Íslenskt timbur, já takk!
Íslenskt timbur er gott timbur. Það er sjálfbært, vistvænt og vel vaxið. Í þjóðskógum Skógræktarinnar og í skógum skógræktarfélaga víða um land vex digurt úrvals timbur.
Mörgum kemur á óvart að svo sé, en þegar horft er á málin með raunsæi nútímans en ekki örvæntingarstuðli frumkvöðlanna má glöggt sjá að inni í víðfeðmum skógum landsins vaxa úrvals trjábolir á pari við viðarvöxt hjá samanburðarlöndunum víðfrægu; Skandinavíu, Rússlandi og Norður-Ameríku. Síðustu þrjá áratugi hafa bændur á bújörðum einnig tekið sig til við að rækta skóg og hefur flatarmál nytjaskóga aukist með hverri gróðursettri plöntu.
Þekking og reynsla hefur vaxið einnig. Skilningur ræktenda á mikilvægi skógarumhirðu, svo sem tvítoppaklippingu, uppkvistun og millibilsjöfnun, mun skila sér í enn betri viði en hingað til og þá er nú mikið sagt. Gjöfula skóga má rækta víða um land og þannig leggjum við upp með timburöryggi þjóðar inn í framtíðina.
Bændasamtökin, ásamt fyrrnefndum hagsmunaaðilum og fleiri velunnurum nytjaskógræktar, eru um þessar mundir að hefja samstarf um að koma timbrinu okkar betur til neytenda, enda tími til kominn. Þegar innflutningstölur á timbri eru skoðaðar má sjá að Íslendingar eru stórneytendur timburs af öllum gerðum. Það styttist í að hægt verði að bjóða heimaræktað timbur sem er samþykkt og samkeppnishæft við það innflutta. Það mun skila tekjum til bænda og annarra skógræktenda. Ætlunin er að bjóða íslenskt loftslagsvænt timbur á markað jafnt og þétt og koma þannig til móts við kröfur þeirra sem óska Jörðinni farsældar um ókomna tíð. Bændasamtökin sjá tækifærin í skógrækt, sérð þú skóginn fyrir trjánum?
Hlynur Gauti Sigurðsson,
búgreinadeild skógarbænda, Bændasamtök Íslands.