Kveðja formanns
Ágæti lesandi.
Í upphafi vil ég nota tækifærið og óska Trausta Hjálmarssyni til hamingju með kjör til formanns Bændasamtakanna, sendi ég honum mínar bestu óskir í áframhaldandi baráttu fyrir landbúnaðinn. Búnaðarþing, sem fer með æðsta vald í málefnum Bændasamtaka Íslands, kemur saman dagana 14. og 15. mars næstkomandi, þar sem Trausti mun formlega taka til starfa ásamt nýrri stjórn.
Síðastliðin fjögur ár hef ég gegnt embætti formanns Bændasamtaka Íslands. Það hefur verið bæði ögrandi og gefandi verkefni í senn. Síðustu ár hefur samtökunum tekist að standa sterk á velli sem samtök frumframleiðenda í landbúnaði og mikilvægt er að unnið verði áfram að þeirra málum til framtíðar. Mikilvægt er að standa vörð um atvinnufrelsi bænda og að hvergi sé hvikað frá þeim stjórnarskrárvörðum réttindum. Víða í regluverkinu gleymum við að frumframleiðslan er að uppistöðu til neyslu innanlands og þau tækifæri þurfum við að nýta og um leið tryggja fæðusjálfstæði þjóðarinnar á þessum undarlegum tímum ófriðar í okkar stóra heimi. Allar væringar í ófriðarátt eru mér hugleiknar þar sem við teljum sjálfsagt að það sé alltaf til matur og það nóg af honum, á öllum tímum ársins.
Stór hluti þessara áskorana felst í að við sem framleiðendur sitjum raunverulega við sama borð og aðrir sem eru með markað hér á landi, en þar á ég við tollverndina sem er lykilþáttur í starfsumhverfi greinarinnar. Við þurfum að standa vörð um sérstöðu landsins þar sem sjúkdómar og önnur óværa geti ekki rýrt þá gæðaframleiðslu sem borin er á borð landsmanna.
Þar sem þetta er minn síðasti leiðari í þessu annars frábæra blaði sem Bændablaðið er, vil ég koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa unnið með okkur í að ná fram þeim markmiðum að bera virðingu fyrir landbúnaði og þeim vörum sem eru framleiddar af kostgæfni allt í kringum landið. Heilnæmum afurðum sem laus eru við sýklalyfjanotkun og unnin úr hreinu vatni, en það er ekki staðan víða í heiminum. Einnig vil ég þakka okkar frábæra og hæfa starfsfólki sem vinnur fyrir okkur bændur alla daga og allan sólarhringinn þar sem allir eru á vaktinni að standa vörð um bændur og atvinnugreinina. Þá vil ég þakka þeim stjórnarmönnum sem hafa verið í stjórn Bændasamtakanna þessi fjögur ár sem ég hef gegnt stjórnarformennsku.
Megi landbúnaðinum farnast vel til framtíðar með sókn að leiðarljósi.