Hlúum að íslenskri nautakjötsframleiðslu
Í vikunni lækkaði Norðlenska verð fyrir nautgripi og varð þar með fjórði sláturleyfishafinn til þess að lækka verð til bænda undanfarinn mánuð en KS, SS og SAH höfðu áður tilkynnt lækkanir hjá sér. Fækkun ferðamanna í kjölfar COVID-19 hefur haft mikil áhrif á eftirspurn eftir nautakjöti en það er ekki einungis kófið sem nautgripabændur kljást við heldur hefur tollaumhverfið tekið stórkostlegum breytingum á stuttum tíma.
Helstu staðreyndir um tollaumhverfið
- Fyrir tíma COVID hafði fjöldi ferðamanna til landsins dregist saman en þrátt fyrir það aukast tollkvótar jafnt og þétt milli ára. Samdráttur milli 2018 og 2019 nam 14,1%.
- Þrátt fyrir að nautakjötssala heilt yfir hafi dregist saman er meiri eftirspurn eftir tollkvótum en koma til úthlutunar.
- Um næstu áramót verður tollkvóti fyrir nautakjöt frá Evrópusambandinu til Íslands búinn að sjöfaldast frá ársbyrjun 2018 og verður 696 tonn.
- Á síðustu 2 árum hefur orðið um 75% verðlækkun á tollkvótum frá ESB.
- Nýjum úthlutunarreglum á tollkvótum sem var beitt í fyrsta sinn í sumar leiddi til þess að verð tollkvóta fyrir nautakjöt lækkaði um 40% frá fyrri úthlutun og er nú aðeins einn fjórði af því verði sem það var í upphafi 2019.
- Minnkuð eftirspurn og auknir tollkvótar á sama tíma skila sér í því að verðmyndandi áhrif innflutningsins aukast á innanlandsframleiðslu.
- Ef fer sem horfir stefnir í að allt nautakjöt sem flutt er inn til landsins verði flutt inn á tollkvótum sem sífellt hafa lækkað í verði og verði því enn ódýrara en nú er.
Mikill árangur náðst undanfarin ár
Uppgangur hefur verið í innlendri nautakjötsframleiðslunni á síðustu árum og mikið hefur verið lagt þar til bæði frá bændum og stjórnvöldum. Nýr kafli er rétt að hefjast með nýju Angus erfðaefni og möguleikar í holdakjötsframleiðslu spennandi. Flokkun nautgripakjöts hefur þokast uppá við og bændur hafa lagt metnað sinn í að bjóða upp á aukið úrval og betri vörur. Það er gott að geta boðið neytendum upp á heilnæma íslenska gæðavöru. Undanfarnar lækkanir sláturleyfishafa hafa því verið kjaftshögg fyrir greinina.
Frá ársbyrjun 2018 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 8,5% en á sama tíma hefur afurðaverð til bænda fyrir ungnautakjöt lækkað um rúmlega 10%.
Verð á aðföngum til nautakjötsframleiðslu hefur hækkað á síðustu árum og því er ljóst að verðlækkanirnar nú skila sér í því að enn harðar er gengið á launalið bóndans. Nú hefur verið gengið svo langt að hvatinn fyrir að halda uppi þeim góða árangri sem hefur náðst er að verða takmarkaður og einhverjir fara að hætta að sjá sér hag í því að framleiða nautakjöt.
Þær ákvarðanir sem við tökum í dag hafa áhrif á nautakjötsmarkaðinn eftir 2–3 ár og við gætum mögulega horft fram á mikinn samdrátt í framleiðslu íslensks nautakjöts.
Látum það ganga
Í upphafi fyrstu COVID-bylgjunnar vaknaði mikil umræða um mikilvægi fæðuöryggis í landinu, rétt eins og hafði gerst eftir hrun – og tilhneiging er til að gerist þegar á reynir – en vill svo gleymast með tímanum þegar fram líða stundir. Þá hefur einnig verið talað um mikilvægi þess að halda störfum í landinu og að vernda atvinnugreinar. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, ásamt fjölmörgum samtökum, réðust af stað í átakið „Íslenskt – láttu það ganga“. Nú velti ég fyrir mér hvort að stjórnvöld ætli sér að gera eitthvað svo að íslensk nautakjötsframleiðsla – fái að ganga.
Sanngjarnt tollaumhverfi
Stórkostlegar breytingar í tollaumhverfi nautgripakjöts hafa komið greininni í mjög erfiða stöðu hvað varðar samkeppnishæfni hennar. Það sem er sérstaklega ömurlegt við þær breytingar er að þær voru gerðar á sama tíma og hvað mest uppbygging var fyrirséð í greininni. Lyft er undir með annarri hendi en togað allsvakalega niður með hinni.
Það er skýrt hverjum þeim sem vill sjá að einhverju verður að breyta í tollaumhverfi greinarinnar. Við höfum lagt ríka áherslu á að tollasamningur við Evrópusambandið verði hið minnsta endurskoðaður, ekki seinna en í gær. Áður en samningurinn tók gildi mótmæltum við honum harðlega, enda er í honum samið um kíló á móti kílói, sem augljóslega veldur því að áhrif samningsins eru meiri á íslenskan markað en nokkurn tímann á evrópskan markað. Allt frá því hann tók svo gildi um mitt ár 2018 höfum við farið fram á endurskoðun enda ljóst frá upphafi hversu mikil neikvæð áhrif hann myndi hafa á íslenskan landbúnað.
Aðstæður nautakjötsframleiðslunnar þurfa að verða lífvænlegri til þess að hér sé hægt að vernda bæði þann árangur sem náðst hefur undanfarin ár og þau fjölmörgu störf sem hafa skapast við greinina, það eru nefnilega ekki einungis bændur sem komu að því að koma nautasteik á disk landsmanna.
Við erum stolt af okkar landbúnaði og teljum okkur standa vel þegar kemur að matvælaöryggi, en hvar viljum við standa þegar kemur að fæðuöryggi? Önnur ríki hafa brugðist við með að gefa í og styrkja innlenda matvælaframleiðslu enn frekar. Íslenska ríkið getur styrkt íslenskan landbúnað með því að búa honum bjóðandi tollaumhverfi. Ekki seinna, heldur núna!
– Látum það ganga.
Herdís Magna Gunnarsdóttir, Egilsstöðum,
varaformaður Landssambands kúabænda