur Hansen
Feðgarnir Jón Viðar Viðarsson og Viðar Sigurðsson rækta matjurtir á 40 hekturum af landi í Afríkuríkinu Kenía. Þeir hafa góðan aðgang að vatni enda er það forsenda ræktunarinnar og markaður fyrir framleiðsluna er góður.
„Tengsl okkar við Kenía hófust þegar pabbi fór þangað fyrir nokkrum árum og hóf fasteignaviðskipti, það var ansi lærdómsríkt en hann ákvað að hætta því sökum skriffinnsku og spillingar. Við fluttum líka notaðar járnsmíðavélar frá Íslandi og seldum í Kenía, þegar því verkefni var lokið fórum við að leita að öðrum möguleikum.
Við skoðuðum nokkrar hugmyndir og fórum að kynna okkur landbúnað og ræktun matjurta. Við settumst niður og fórum að reikna. Útkoman leit vel út og hrintum því hugmyndinni í framkvæmd.
Fyrsta sem við gerðum eftir það var að keyra um vænleg ræktunarsvæði og leita að landi en þar sem hvorugur okkar hafði komið nálægt ræktun áður áttum við margt ólært,“ segir Jón.
Fyrirhafnarlítil ræktun
„Sem betur fer er ræktun í Kenía tiltölulega fyrirhafnarlítil. Það vex næstum allt í landinu undir berum himni fái plönturnar nægilegt vatn og jarðvegurinn er fjölbreytilegur og yfirleitt rauður og frjósamur.“
Jón segir að þeir hafi hafið ræktunina á 20 hektara landi þar sem var góður aðgangur að vatni í ágætum brunni. „Kínverjar voru að leggja járnbrautarteina skammt frá landinu þar sem við vorum að rækta. Þeir þurftu mikið vatn í steypu vegna framkvæmdanna og þar sem þeir dældu því upp úr jörðinni lækkaði grunnvatnsstaðan og afkastageta brunnsins minnkaði. Í framhaldinu þurftum við að fara út í alls konar kúnstir til að spara vatn. Á endanum færðum við okkur um set.“
Stefna á aukna ræktun
„Landið sem við leigjum í dag er 40 hektarar að stærð og náttúrulega vaxið lágvöxnum runnum og við erum að nota um 60% af því undir ræktun í dag.
Við erum með skiptiræktun þar sem við ræktum melónur, tómata, lauk og papriku og erum að prófa okkur áfram og þróa ræktun á papaja og passionaldini, eða ástaraldini, og ætlum smám saman að færa okkur yfir í þannig ræktun. Við erum tiltölulega nýbyrjaðir að rækta ávaxtatrén og er hluti af þeim farinn að gefa af sér en það tekur um átta mánuði frá því að papaja- og ástaraldinstrjánum er sáð þar til að plönturnar fara að gefa ávöxt. Hugmyndin er að vera með 30.000 plöntur af hvorri tegund, eða 60.000 plöntur í heildina. Við stefnum að því að vera komnir í fulla framleiðslu í árslok,“ segir Jón.
Að sögn Jóns er góður markaður í Kenía fyrir framleiðsluna og ágætis verð og oftast komi til þeirra áhugasamir kaupendur og kaupi af þeim uppskeruna sem þeir selja aftur víðs vegar um landið.
„Í byrjun voru oft skemmtilegir tímar í sölu en við náðum fljótt góðum tökum á henni.
Það hefur komið fyrir að við höfum þurft að setja uppskeruna á pallbíl og selja hana sjálfir. Satt best að segja er það mjög skrýtin upplifun að standa á ávaxtamarkaði í Kenía með melónu í hendinni og hrópa melon, melon,“ segir Jón og hlær.
Hafa góðan aðgang að vatni í dag
„Tómatarnir sem við ræktum eru runnatómatar þannig að það þarf ekki að binda þá upp eins og gert er í ræktun í gróðurhúsum á Íslandi. Það tekur um þrjá mánuði frá því að við sáum tómötum og paprikum þar til að plönturnar fara að gefa af sér ávexti. Melónurnar þurfa um fimmtíu daga.
Í grófum dráttum fer ræktunin þannig fram að fyrst er landið rutt, annaðhvort með höndum eða jarðýtu. Því næst er húsdýraáburði blandað saman við jarðveginn og sáð. Eftir að fræin eru farin að spíra og plönturnar farnar að tosast upp úr jörðinni er gefinn áburður og úðað eftir fyrirfram ákveðnu plani og þess gætt að illgresi nái ekki að festa rætur á ökrunum.
Ræktunarlandið er við stóra á þannig að í dag höfum við nægan aðgang að vökvunarvatni.“
Jón segir að helstu vandamálin við ræktunina séu sveppasýkingar og pöddur. Auk þess sem stærri dýr sækja í ávextina og að innfæddir reyni stundum að stela ávöxtum á nóttinni.
Lítill áhugi fyrir jarðrækt
Aðspurður segir Jón að sér komi á óvart hvað áhugi fyrir ræktun matjurta er lítill í Kenía. „Ég veit ekki hvað veldur þessu en það gæti haft áhrif að stærð býla í landinu hefur verið að minnka og verð á hektara að hækka.“
Mest vinna fer í að vökva
„Þegar mest var vorum við með fimmtíu menn í vinnu við að ryðja land. Vanalega eru þeir ekki nema tíu en það gætu einhverjir bæst við þegar landið er allt komið í ræktun. Mesta vinnan fer í að vökva enda þurfa plöntur eins og papajatré um einn og hálfan lítra að vatni á dag.
Loftslag og veðurfar í Kenía gerir það að verkum að vöxtur er jafn allt árið. Uppskeran er því jöfn allan ársins hring og að meðaltali fást tvö kíló af ávöxtum á viku af hverri plöntu en hún getur farið upp í fjögur kíló.“
Skemmtilegt og spennandi
Jón er menntaður vélfræðingur og hefur starfað við ýmis störf, meðal annars tengd sjávarútvegi. Hann stundar nokkur fög við Háskólann í Reykjavík eins og er.
„Búskapurinn í Kenía er mikið ævintýri enda alltaf spennandi að fást við eitthvað sem maður hefur ekki gert áður. Eitt leiðir mann að öðru og ég er búinn að kynnast mikið af skemmtilegu fólki í tengslum við ræktunina.
Mér hefur einnig þótt spennandi að fylgjast með hvernig markaðurinn í Kenía virkar. Það kom mér líka á óvart þegar ég uppgötvaði að það er hægt að rækta rúm 40 tonn af melónum á hektara og það fyrsta sem ég hugsaði var hvernig í ósköpunum við ættum að geta selt allt það magn. Í framhaldi af því kom mér svo á óvart hversu miklu innlandsmarkaðurinn í Kenía tók við.
Okkur langar seinna að auka við ræktunina og jafnvel flytja ávextina út en flöskuhálsarnir eru margir til að svo geti orðið.“
Heillaður af ræktun
„Ég kann ótrúlega vel við mig í ræktun og mér finnst eitthvað fallegt við hana. Ég hefði aldrei getað trúað því að ég gæti heillast svona mikið af ræktun og landbúnaði. Allt frá því ég kom heim hef ég verið að velta fyrir mér öllum þeim ónýttu tækifærum sem felast í ræktun hér á landi. Ísland er stórt og hér er nóg af vatni og orku. Ég sé fyrir mér að með því að styðja betur við þessa þætti landbúnaðarins ætti vel að vera hægt að rækta meira af matjurtum sem er verið að flytja inn í dag með ærnum tilkostnaði,“ segir Jón Viðar Keníabóndi að lokum.
Kenía
v í Austur-Afríku með landamæri að Eþíópíu í norðri, Sómalíu í austri, Tansaníu í suðri, Úganda í vestri og Súdan í norðvestri og strönd við Indlandshaf. Höfuðborg landsins er Naíróbí.
Miðbaugur liggur í gegnum norðurhluta Kenía. Landið er hálent að stórum hluta en láglent út við strendur. Í landinu eru mörg stór og djúp stöðuvötn, þar á meðal Tanganyikavatn sem er annað dýpsta stöðuvatn í heimi.
Flestir hinna tæplega 30 milljónir íbúa landsins búa í suðurhluta þess í grennd við höfuðborgina og við landamæri Úganda hjá Viktoríuvatni. Þar eru góðar jarðir og nægileg úrkoma til að stunda akuryrkju.
Landbúnaðinum er skipt í smábú, stórbú og hefðbundin búfjárrækt. Langflestir vinna á smábúum. Smábændur rækta mikið maís, sem er uppistaða fæða íbúanna. Bændur rækta líka baunir, maniok, durra, hirsi og kál. Þeir halda flestir líka kýr, kindur og geitur. Stórbúin eru hins vegar oftast í eigu hlutafélaga eða einstakra ríkra Keníubúa. Á stórbúum er mest ræktað kaffi, te og ananas. Þeir sem lifa á hinni hefðbundnu búfjárrækt eru þjóðarbrotin sem stunda að mestu sjálfþurftarbúskap. Í Kenía eru um 50 mismunandi þjóðir.