„Breytingastjórn?“
Halla Eiríksdóttir, sauðfjárbóndi á Hákonarstöðum á Jökuldal, var kosin í stjórn Bændasamtaka Íslands á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Hún hefur sterkar skoðanir á því hvernig stjórn BÍ á að starfa og segist líta á hana sem breytingastjórn.
„Ég og maðurinn minn, Sigvaldi H. Ragnarsson, rekum sauðfjárbú að Hákonarstöðum á Jökuldal með tæplega 600 ám auk þess sem ég er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfa við stjórnunarstörf við Heilbrigðisstofnunina á Egilsstöðum í 30 ár.“
Nauðsynlegt að taka óþægilegar ákvarðanir
Halla segist líta svo á að nýkosin stjórn BÍ sé breytingastjórn. „Ég tel að okkar hlutverk sé að hafa áhrif á hvernig Bændasamtökunum sé stjórnað þannig að það náist samheldni innan stéttarinnar og hvernig samtök bænda geta unnið úr sínum styrkleikum sameiginlega.
Í mínum huga er það svo, að annaðhvort tekst okkur þetta á næstu tveimur árum eða þá er hætta á að Bændasamtökin liðist í sundur.
Halla segir að því miður sé fjárhagsstaða samtakanna ekki góð en að sem stjórnandi heilbrigðisstofnunar þekki hún niðurskurð og hvernig á að taka óþægilegar ákvarðanir til að nýta fjármagnið sem best. „Ef það er eitthvað sem ég er ekki hrædd við það er það að taka óþægilega ákvarðanir ef það er nauðsynlegt. Við þurfum einnig að byggja upp traust aðildarfélaga sambandsins þannig að það vilji allir vera með og taka þátt í starfinu og byggja Bændasamtök Íslands upp að nýju.“
Ekki bara fegurð og rómatík
Halla er fædd í Reykjavík en flutti í Gunnarsholt sex ára gömul en Páll Sveinsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, var fósturfaðir hennar. „Ég hef því stundum sagt að ég sé alin upp af Landgræðslu ríkisins. Þar kynntist ég ákveðnum hliðum ríkisrekstri og ríkisbúskap. Föðurætt mín er frá Fossi á Síðu og ég var mörg sumur þar í sveit.
Ég fór í nám til Reykjavíkur og kunni ekki vel við mig þar sem einstæð móðir og í vaktavinnu og tók mig upp og flutti á Egilsstaði 1989. Um síðustu aldamót kynntist ég manninum mínum sem er ættaður frá Hákonarstöðum á Jökuldal og giftist honum eiginlega til fjár, þar að segja vegna kindanna.
Halla hefur lengi haft sterkar skoðanir á landbúnaði og telur að ýmsu þurfi að breyta til að lífga upp á mannlífið til sveita. „Sveitirnar eru ekki bara rómatík og fegurð því þær eiga sér líka sínar dökku hliðar sem ekki sjást alltaf á yfirborðinu en ég hef kynnst sem heilbrigðisstarfsmaður.“
Margt hægt að bæta
„Eftir að ég tók þátt í búskapnum óx áhugi minn á félagsmálum bænda og sá fljótlega kosti þess að tölvuvæðast og innleiða nýjungar. Það er svo margt sem við bændur getum gert til að auka gæði landbúnaðar og um leið eigin lífsgæði.
Ég spurði því mér reyndari mann um það hvernig ég kæmist á Búnaðarþing og eftir það fór ég að sækja bændafundi og hafa mig í frammi og segja mínar skoðanir.“
Halla hefur setið í stjórn Búnaðarsambands Austurlands í nær áratug og var formaður 2015 til 2017. Nýliðið Búnaðarþing er þar þriðja sem Halla hefur setið og að þessu sinni ákvað hún að gefa sig fram til stjórnarsetu og náði kjöri.
Á fyrsta þingi var ég að átta mig á hlutunum. Á þingi númer tvö fór ég að móta mér skoðanir og samfærðist um að framgangurinn væri kolrangur og nánast fáránleg staða að æðsta þing bændastéttarinnar væri nær einungis að fjalla um ályktanir frá aðildarfélögum BÍ. Mér fannst þá fremur lítið innlegg koma frá stjórn BÍ og þá skapast jafnvel sú staða að verið er að fjalla um minniháttar mál og á meðan mikilvægari mál eru ekki á dagskrá. Í mínum huga er þetta röng aðferðafræði sem þarf að breyta. Ég bauð mig því fram til stjórnar í þriðja sinn sem ég sótti Búnaðarþing og náði kjöri,“ segir Halla Eiríksdóttir, sauðfjárbóndi og stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands.