Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Það er alltaf jafn áhugavert að sjá hve þæg nautin eru.Hér er Hereford verðlaunatarfur sem er vel á annað tonn að þyngd leiddur af verðandi bónda.
Það er alltaf jafn áhugavert að sjá hve þæg nautin eru.Hér er Hereford verðlaunatarfur sem er vel á annað tonn að þyngd leiddur af verðandi bónda.
Mynd / RHS
Á faglegum nótum 27. júlí 2023

Skoska landbúnaðarsýningin engri lík

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Seinnipartinn í júní var hin fræga og margrómaða landbúnaðarsýning Royal Highland Show haldin rétt utan við Edinborg eins og venja er.

Þessi sýning er nokkuð frábrugðin hefðbundnum landbúnaðarsýningum, þar sem Skotar leggja mikla áherslu á að sameina sýninguna við árlegt uppgjör í ótal keppnisgreinum. Úr verður eins konar blanda af landbúnaðarsýningu og því sem við á Íslandi þekkjum líklega best sem landsmót. Einkar góð blanda og áhugaverð. Sýninguna sóttu heim 217 þúsund manns og þar af þónokkrir Íslendingar, m.a. hópur nýnema frá Hvanneyri sem var í útskriftarferð í Skotlandi á sama tíma.

Á sýningunni, sem stóð yfir í fjóra daga, bar margt fyrir augu eins og vera ber. Sýningu sem þessari er líklega einna best gerð skil með myndum og skýringartextum og þó hér sé einungis gripið niður í örfá atriði, gefa myndirnar og textarnir nokkuð góða mynd af því sem fyrir augu bar á þessari skemmtilegu sýningu.

Fjölbreytt úrval tækja

Á sýningunni voru rúmlega 800 sýnendur að kynna vörur sínar og þjónustu og mátti í raun sjá þarna alla tækni og tæki sem bændur í hefðbundnum búskap gætu þurft á að halda, allt frá handverkfærum og upp í stærstu vinnutæki.

Á svona sýningum er alltaf eitthvað sem stendur upp úr og vekur meiri athygli greinarhöfundar en annað, eins og Mitsubishi dráttarvélin sem hér má sjá. Það eru til fleiri tegundir dráttarvéla í heiminum en margir halda!

Mitsubishi framleiðir ýmislegt annað en bíla eins og sjá má. Mynd /Snorri

Gömul tæki - en ný!

Á sýningum sem þessum er yfirleitt verið að skarta nýjum tækjum og tólum og árlega koma fram einhverjar nýjungar sem vekja áhuga sýningargesta. Það eru þó enn framleidd sígild tæki, sem hafa verið framleidd í áratugi og gott dæmi um það var þessi keðjudreifari frá skoska fyrirtækinu Marshall. Þarlendum bændum stendur til boða svona dreifari, sem hefur verið framleiddur nánast í sömu útfærslu í 40 ár, á rétt rúma milljón íslenskra króna!

Marshall keðjudreifarinn sem enn er hægt að kaupa í Skotlandi. Mynd /Snorri

Stærsta sláttuvélasamstæða í heimi

Á sýningunni var sýnd stærsta sláttuvélasamstæða í heimi en um var að ræða svokallaða tvöfalda fiðrildauppsetningu frá fyrirtækinu SIP, þ.e. dráttarvélin er með framsláttuvél og svo tvær sláttuvélar á hvora hönd!

Hver vél er með rúmlega þriggja metra vinnslubreidd og með skörun þeirra er heildar sláttubreiddin hvorki meira né minna en 14,55 metrar. Þessi samstæða þarf hraustlega dráttarvél eða að lágmarki 350 hestafla vél. Eins og sjá má af myndinni, þá er vélasamstæðan svo stór að greinarhöfundur gat einungis tekið mynd af tæplega helmingi hennar!

Hluti af stærstu sláttuvélasamstæðu heims. Mynd /Snorri

Handavinnukeppni

Á sýningunni í ár voru til sýnis rúmlega 150 verðlaunagripir Skotlandsmeistaramóts í handverki, en þegar kemur að keppnisgreinum á því sviði eru hreint ótrúlega fjölbreyttir möguleikar til þátttöku. Veitt voru brons-, silfur- og gullverðlaun í hverjum flokki og voru flokkarnir eiginlega hver öðrum ótrúlegri.

Þannig höfðu keppendur m.a. sent inn ullarvettlinga af alls konar gerðum og stærðum sem voru dæmdir af fagfólki, þarna voru útskornar tréskálar, heklaðir dúkar, jólaleikföng, útsaumur og margt fleira mætti nefna.

Þá voru keppnisflokkar fyrir árið 2024 einnig kynntir til sögunnar en alls verður hægt að taka þátt í 61 keppnisgrein í handverki í 11 mismunandi flokkum það ár! Þeir voru athyglisverðir handgerðu fjár- og göngustafirnir, en alls höfðu verið sendir inn stafir í 16 mismunandi og eiginlega ótrúlega sérhæfðum flokkum.

Þannig var til dæmis gerður munur á fjárstöfum með handfangi úr slípuðu kindahorni og útskornu kindahorni svo dæmi sé tekið og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Nokkrir af keppnis-fjárstöfunum, hver öðrum flottari. Mynd /Snorri

Heimsmeistaramótið í rúningi

Á sýningunni í ár var haldið heimsmeistaramótið í rúningi og tóku alls 350 þátt í keppninni og voru þátttakendurnir frá alls 30 löndum. Þá var ekki síður áhugavert að fylgjast með keppni í ullarfrágangi.

Þar komu saman öflugir keppendur sem sáu um að ganga frá ullarreifum frá tveimur rúningsmönnum og snerist keppnin um að ganga rétt frá ullinni, flokka tvíklippur og óhreina ull frá og halda gólfinu við rúningsmanninn hreinu. Þetta var svo gert á tíma og var einstakt að vera í salnum þar sem viðburðinum var lýst beint af íþróttafréttamanni sem tókst að gera keppnina enn meira spennandi og skemmtilega.

Þeir sýndu snör handtök keppendurnir í rúningi. Mynd /RHS

Fjölbreytt búfjárkyn

Á Royal Highland Show koma bændur einnig með gripi sína til sýningar og keppa þarna eigendur hesta, geita, kinda og nautgripa um vegleg verðlaun á Skotlandsmeistaramóti búfjár. Auk verðlauna skiptir titillinn líklega meira máli fyrir bændurna enda getur verð á grip hækkað um margar milljónir króna við það að geta skartað þeim titli að vera Skotlandsmeistari í sínum flokki.

Á sýningunni voru m.a. kynbótagripir af skosku tegundinni Highland Cattle
eins og hér má sjá. Mynd /RHSa
Það voru ekki einungis knaparnir sem voru vel búnir til keppni, hestarnir voru margir hverjir einkar vel búnir eins og sjá má. Mynd/RHS

Staurahlaup

Enn ein keppnisgreinin á sýningunni var stauraklifur en það er sérstök keppni sem felst í því að klifra upp 30 metra háan staur á sem stystum tíma. Keppnisbúnaður er gaddaskór og svo reipi sem sveiflað er um sveran trjábolinn og þeir sem eru fremstir í þessari grein nánast hlaupa upp staurana á ekki nema 10 sekúndum!

Hér er keppandi kominn vel af stað upp keppnisstaurinn. Mynd /Snorri

Áhersla á andlega heilsu

Að síðustu má svo nefna að bresku samtökin Change Mental Health voru með áhugaverðan kynningarbás á sýningunni en samtökin hafa starfað í fimm áratugi og alla tíð lagt áherslu á að efla vitund fólks á andlegum sjúkdómum.

Jim Hume, kynningarstjóri samtakanna, var á básnum og sagði þau nú vera með í gangi sérstakt verkefni í Skotlandi þar sem horft er fyrst og fremst til íbúa í dreifbýli og hvernig gera megi þeim auðveldara fyrir að takast á við andleg veikindi.

Jim Hume fyrir framan kynningarbásinn þar sem var lögð áhersla á mikilvægi þess að huga að andlegri heilsu fólks í dreifbýli. Mynd /Snorri

Að hans sögn er það nándin og sú staðreynd að „allir þekkja alla“ í dreifbýli að oft á fólk sem þar býr erfitt með að tjá sig um andleg veikindi og/eða leita sér síður hjálpar en fólk sem býr í þéttbýli. Verkefnið snýst því fyrst og fremst um það að vekja athygli á andlegum veikindum, einkennum þeirra og hvaða úrræði séu til staðar til að takast á við þau o.s.frv. Þá er hlutverk samtakanna ekki síður að opna umræðuna um andleg veikindi og berjast gegn fordómum sem oft virðast koma upp þegar um andleg veikindi er að ræða.

Samtökin aðstoða einnig fólk við að komast í samband við rétta fagaðila, sé þörf á slíku, og hjálpa þeim sem þurfa að vera opnir í kringum andleg veikindi. Mjög áhugaverð starfsemi í alla staði.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...