Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Kia EV9 er stór rafknúinn lúxusjeppi. Það sem skilur þennan bíl frá öðrum er mikið rými fyrir alla farþega, sama hvort þeir eru á fremsta eða aftasta bekk. Hvergi er skorið við nögl þegar kemur að útbúnaði og virðist allt vera vel saman sett og úr góðum efnum.
Kia EV9 er stór rafknúinn lúxusjeppi. Það sem skilur þennan bíl frá öðrum er mikið rými fyrir alla farþega, sama hvort þeir eru á fremsta eða aftasta bekk. Hvergi er skorið við nögl þegar kemur að útbúnaði og virðist allt vera vel saman sett og úr góðum efnum.
Mynd / ál
Vélabásinn 1. mars 2024

Allir fá besta sætið

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Að þessu sinni er tekinn til kost- anna hinn nýi Kia EV9 í GT Line útfærslu. Þetta er stór sex manna rafmagnsjeppi sem á fáa sína líka á markaðnum. Öll sætin í þessum bíl eru af fullri stærð og lítil málamiðlun að sitja á aftasta bekk.

Þeir sem þurfa sjö sæti geta keypt bílinn í hinni ódýrari Earth útfærslu, þar sem önnur sætaröðin er þriggja manna bekkur, á meðan GT Line er með tvö sjálfstæð sæti.

Að utan leikur enginn vafi á að þetta er jeppi, enda kraftalegur í útliti. Húddið er langt og hátt, dekkin eru stór með dökkan ramma utan um hjólaskálarnar og þakbogar á toppnum – allt eins og ætlast má til af jeppa. Þá eru framljósin sitthvor línan með tveimur brotum og ná frá hjólaskálum niður að stuðara. Ekkert hefðbundið grill er framan á bílnum.

Þemað virðist vera skörp horn en samt sem áður er bíllinn rennilegur. Fyrirtækið Kia er á góðum stað þegar kemur að hönnun bifreiða, en þó er vel hugsanlegt að ásýnd EV9 sé það afgerandi að hún geðjist ekki öllum.

Þá er hætta á því að svona róttækt yfirbragð eldist illa, þótt það sé töff í dag.

Þó að þetta sé enginn fjallajeppi þá er útlit bílsins kraftalegt og þolir hann vel að fara út fyrir malbikið.

Nútímaleg innrétting

Þegar inn er komið tekur á móti manni vönduð innrétting og er hvergi hægt að finna eitthvað sem er illa samansett eða vont viðkomu. Allt virðist vera þykkt með góða áferð og mælaborðið að miklu leyti fóðrað með mjúku leðurlíki. Heildaryfirbragðið er vel heppnað og nútímalegt.

Á stýrinu eru takkar fyrir allt það helsta, eins og að stjórna margmiðlun, síma og hraðastilli. Þá er einn merkilegur takki sem notandinn getur skilgreint virknina á. Í þessum bíl var búið að tileinka hann kallkerfinu, sem virkar þannig að það lækkar í útvarpinu og virkjar hljóðnema sem tengdur er við hátalara aftast. Með því getur ökumaðurinn leikið flugstjóra og komið skilaboðum alla leið til öftustu farþeganna án áreynslu.

Margmiðlunarskjárinn er langur og mjór og er stýrikerfið svipað á að líta og í öðrum nýjum bílum frá systurfyrirtækjunum Hyundai og Kia. Í stuttu máli má segja að skjárinn er einfaldur og skýr í notkun og er stýrikerfið með snöggt viðbragð. Þá eru hljómgæðin afbragð og gaman að hlusta á tónlist, en GT Line útfærslan er með 14 hátalara hljóðkerfi frá Meridian.

Fyrir neðan margmiðlunarskjáinn er upplýst letur sem fellur inn í innréttinguna. Þetta eru flýtilyklar fyrir skjáinn og gefa þeir frá sér vægan titring þegar þeir nema snertingu. Ekki er hægt að ganga að því vísu að þeir virki alltaf og því getur notkunin á tíðum verið ankannaleg. Þar fyrir neðan er takki til að skrúfa upp og niður í hljómflutningstækjunum og hnappar til að stjórna miðstöð. Með öðrum orðum er allt það mikilvægasta aðgengilegt.

Mælaborðið og innréttingin eru nútímaleg. Margmiðlunarskjárinn er einfaldur í notkun og hraðvirkur. Með flýtilyklum er allt það nauðsynlegasta aðgengilegt.

Sex hægindastólar

Öll sex sætin í Kia EV9 eru rafstýrð og sérlega vönduð. Þau eru með þykku og mjúku leðurlíki og eru höfuðpúðarnir fyrir ökumanninn og sessunaut hans mjúkir sem æðardúnskoddi. Stillimöguleikarnir á framsætunum eru fleiri en blaðamaður hefur reynt í öðrum bílum. Til að mynda er hægt að stilla hallann á sessunni eins og algengt er, en þar að auki er hægt að ráða því hversu djúpt sætið er.

Hægt er að virkja nudd í ökumannssætinu sem er ekki nógu öflugt til að kýla burt vöðvabólgu, en gefur smá hreyfingu og örvar blóðflæðið. Þá eru fótskemlar á báðum framsætunum, svipað og í La-Z-Boy stól. Þeir eru eflaust ágætir þegar keyrt er í marga tíma á hraðbrautum með akstursaðstoð. Erfiðara er hins vegar að hafa þá í reistri stöðu ef til stendur að nota inngjöfina og bremsuna þar sem skemillinn lyftir fótunum frá pedölunum. Eins og áður segir eru tvö sjálfstæð sæti í annarri sætaröð. Þau eru litlu síðri en framsætin, með skammelum, hita, armpúðum og alles. Umræddir fótskemlar eru hins vegar alveg gagnslausir nema fyrir níu ára börn og fullorðna sem hafa misst neðsta hlutann af fótunum, þar sem þeir þrýstast upp að framsætunum. Þegar skammelin eru niðri er hið fínasta pláss í annarri sætaröð, jafnvel þótt fremstu farþegarnir hafi fært sætin sín í öftustu stöðu.

Í GT Line-útfærslunni eru sex sæti. Hér sjást önnur og þriðja sætaröð sem gefa þeirri fremstu lítið eftir.

Skottið mikill geimur

Aðgengið að þriðju sætaröðinni er sérlega gott í GT Line bílunum þar sem hægt er að fara á milli sætanna í annarri sætaröð. Að því gefnu að farþegarnir í annarri sætaröð hafa ekki fært sig í öftustu stöðu er nóg pláss fyrir þá sem eru aftast. Í þriðju sætaröðinni er hægt að stilla hallann á bakinu með rafmagni, en annars er sætið fast.

Öftustu farþegarnir fá aðeins að kenna á því þar sem lúxusinn í skottinu hefur verið skorinn við nögl. Þar er plastið í innréttingunni hart og heyrist tómahljóð þegar bankað er í það. Sætin eru hins vegar þægileg og gluggarnir stórir.

Þegar sætaröð þrjú er í notkun er skottið álíka stórt og í smábíl. Ef þau eru hins vegar felld niður er farangursrýmið mikill geimur með flötu gólfi. Þá er hægt að leggja sætisbökin á sætaröð tvö niður með takka aftast í skottinu. Rétt innan við skotthlerann er innstunga fyrir heimilisraftæki sem er 250 volt og sextán amper og nýtist bíllinn því sem rafstöð.

Hér er aftasta sætaröðin lögð niður sem gefur mjög mikið pláss fyrir farangur.

Enginn fjallajeppi

Í akstri er EV9 einstaklega hljóðlátur og getur ökumaðurinn svo gott sem hunsað hraðahindranir þar sem fjöðrunin vinnur vel á þeim. Undirritaður prufaði að keyra á grófum og holóttum malarvegi sem og í nokkuð djúpum snjó og fór bíllinn létt með það. Því verður þó seint haldið fram að þetta sé fjallajeppi.

Þótt umræddur bíll sé 384 hestöfl er hröðunin ekki sturluð eins og í mörgum rafmagnsbílum. Það skýrist líkleg af því að eigin þyngd bílsins er tæp 2,7 tonn. Þá dylst það ekki að þetta er stór bíll og það getur verið áskorun að leggja í stæði. Sem betur fer eru myndavélar sem gefa útsýni til allra átta og eru gömlu góðu hliðarspeglarnir stórir.

Þá er rétt að nefna að þessi bíll er með takmarkað umburðarlyndi fyrir því þegar ekið er rétt yfir hámarkshraða. Hann er útbúinn nákvæmlega sama búnaði og undirritaður gerði grein fyrir í bíladómnum um Hyundai Kona í nóvember í fyrra, sem pípir um leið og farið er yfir löglegan hraða. Eins og segir þar er hægt að slökkva á vælinu, en það þarf að gera það í hvert skipti sem bíllinn er ræstur.

Að lokum

Þótt þessi bíll heiti Kia, þá er útlit bílsins og upplifunin af akstrinum engu síðri en má vænta í Audi, BMW, Mercedes Benz og Land Rover. Það er líka eins gott, því Kia EV9 GT Line gefur mörgum lúxusbílum lítið eftir í verði. Hið mikla rými fyrir farþega er þar sem Kia EV9 skarar fram úr öðrum bílum í sama verðflokki.

Kia EV9 GT Line kostar frá 14.990.777 krónum. Ódýrari týpan, sem er jafnframt sjö sæta, nefnist Earth og kostar frá 13.990.777 krónum. Verð er með virðisaukaskatti.

Skylt efni: prufuakstur

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...