Það er ekkert í lögum okkar sem segir að almenningur eða t.d. matvælaframleiðendur hafi forgang í raforku eða fái raforku selda á ákveðnu verði til að halda niðri matvælaverði.
Það er ekkert í lögum okkar sem segir að almenningur eða t.d. matvælaframleiðendur hafi forgang í raforku eða fái raforku selda á ákveðnu verði til að halda niðri matvælaverði.
Mynd / ghp
Af vettvangi Bændasamtakana 27. september 2024

Orkuskortur mun bíta fleiri en garðyrkjubændur

Höfundur: Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá BÍ.

Raforkusamningum næstum allra garðyrkjustöðva sem eru í ylrækt var sagt upp í júní síðastliðnum en þeir hafa hálfsárs uppsagnarákvæði.

Axel Sæland

Það þýðir að garðyrkjubændur þurfa að semja upp á nýtt fyrir áramót. Á meðan maður bíður óþreyjufullur eftir nýjum tilboðum frá orkusölum getur maður ekki annað gert en að velta fyrir sér af hverju við erum í þessari stöðu.

Varað hefur verið við þessu í mörg ár, þ.e. að orkuskortur sé í aðsigi þar sem engar virkjanaframkvæmdir hafa verið undanfarin ár og verð á almennum markaði muni þrýstast upp þar sem eftirspurn er mikil. En það er meira þarna á bak við.

Vonarskarð að breyta leiknum

Hingað til hafa orkusölufyrirtæki getað samið beint við Landsvirkjun (LV) um kaup á orku til langs tíma, en nú hefur LV ákveðið að fara inn í Vonarskarð með almenna orku. Vonarskarð er uppboðsmarkaður á raforku – sem þýðir að raforkan er seld hæstbjóðanda hverju sinni. Nú lítur út fyrir að engin ný orka komi inn á markaðinn næstu fjögur árin.

Því er ljóst að verð á orku á almennum markaði mun þrýstast upp. Stjórnvöld eru á leið með okkur almenning inn í villta vestrið í orkumálum.

Það er ekkert í lögum okkar sem segir að almenningur eða t.d. matvælaframleiðendur hafi forgang í raforku eða fái raforku selda á ákveðnu verði til að halda niðri matvælaverði.

Raforkuverð mun hækka hratt

Orkusalar og ráðgjafar okkar garðyrkjubænda spá því að orka á almennum markaði muni hækka um rúmlega 1kr/kWh á ári þar til ný orka kemur inn á markaðinn. Spá þeirra miðast við þá þróun sem hefur verið á uppboði raforku hjá Vonarskarði og þeirrar eftirspurnar sem þeir finna fyrir. 1 kr/kWh á ári þýðir 8–10% hækkun árlega næstu árin. Það mun á engan hátt hjálpa til við að ná niður verðbólgu í landinu. Allir munu finna fyrir þessu.

Almenn orka kostar í dag 7,3–10 kr/kWh eftir því hvar orkan er keypt, garðyrkjubændur hafa hingað til getað samið við orkufyrirtækin með X afslátt af taxtanum vegna þess hve stórir viðskipavinir þeir eru og hagkvæmir, þar sem stóran hluta af árinu nota þeir vaxtarlýsingu allt að 20 klst. á sólarhring. Fróðlegt verður að sjá hvaða verð við munum fá frá orkusölum og hvað þeir eru tilbúnir að gera langa samninga.

Arðgreiðslur Landsvirkjunar nýr skattur á almenning

Hvort að við garðyrkjubændur fáum/ náum góðum samningum breytir þó ekki stöðu hins almenna borgara – sem má búast við verulegum hækkunum á raforku næstu árin. Orkuframleiðendur eru þeir sem hagnast langmest á þessu. Það er skrýtin staða að orkuframleiðendur í landinu hagnist mest á því að gera ekki neitt. Sem leiðir til þess að ríkisstjórnin hefur getað sett gríðarlegar arðsemiskröfur á LV sem er ekkert annað en skattur á okkur almenning. Fyrir árið 2020 var LV að greiða 1–2 milljarða kr. í arð til ríkisins, en árið 2020 voru það 10 milljarðar kr. og í ár voru það 30 milljarðar króna.

Grípa þarf inn í þessa þróun

Við erum með starfandi verðlagsnefnd á mjólk hér á Íslandi þar sem mjólk er ein af grunnstoðum okkar samfélags í fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Þar er passað upp á að frumframleiðandi fái greitt sanngjarnt verð fyrir sína framleiðslu og að mjólkin sé á sanngjörnu verði til neytanda. En annað á að gilda um raforkuna. Hún skal seld hæstbjóðanda og frumframleiðandinn skal græða sem mest og almenningur skal greiða uppsett verð. Er þetta rétt leið?

Frönsk stjórnvöld ætla að koma hömlum á orkumarkað sinn þar sem þróunin hefur verið í þessa átt. Þar vilja þeir festa verð á orku í 70 euro/MWh eða 10,71 kr/kWh til almennings, það hreinlega gangi ekki upp að almenningur eigi að blæða fyrir orkuskort. Í hvaða krónutölu verða sársaukamörk okkar Íslendinga?

Ég hvet því stjórnvöld til að skoða þessi mál og þá þróun sem er að raungerast í orkumálum alvarlega. Það er ekki of oft sagt að matvælaframleiðsla er grunnstoð hverrar þjóðar og það er skylda ríkis að standa með henni og sjá til að hún hafi gott og skýrt umhverfi til að starfa í.

Skylt efni: orkuskortur

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts
Lesendarýni 19. september 2024

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts

Í Bændablaðinu 2.11. 2023 var fjallað um bindingu CO2 vegna framleiðslu kindakjö...

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...

Tollar og tómatar
Lesendarýni 16. september 2024

Tollar og tómatar

Eins og sólin sest í vestri er nokkuð árvisst að upp komi umræða um tolla á land...

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...