Bændaskólinn í Ólafsdal
Torfi Bjarnason skólastjóri á tröppunum en Áskell Ingimundarson við húsgaflinn. Myndin er tekin milli 1905 til 1910. Ólafsdalsskólinn var fyrsti bændaskóli á Íslandi og tilgangur með stofnun hans að kenna bændum verklega og bóklega jarðrækt. Torfi Bjarnason, sem síðar var skólastjóri skólans, fór til Skotlands til að læra jarðyrkju fyrstur Íslendinga og hafði hann meðferðis til baka búfræðiþekkingu frá Skotlandi. Skólinn var settur i fyrsta sinn 1. júní 1880 og hófu fimm ungir menn þar nám. Námsárið var frá vori til vors og námstíminn tvö ár. Áhersla í námi var á notkun hestaverkfæra við jarðræktarstörf og heyskap og komu nemendur jafnframt að smíði á verkfærum. Bókleg kennsla var í reikningi, efnafræði, grasa- og jarðræktarfræði, hagfræði og teikningu, húsdýrafræði og eðlisfræði.