Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?
Mikið er ritað og rætt um hækkandi vöruverð og dýrari matarinnkaup þessi misserin. Þessi umræða er í sjálfu sér ekki ný af nálinni en reglulega virðist verðbólgudraugurinn láta á sér kræla.
Verðbólga á Íslandi mælist nú um 7,2% og hækkaði um 1,3% á milli mánaða. Yfir 12 mánaða tímabil hefur húsnæðisliðurinn hækkað um 11,6% á meðan matur og drykkjarvörur hafa hækkað um 5,2%. Hækkun á mat- og drykkjarvörum skýrist að hluta til af hækkun innfluttra matvæla en jafnframt á hækkun framleiðslukostnaðar á innlendum matvælum. Gríðarlegar hækkanir á aðföngum til landbúnaðarins eru farnar að koma fram í verðlagi, og ljóst að fleiri þættir munu ýta undir áframhaldandi þróun í þá átt. Allar kjötvörur hafa hækkað um 6,9% sl. ár. Það er hins vegar ekki svo að hækkun á kjötvörum til neytenda komi fram í hækkun á afurðaverði til bænda. Sú er a.m.k. ekki raunin með nautakjötið um þessar mundir. Þar er á ferðinni hættuleg þróun sem vert er að vekja athygli á.
Árið 2020 hóf Landssamband kúabænda að setja fram þróun á afurðaverði til nautgripabænda í vísitölu sem kallast VATN. Frá árinu 2018 hefur afurðaverð til bænda lækkað um tæp 10% meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um rúm 18%. Ef afurðaverð til bænda væri launavísitala væri talað um að kaupmáttarrýrnun kúabænda í mars væri um 27% frá janúar 2018. Á almennum markaði þýddi slíkt miklar erjur á vinnumarkaði og verkföll myndu lama atvinnulífið. Ekkert slíkt er í kortunum nú, enda ekki um beina launavísitölu að ræða. Af þessum samanburði er þó ljóst að kjör nautgripabænda hafa farið verulega versnandi frá árinu 2018. Við sjáum sömu þróun ef rýnt er í skýrslu RML um afkomu nautakjötsframleiðenda á árunum 2017-2019. Hlutfall rekstrarafgangs minnkaði um helming á árunum 2018-2019, úr 18,3% í 9,0% og laun bænda reiknuð á hvert framleitt kíló nautakjöts lækkaði um fjórðung á tímabilinu 2017 og 2019.Bændur hafa þannig ekki notið þeirra verðhækkana á matvöru sem nú knýr m.a. verðbólgudrauginn áfram heldur tekið hækkandi aðfangaverð allt á innri rekstur.
En hvað veldur þessari þróun?
Á sama tíma hefur tollkvóti til innflutnings nautgripakjöts stóraukist. Frá því að tollasamningur Íslands við Evrópusambandið tók gildi í janúar 2018 hefur tollkvótinn farið úr um 200 tonnum á ári í rúm 800 tonn eða fjórfaldast. Um svipað leyti var tekin upp önnur aðferð við útboð á kvóta, sem saman með þessari miklu aukningu, leiddi til hálfgerðs hruns á verði tollkvóta í nautakjöti. Í ársbyrjun 2021 var uppboðsaðferðinni hins vegar breytt til baka og við það hækkaði kvótaverðið ögn. Sífellt hærra hlutfall af innfluttu nautakjöti rúmast því innan tollkvóta en á árinu 2021 rúmaðist um 80% af öllu innfluttu nautakjöti innan tollkvóta.
Á meðan tollkvóti til innflutnings hefur verið stóraukinn, meðalverð tollkvóta hefur hríðlækkað og afurðaverð til íslenskra bænda hefur lækkað töluvert, hefur nautakjöt samt sem áður hækkað um 15% skv. undirvísitölu Hagstofunnar.
Vissulega hefur afurðaverð til bænda verið á uppleið undanfarna mánuði, og þó að slíkt sé sannanlega jákvætt er nær að tala um leiðréttingar fremur en hækkanir.
Á sama tíma hafa bændur verið að mæta kröfum markaðarins um betri aðbúnað, betri fóðrun og heilnæmari framleiðslu. Þróunin á holdafyllingu nautgripa framleiddra á Íslandi er komin fram úr þeim markmiðum sem bændur settu sér fyrir árið 2028 og mikill metnaður hefur verið lagður í að bæta erfðamengi stofnsins. Þar að auki ber íslenskt nautakjöt allt að helmingi lægra kolefnsspor en erlent nautakjöt og engin umframframleiðsla er í greininni, allt selst meira og minna ferskt.
Með öðrum orðum: Bændur hafa verið að skila mun betri vöru fyrir mun minni framlegð og slíkur rekstur er vart sjálfbær til lengdar. Afkoma nautgripabænda verður að skoðast í þessu samhengi og augljóst er að afkoman verður að batna töluvert. Þá er einnig vert að nefna að gripagreiðslur til nautgripabænda eru afar lágar eða um fjórðungur af gripagreiðslum til sauðfjárbænda.
Því er alveg ljóst að orsaka verðbólgunnar sem nú geisar þarf að leita annars staðar en í gripahúsum bænda. Aukinn tollkvóti til innflutnings hefur engan veginn skilað sér til neytenda, heldur fyrst og fremst rýrt afkomu bænda. Þessari þróun verður að snúa við áður en í óefni stefnir með framleiðsluvilja bænda.
Við sjáum það svart á hvítu í rekstrarskýrslu RML að bændur hafa jafnt og þétt verið að ganga lengra á eigin launalið. Það þarf því ekki að koma nokkrum á óvart að sveigjanleikinn sem er eftir hjá bændum til að taka á sig stórfenglegar aðfangahækkanir er lítill sem enginn. Við erum því farin að sjá raungerast það sem við höfum varað við, þ.e. að framleiðendur sjá sér ekki fært að halda áfram með sama hætti og eru farnir að draga úr framleiðslu eða jafnvel hugsa sér að hætta. Þar töpum við dýrmætri þekkingu og atvinnutækifærum í sveitum og það tjón verður vart metið til fjár. Einkum núna þegar reynir á fæðuöryggi þjóðarinnar.
Herdís Magna Gunnarsdóttir