Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hagkvæmari mjólkurpottur með minna kolefnisspori
Skoðun 22. desember 2021

Hagkvæmari mjólkurpottur með minna kolefnisspori

Höfundur: Kári Gautason, sérfræðingur í úrvinnslu hagtalna hjá BÍ

Ein stærsta áskorun innlends landbúnaðar næstu ár er að draga úr losun gróður­húsalofttegunda. Stundum er því stillt upp þannig að árangur í loftslagsmálum þurfi eingöngu að þýða meiri kostnað fyrir bændur. En víða er það einmitt þveröfugt, bættur árangur fer saman við lægri framleiðslukostnað vara.

Metangas myndast í vömb jórturdýra, sérstaklega við át á trénisríku gróffóðri. Rannsóknir hafa verið gerðar á ýmsum efnum til þess að bæta út í fóður til þess að hamla þessari nýmyndun. En pistill þessi fjallar ekki um slík efni. Heldur um bústjórn og innleiðingu á tækni sem nú þegar er til staðar og hefur verið sannreynd. Ég hef áður í þessum dálki fjallað um mikilvægi afurða eftir hvern grip til að lækka kolefnisfótsporið af hverjum mjólkurlítra. En hér ætla ég að fjalla um bústjórn og tækni.

Með því að gera framleiðsluna hagkvæmari má draga úr metanlosun á hvern framleiddan mjólkurlítra umtalsvert. Markmiðið er að fækka nautgripum í vexti á hverjum tíma eins mikið og hægt er. Það er ekki eingöngu aðgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, heldur er þetta til þess að draga úr framleiðslukostnaði á mjólk. Ég tel að horfa þurfi til nokkurra lykilbreytna í því að ná árangri.

Kári Gautason.

Fyrst þarf að einblína á burðaraldur kvígna, en hver mánuður umfram 24 mánuði er sóun á verðmætum og framkallar óþarfa losun á metani. Meðalburðaraldur í dag er um 27,5 mánuðir og hefur verið um árabil á þeim slóðum. Líkt og sýnt er á myndinni er engin sjáanleg þróun í rétta átt ef horft er til fjölda kvígna yfir 25 mánaða aldri. Ef að íslensk nautgriparækt gæti lækkað burðaraldur kvígna um einn mánuð myndi það þýða að um 1.200 færri kvígur væru í stofninum á hverjum tíma. Þá er það endurnýjun mjólkurkúa, en sem stendur er að jafnaði skipt út 37% af stofninum á hverju ári.

Ýmislegt bendir til þess að þetta endurnýjunarhlutfall sé óþarflega hátt og hagfelldara væri að hafa það á bilinu 33-35%. Vísa ég þar til útreikninga sem ég framkvæmdi í samstarfi við danska sérfræðinga hjá SimHerd við undirbúning af endurskoðun á hagrænu vægi eiginleika í kynbótamati. Ástæður þess að endurnýjunarhlutfallið er of hátt á Íslandi tel ég vera af þrennum toga. Fyrsta lagi er það að frjósemi kúa hefur smám saman dregist saman síðustu 20 árin. Í öðru lagi er kúm lógað vegna júgurgalla eða júgurbólgu sem annars hefðu getað enst eitt ár í viðbót. Í þriðja lagi er ekki virkur markaður með kvígur á Íslandi líkt og í sumum nágrannalöndum okkar svo það er engin leið fyrir bændur að losa sig við kvígur upp í kostnað og því þarf að finna gamla kú til að slátra þar sem allar kvígur eru vanalega settar á.

Sé dregið úr endurnýjunar­hlutfalli þarf því færri kvígur inn í stofninn á hverju ári og þar með færri kvígur í uppeldi. Þá komum við að síðasta atriðinu til þess að ná verulegum árangri. En það er kyngreint sæði. Með því að nota kyngreint sæði er hægt að stýra framleiðslu á kvígum og framleiða holdanautablendinga fyrir rest.

Með þeim hætti mætti draga verulega úr þörfinni á því að hafa sérstakar holdakýr þar sem hægt væri að framleiða það nautakjöt sem til þarf út úr framleiðslukerfi mjólkurinnar. Slíkt er umhverfislega mjög eftirsóknarvert – þar sem að metanútblásturinn deilist því á mörg þúsund lítra af mjólk til viðbótar við kjötið. Sömuleiðis þarf að ná stjórn á kálfadauða, með ræktun og með bættu umhverfi gripa.

Ef að næðist árangur í þessum atriðum tel ég að nautgripastofninn gæti verið talsvert minni á hverjum tíma og framleiðslukostnaður mjólkur lægri en hann er í dag. Það er allrahagur, neytenda, bænda og mjólkuriðnaðarins. Fyrir utan það að loftslagsspor mjólkur og kjötframleiðslu væri þeim mun minna. En til að það geti gerst þarf markvissa vinnu. Nú þegar hafa kúabændur stigið risaskref í því að taka upp erfðamengisúrval og unnið er að því að bæta mat á frjósemi hjá RML. Bæta þarf uppeldi gripa og gróffóðuröflun þannig að lækka megi meðalaldurinn. Svo er það búnaðurinn til kyngreininga á sæði sem er dýr einskiptiskostnaður. Niðurstaðan verði hagfelldari mjólkurpottur fyrir neytendur og bændur ásamt minna loftslagsspor af neyslu Íslendinga á mjólkurvörum og nautakjöti.

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...