Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Innflutningsmengun
Mynd / smh
Skoðun 7. júlí 2017

Innflutningsmengun

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Innkoma bandaríska verslunarrisans Costco á íslenskan markað hefur sannarlega verið tekið fagnandi af íslenskum neytendum. Sennilega eru þó fæstir sem þar versla að hugsa mikið um umhverfismál þegar þeir raða innfluttu grænmeti og öðru góðgæti í innkaupakörfurnar. 
 
Costco naut þess við innkomuna á íslenskan markað að hér höfðu kaupmenn gengið mun lengra í verðálagningu um langt árabil en neytendur voru tilbúnir að kyngja. Það reyndist erlenda risanum því mjög auðvelt að sópa til sín viðskiptavinum „stóru“ íslensku verslanakeðjanna, án þess að auglýsa nokkurn skapaðan hlut. Nú er þessi risi búinn að vera hér á markaðnum í rúman mánuð, en þegar kominn með drjúga sneið af markaðnum, líka í viðskiptum með eldsneyti. Áhrifin eru gríðarleg og sjá má afleiðingarnar víða. 
 
Þótt mikið og gott úrval sé af íslensku kjöti í Costco, þá fer lítið fyrir framboði á íslensku grænmeti, sem þó er ræktað á eins heilnæman hátt og hugsast getur. Af þessu hafa íslenskir garðyrkjubændur talsverðar áhyggjur, enda er innflutta grænmetið frá Costco farið að hafa umtalsverð áhrif á minni sölu á íslensku grænmeti. Samt segja okkar bændur að það séu auðvitað neytendur sem ráði og verði að fá að ráða þar ferðinni. 
 
Náttúruvernd, dýravernd og loftslags­mál hafa verið mjög ofarlega á baugi í umræðunni undanfarin ár. Þar hafa raddir sem berjast gegn mengun bifreiða verið mjög háværar, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Bent er á svifryksmælingar sem hafa farið upp úr öllum skölum og bifreiðum kennt um. Gatnaþrenginga- og holumeisturum höfuðborgarinnar datt þó auðvitað ekki í huga að nefna hið augljósa, nefnilega að göturnar eru nánast aldrei skolaðar og þrifnar. Þeir ypptu bara öxlum og hjóluðu í Costco og keyptu ódýrt innflutt grænmeti. 
 
Það er gott að neytendur geti keypt ódýrar matvörur í Costco, en hafa andstæðingar bílamengunar nokkuð velt því fyrir sér hvernig t.d. grænmetið og innflutta kjötið kemst í hillurnar í Garðabænum? 
 
Við skulum kíkja á það nánar. Um 90 prósent af öllu sem þú kaupir er flutt til landsins með skipum. Þar á meðal er innflutt grænmeti og önnur matvara bæði í Costco og öðrum verslunum landsins. Talandi um mengun, þá er athyglisvert að lesa grein á blaðsíðu 34 í Bændablaðinu í dag um heimildarmyndina Sea Blind. Þar er fjallað um mengun frá skipum sem gatnaþrenginga- og holumeistarar Reykjavíkur hafa sennilega aldrei heyrt minnst á. Ef svo væri hefðu þeir fyrir löngu látið þrengja allar sjóleiðir verulega. 
 
Samkvæmt heimildarmyndinni Sea Blind, þá er flutningaskipaútgerð sá atvinnuvegur í heiminum sem mengar einna mest, bæði vegna stærðar skipanna og gríðarlegs magns eldsneytis sem þau brenna. Þannig losa sautján stærstu gámaflutningaskip heimsins meiri brennistein út í andrúmsloftið árlega en allir bílar samanlagt. Eitt skemmtiferðaskip blæs jafnmiklu sóti út í andrúmsloftið daglega og ein milljón bíla. Tal um mengun bifreiða sem aka um íslenska vegakerfið er hreinn brandari í þessum samanburði. 
 
Þetta mættu neytendur hafa í huga þegar þeir kaupa t.d. innflutt grænmeti og kjöt sem vel er hægt að framleiða á Íslandi. Mengunarfótspor tómata sem fluttir eru frá Suður-Ameríku er gríðarlegt. Sama má segja um allar aðrar innfluttar matvörur. Ef menn meina eitthvað með fögru tali sínu um að stemma stigu við mengun, þá ætti fólk auðvitað að hugsa sig tvisvar um þegar það verslar í matinn. Þar geta íslenskir neytendur haft langmest áhrif á að stuðla að minni mengun í heiminum.  
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...