Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Allir upp á dekk ... eða út á akurinn
Leiðari 17. nóvember 2022

Allir upp á dekk ... eða út á akurinn

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands

Í gegnum aldir höfum við sem þjóð alist upp við að landbúnaður snúist um kýr og kindur. Þessar stoðir greinarinnar hafa staðið undir meginþorra framleiðslunnar í gegnum áratugi.

Og ekki skal gera lítið úr því, aftur á móti verður ekki litið framhjá þeim neyslubreytingum sem eiga sér stað hjá landanum og er svo komið að neysla á svína- og kjúklingakjöti er að verða um 50% af því kjöti sem við neytum. Þegar horft er til baka þá hafa bændur fylgt þessari þróun markaða með breyttum búskaparháttum og öðrum áherslum í sínum störfum. Einnig hafa bændur sótt sér þekkingu erlendis og þróað framleiðslu hér heima í takt við landfræðilega legu landsins á norðlægum slóðum. En þegar litið er til menntakerfisins sem bændastéttin reiðir sig á, hvar Landbúnaðarháskóli Íslands fer fremst í flokki, virðist sem þróun náms eða öllu heldur framboð náms í greinum sem snúa að framleiðslu, t.a.m. á svínum, kjúklingi og eggjum, ekki hafa fylgt þeim breytingum sem orðið hafa á búskaparháttum. Þarna verðum við að gera betur ef við ætlum okkur að verða sjálfbærari með þær frumframleiðslugreinar sem við stefnum á að stóla á til framtíðar.

Í því tilliti þarf einnig að líta til þess hvernig við hyggjumst byggja upp rannsóknarstarf til framtíðar og þá hugsanlega í samstarfi við erlenda háskóla. Þá má nefna að Menntaskólinn í Kópavogi rekur metnaðarfulla starfsemi sem skiptir landbúnaðinn miklu máli. Við skólann er kennt bakaranám, kjötiðn, matreiðsla, framreiðsla og grunndeild matvæla og ferðagreina. Hið sama gildir um Verkmenntaskólann á Akureyri, þar er kennt kjötiðn og matartækni.

Það er okkur afar mikilvægt í okkar litla samfélagi að iðn- og starfsmenntanámi fylgi það fjármagn sem þarf til að standa undir námi af þessum toga þar sem við reiðum okkur á ferðaþjónustu sem gjaldeyrisskapandi atvinnugrein og ekki síður í tengslum við alla úrvinnslu íslenskra afurða til framtíðar.

Kynslóðaskipti

Undanfarin misseri hafa Bændasamtökin átt í góðum samskiptum við Samtök ungra bænda um það hvernig skynsamlegast sé að nálgast umræðuna um kynslóðaskipti í landbúnaði þannig að hún nái árangri. Eitt sem hefur verið til umræðu er stuðningur við kynslóðaskipti og nýliðun með framlagi í gegnum rammasamning landbúnaðarins. Samkvæmt úthlutunarreglum getur stuðningurinn að hámarki numið 20% af heildarfjárfestingakostnaði á ári og skulu framlög til einstakra nýliða ekki vera hærri en 9 milljónir kr. í heildarstuðning. Á síðasta ári komu um 137 millj. til úthlutunar þegar fjárfestingarþörf skv. umsóknum nam nærri 3 milljörðum kr. Hér er augljóst reikningsdæmi sem gengur ekki upp.

Við hjá Bændasamtökunum höfum velt því upp hvers vegna ekki sé hægt að aðlaga þær aðgerðir og ívilnanir sem þegar eru til í kerfinu, þ.e. ráðstöfun á séreignarsparnaði og hlutdeildarlán. Væri það ekki framúrstefnuleg löggjöf að aðlaga lagaheimild fyrir fyrstu kaupendur á bújörð til ráðstöfunar á séreignarsparnaði? Þetta er ekki bara nauðsynlegt heldur fylgir því ákveðin sanngirni og fullkomið jafnræði að aðgerðir stjórnvalda nýtist öllu ungu fólki, hvar sem það svo kýs að búa og starfa. Einnig höfum við rætt hvernig það megi vera að fyrstu kaup í hlutdeildarláni nái einungis til íbúðarhúsnæðis í þéttbýli. Er ekki mögulegt að láta þá aðgerð einnig ná til lögbýla og þá til íbúðarhúshluta bújarðarinnar? Öll þessi atriði skipta máli svo við getum stutt við kynslóðaskipti í landbúnaði sem er okkur öllum mikilvæg. Einnig höfum við bent á möguleika í gegnum Menntasjóð námsmanna um ívilnanir til þeirra sem taka að sér að sinna störfum í hinum dreifðu byggðum svo sem dýralækna sem verulegur skortur er á í hinum dreifðu byggðum.

Regluverkið er mannanna, nú eða löggjafans verk, en allt hlýtur þetta að stefna að sama markmiðinu. Reynum að hugsa út fyrir boxið svo við tryggjum þjónustu sem víðast og gerum ungu fólki kleift að búa við sambærilega þjónustu eins og þéttbýlið býr við.

Kjöt og kosningar
Leiðari 22. nóvember 2024

Kjöt og kosningar

Eftir nokkra daga mun þjóðin velja þá sem sitja á Alþingi næstu fjögur ár. Kosni...

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...