Komi þeir sem koma vilja!
Þá er vorið komið og sumarið á næsta leiti, hefðbundnar sviptingar í veðurfari og flest eins og við eigum að venjast sem stundum sauðfjárrækt. Fram undan er skemmtilegasti tími ársins, sauðburðurinn. Annasamur tími þar sem oft geta skipst á skin og skúrir.
Við sem stöndum í stafni fyrir sauðfjárbændur gerum það af óbilandi trú á íslenskri sauðfjárrækt og þeirri gæðaframleiðslu sem hún gefur af sér.
Íslenskt lambakjöt stendur undir öllum þeim kröfum sem neytendur nútímans gera til matvæla, lítil notkun sýklalyfja, hreint vatn, heilnæmt fóður og svo væri lengi hægt að telja.
Á síðastliðnum 6 árum höfum við verið að undirbúa okkur undir nákvæmlega það sem er að gerast á markaði hérlendis. Innflutningur á lambakjöti er orðinn að veruleika og í verslunum má finna kjötkæla fulla af innfluttu spænsku lambakjöti. Það eru kaldar kveðjur til sauðfjárbænda nú í upphafi sauðburðar.
Reyndar þurfa sauðfjárbændur ekki að óttast neina samkeppni. Svo framarlega sem afurðastöðvar og smásöluaðilar nýti sér kosti og gæði íslenska lambakjötsins í markaðs- og sölustarfi. Þar skiptir miklu máli að upplýsa neytendur um gæði vörunnar, sérstöðu og ekki síður að upprunaland vörunnar komi skýrt fram á neytendapakkningum. Nýlega fékk íslenskt lambakjöt verndaða upprunatilvísun frá Evrópusambandinu, svokallaða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin).
Þessi vottun er árangur af starfi Icelandic Lamb. Með þessari vottun er lambakjötið sett á sama stall og margar þekktar evrópskar landbúnaðarafurðir svo sem parmaskinka, fetaostur og kampavín.
Um þessar mundir er meðalafurðaverð til sauðfjárbænda 1.120 kr/kg. Síðasta haust var reiknað meðalafurðaverð á Íslandi 755 kr/ kg. Aðeins afurðaverð í Rúmeníu er lægra. Ef það er raunverulegur grundvöllur að flytja inn lambakjöt frá Spáni, hvar bændur fá 43% hærra afurðaverð, þá hlýtur að vera hægt að tryggja íslenskum bændum sambærileg kjör. Við óttumst ekki samkeppni við innflutt lambakjöt. Við sauðfjárbændur gerum bara þá einföldu kröfu að okkur séu gefin tækifæri til að lifa af okkar búskap. Markaðurinn sér svo um sína.
Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.