Eftirlitsvandi
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Stóra brúneggjamálið hefur skekið fjölmiðla landsins síðustu daga í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Kastljóss um afleita meðferð á varphænum.
Þótt eflaust sé búið að koma öllu í gott stand á búinu í dag, þá er skaðinn orðinn mikill. Sá skaði lendir ekki bara á eigendum búsins heldur verða allir aðrir alifuglabændur á Íslandi líka fyrir miklum álitshnekki.
Bændasamtök Íslands hafa fordæmt illa meðferð á dýrum á búinu og það sama hafa bæði alifuglabændur og aðrir bændur um land allt gert. Það vekur þó furðu í allri þessari umræðu að þrátt fyrir dýrar eftirlitsstofnanir skuli svona vandamál hafa fengið að grassera á búinu í hartnær áratug. Matvælastofnun, sem hefur farið með eftirlitshlutverkið, kvartaði lengst af yfir ónógum heimildum. Þar er við hið háa Alþingi að sakast sem greinilega hefur verið ansi lengi að smíða löggjöfina á þann máta að hægt væri að fara eftir henni. Síðan er það reglugerðarsmíðin sem nauðsynleg er til að hægt sé að framfylgja lögunum. Sú smíðavinna tók líka drjúgan tíma. Vandræðin eru því allt í gegnum stjórnkerfið sem hlýtur að teljast algjörlega óviðunandi. Það er því afar eðlilegt eftir svona uppákomu að almenningur velti því fyrir sér til hvers sé verið að setja peninga í rándýrt eftirlitskerfi sem virkar greinilega ekki betur en þetta.
Sektin liggur eðlilega hjá þeim sem heldur dýr en sinnir því ekki að aðbúnaðurinn sé með þeim hætti að þeim geti liðið sem best. Eigendur viðkomandi fyrirtækis hafa með framferði sínu eyðilagt alla möguleika á að nokkurn tíma verði framar notað hugtakið „vistvænn landbúnaður“, nema þá helst sem skammaryrði.
Þetta hugtak og merki sem búið var til á sínum tíma var virðingarverð tilraun til að hífa þá sem það notuðu upp úr meðalmennskunni. Það átti að gefa neytendum vísbendingu um að framleiðsla frá viðkomandi búum væri rekin með sérlega vistvænum hætti. Alla tíð skorti þó á að nógu góðar skilgreiningar og regluverk væri sett til að notkun á merkinu stæðist væntingar. Öll eftirfylgni með notkun merkisins var síðan í skötulíki. Í stað þess að reyna að smíða haldbærar reglur var ákveðið að fella reglugerð frá 1998 um vistvænan landbúnað úr gildi. Var það gert 1. nóvember 2015. Þrátt fyrir það var hverjum sem var í sjálfu sér heimilt að skreyta framleiðslu sína með þessu merki þótt menn hafi í raun aldrei uppfyllt nokkur skilyrði um það sem kalla mætti vistvænan landbúnað.
Í heilan mánuð hafa kjörnir alþingismenn verið að reyna að hnoða saman nýrri ríkisstjórn. Það er vissulega nauðsynlegt að hafa hér starfhæfa ríkisstjórn, en alþingismenn verða líka að hafa í huga að þeir eru kosnir á þing til að smíða lög til hagsbóta fyrir land og þjóð. Þá hlýtur það að vera krafan að fólk sem þar situr geti sett saman lagatexta sem er það skýr og auðlesanlegur að ekki sé hægt að snúa út úr honum og túlka á mismunandi vegu. Sú stofnanamállýska sem tröllriðið hefur lagasetningu hér á landi er ekki síður ámælisverð en klúður allra þeirra sem eiga síðan að framfylgja og fara eftir lögunum.
Í Njálssögu voru þessi fleygu orð sett á prent; „með lögum skal land byggja en með ólögum eyða“. Þetta orðatiltæki er enn í fullu gildi og öruggt má telja að það sé ekki vanþörf á góðri tiltekt í lagasöfnum Íslendinga til að henda þaðan út öllum ólögum sem samin hafa verið í gegnum tíðina. Þingmenn ættu því að hafa það í huga, að ef þeir geta ekki samið skilmerkileg lög og látið fylgja því eftir með vandaðri reglugerðarsmíð, þá er betra að þeir sleppi öllu fikti við lagasmíðar.