Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Land og fólk
Skoðun 19. júlí 2018

Land og fólk

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Nokkur umfjöllun hefur orðið síðustu daga um eignarhald á jörðum í ljósi vaxandi áhuga erlendra auðmanna á kaupum á landi hérlendis.  Á árum áður voru frekari skilyrði í lögum hérlendis um ráðstöfun og nýtingu bújarða, en þau voru flest afnumin árið 2004. 

Fyrir því voru vissulega ákveðin rök – Alþingi á þeim tíma vildi að viðskipti með jarðir væru eins og með aðrar fasteignir og ekki mætti takmarka rétt jarðeigenda til að hámarka virði eigna sinna. En þar sem við erum undir EES-reglur sett að meira eða minna leyti, þá þýddi það um leið að réttindi allra á EES-svæðinu til að kaupa bújarðir hérlendis eru nákvæmlega þau sömu og okkar eigin. Einstaklingar og fyrirtæki utan EES sem vilja eignast jarðir þurfa sérstakt leyfi eins og mikið var rætt þegar kínverskur auðmaður hugðist kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Ekkert varð af því en sú jörð var síðan seld breskum auðmanni án þess að nokkur leyfi þyrfti til.

Jarðir séu áfram í rekstri og áfram í byggð

En málið snýst alls ekki um hvaðan eigendurnir koma, heldur hvað þeir gera.  Verkin tala. Það er og verður mikilvægast fyrir samfélög sveitanna að jarðir séu áfram í rekstri og áfram í byggð, hver sem fer með eignarhaldið.

Að gott ræktunarland sé ekki tekið með óafturkræfum hætti undir óskylda starfsemi án þess að nokkur fái rönd við reist.

Að byggðin sé nægilega sterk til að ráða við sameiginleg samfélagsleg verkefni svo sem fjallskil og annað sambærilegt. Það hefur mikla þýðingu.

Jarðeigendum sem taka jarðir úr landbúnaðarnotum og hafa lítinn áhuga á að taka þátt í sameiginlegum verkefnum hefur fjölgað verulega og það hefur áhrif.  Síðan eru líka eigendur sem nálgast málin með allt öðrum hætti og leggja mikið af mörkum inn í samfélagið. Það er eins misjafnt og mennirnir eru margir, en eignarhald og áherslur geta breyst með skjótum hætti. Auðmenn, íslenskir sem erlendir, geta misst áhugann eða eignirnar sem lenda þá í höndum einhverra sem hafa kannski ekki önnur markmið en að mjólka út eins mikla peninga og hægt er á sem allra skemmstum tíma.

Það er því frekar spurningin um hvort samfélag okkar geti sameinast um að setja einhver almenn skilyrði sem myndu ná bæði til okkar sjálfra og annarra. Það yrði engin séríslensk uppfinning því að margvísleg skilyrði gilda um eignarhald og viðskipti með bújarðir í nágrannalöndum okkar. Það er engri þjóð sama um sína matvælaframleiðslu og þess vegna er ekki litið á viðskipti sem þessi sömu augum og önnur.

Möguleikar til matvælaframleiðslu séu ekki eyðilagðir

Ræktunarland sem hverfur umhugsunarlaust undir annað verður ekki svo auðveldlega tekið aftur. 

Tilgangurinn er þá einfaldlega að tryggja að möguleikar til matvælaframleiðslu séu ekki eyðilagðir og að byggðirnar séu nægilega sterkar til að standa undir samfélaginu á hverjum stað.  Sveitarfélögin sem fara með skipulagsvaldið eru þarna í lykilhlutverki.  Sum hafa rætt þetta nú þegar en þar þarf meira að koma til.

Hins vegar þarf líka að ræða fleiri þætti. Landbúnaðurinn glímir við harðari samkeppni en áður í kjölfar nýs tollasamnings við ESB sem tók gildi 1. maí sl. auk þess sem langvarandi hátt gengi krónunnar hefur grafið undan innlendri framleiðslu – ekki bara í landbúnaði.

Vissulega nýtur landbúnaðurinn stuðnings í gegnum búvörusamninga og tollvernd, svo langt sem hún nær. Gengið hefur veikt hana gríðarlega mikið. Okkar afurðafyrirtæki eru núna að keppa við fyrirtæki sem eru sum hver 100 sinnum stærri eða meira.  Þetta er ekki lengur einangraður markaður.  Þetta eykur á óvissuna í greininni og veikir framleiðsluviljann sem alltaf þarf að vera fyrir hendi.

Aðstæður þurfa að taka mið af stöðunni sem uppi er hverju sinni

Ég efa það ekki að íslenskir neytendur eru mjög velviljaðir landbúnaði og vilja að hér sé stunduð matvælaframleiðsla bæði til lands og sjávar, en aðstæður þurfa að taka mið af stöðunni sem uppi er hverju sinni – svo að uppskeran verði góð.  Það er best fyrir landið og fólkið.

Erfiðleikar hjá nágrönnum okkar

Bændur eiga allt sitt undir sól og regni eins og við þekkjum – því sem landið gefur.  Það hafa verið misjafnar aðstæður hérlendis í sumar.  Heyskapur hefur gengið vel á Norður- og Austurlandi og útlit fyrir mikinn og góðan heyfeng.  Hingað til hefur staðan verið heldur verri á Suður- og Vesturlandi vegna mikilla rigninga.  Lítið hefur verið um þurrk og tún eru sums staðar orðin illfær vegna bleytu ofan í kaupið. Það horfir vonandi til betri vegar núna í vikunni.

Hins vegar hafa nágrannar okkar á Norðurlöndunum átt við allt annan vanda að stríða því þar hafa verið miklir þurrkar. Svo rammt kveður að því að tala má um uppskerubrest. Bændur hafa jafnvel þurft að slátra búpeningi vegna fóðurskorts. Það er sárt að þurfa að gera slíkt og við hugsum til kollega okkar við þessar aðstæður.

Leitað hefur verið eftir möguleikum á því að kaupa hey hérlendis. Ég hvet alla bændur sem eru aflögufærir með hey, eða sjá fram á það, til að láta vita af sér til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Það er eðlilegt og sjálfsagt að hjálpa okkar norrænu kollegum eftir því sem fært er. Það hafa þeir gert þegar á hefur bjátað hérlendis, eins og í Eyjafjallajökulsgosinu fyrir fáum árum.

Skylt efni: landauppkaup

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...