Katanesdýrið
Á seinni hluta nítjándu aldar varð vart við skrímsli rétt hjá Katanesi á Hvalfjarðarströnd. Kvikindi þetta olli nokkru uppnámi og var m.a. gerður út leiðangur af hinu opinbera til að ljósmynda dýrið og skjóta en hvorugt tókst. Að lokum hvarf kvikindið eins skyndilega og það birtist.
Dýrsins varð fyrst vart á Katanesi á Hvalfjarðarströnd árið 1874. Unglingar á staðnum sögðust hafa séð óvenjulegt dýr koma upp úr Katanestjörn og hverfa ofan í hana aftur. Þeir gátu ekki lýst því nákvæmlega en sögðu að það væri á stærð við stóran hund.
Aflangur digur skrokkur
Ári seinna sögðust menn oft sjá þessa skepnu á svipuðum slóðum og virtist hún hafa vaxið mikið. Þegar hér var komið sögu voru menn sammála um að dýrið væri á stærð við þriggja vetra nautgrip. Væri það með aflangan digran skrokk og rauðan haus sem líkist mest hvelju eða nýflegnu kjöti og tæplega tveggja metra langan hala. Búkurinn var sagður hvítur og næstum því hárlaus.
Haft var eftir sannorðum manni, sem var á ferð skammt frá tjörninni þar sem dýrið hélt sig, að hann hefði séð það liggjandi í laut. Hann sagðist hafa séð dýrið vel og væri það með sex stórar klær á hverjum fæti og vísaði ein þeirra beint aftur en fæturnir væru stuttir. Dýrið væri með stóran kjaft og fjórar hvassar framtennur í neðra skolti en tvær stórar vígtennur í þeim efra, eyrun löng og lafandi. Aðrir höfðu þó sagt að eyrun væru reist.
Sagt var að dýrið stykki frekar en gengi og af því legði megna fýlu og ódaun.
Syndir hratt
Þeir sem sáu kvikindið í tjörninni sögðu að það synti mjög hratt en það virtist vera hægfara á landi. Menn sögðust þó hafa séð það einangra kind frá fjárhópi enda hurfu margir sauðir og kindur þar um slóðir eftir að skrímslið fór á stjá. Dýrið virðist hafa átt það til að reika frá tjörninni því oft sást það ekki dögum saman við hana.
Setið fyrir Katanesdýrinu
Einu sinni ákváðu þrír menn að sitja fyrir dýrinu og reyna að skjóta það. Þeir sátu við tjörnina í nokkra daga án þess að verða varir við það. Sama dag og þeir gáfust upp elti Katanesdýrið smaladreng heim að bæ en hvarf svo aftur.
Í dag er búið að ræsa fram Katanestjörn og því lítil von um að finna dýrið þar.