Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Sandgræðslusvæðið á Leiðvelli í Meðallandi sumarið 1956 eftir ellefu ára friðun fyrir beit.
Sandgræðslusvæðið á Leiðvelli í Meðallandi sumarið 1956 eftir ellefu ára friðun fyrir beit.
Mynd / Björn Sigurbjörnsson
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Höfundur: Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri.

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meðallandi, þau Kristínu Lárusdóttur og Guðbrand Magnússon. Í viðtalinu koma fram margs konar missagnir, ósannindi, rangfærslur og óhróður um undirritaðan og fleiri ríkisstarfsmenn, sem ég finn mig knúinn til að mótmæla og færa til betri vegar eins og hægt er.

Sveinn Runólfsson.

Það skal hér þó tekið fram að rangfærslur þeirra eru of margar til að þeim verði öllum svarað hér í takmörkuðu rými Bændablaðsins. Ýmsar heimildir benda til þess að sandfok hafi verið
farið að herja verulega á land Meðal­ lendinga, að minnsta kosti frá því um 1700. Bændur þurftu þá að færa bæjarhús sín undan sandsköflunum, sérstaklega í sunnanverðu Meðallandinu. Í kjölfar eldgossins í Lakagígum 1783, þegar Eldhraunið rann niður í Meðalland, breyttust farvegir Skaftár og einnig lækja er komu undan Skaftáreldahrauninu. Talið er að þá hafi sandfok færst í aukana og ritað var á seinni hluta 19. aldar að tilvist sveitarinnar, þá Leiðvallahrepps, væri ógnað verulega úr fjórum áttum. Sandur barst frá jökulárfarvegum í Eldhrauni niður í Meðallandið, Kúðafljótið braut land úr vestri, fjörusandur barst þá hratt undan ríkjandi suðaustanáttinni inn á mýrarnar í sunnanverðu Meðallandinu og sandur barst úr austri inn á jarðir í austanverðri sveitinni.

Fyrir tilstuðlan Sandgræðslunnar og síðar Landgræðslunnar hefur nú þessum ógnunum verið bægt frá með fyrirhleðslum, beitarfriðun og sandgræðslu, þar með talið melsáningum.

Á kreppuárunum um 1930 var byggð í Meðallandi hætt komin vegna fátæktar. Alþingi ákvað því að láta ríkið kaupa þær jarðir sem landeigendur óskuðu eftir til að sporna við fólksflótta frá jörðunum. Landeigendur gerðust í staðinn ábúendur á jörðunum og gátu búið þar áfram með tilstyrk jarðasölunnar. Þetta er ástæðan fyrir hinum mörgu ríkisjörðum í Meðallandi.

Fyrstu aðgerðir ríkisins til varnar sandfokinu

Agner Francisco Kofoed­-Hansen, skógræktarstjóri og fyrsti yfirmaður opinberra sandgræðslumála frá 1908, bárust margar áskoranir frá Meðallendingum um að stemma stigu við sandburði frá jökulvötnum í Eldhrauni. Hann réðst því í nokkrar vatnaveitingar sunnarlega í Eldhrauni á næstu árum.

Sandgræðslan lét girða sumarið 1927 sandfokssvæði hjá Hnausum í Meðallandi að beiðni bóndans þar, Eyjólfs Eyjólfssonar. Uppblásturinn og sandfokið tókst að hefta, og búsetu á Hnausum var bjargað og landið er vel gróið í dag.

En sandfokið hélt áfram annars staðar í sveitinni og bæir eyddust af völdum þess, bæði í norðan­, sunnan­ og austanverðri sveitinni.

Alþingi setti ný lög um sandgræðslu árið 1941. Þar var kveðið á um hvernig fara skyldi með friðun verstu sandfokssvæðanna. Landeigandi skyldi greiða 1/3 kostnaðar en ríkissjóður 2/3. Á þessum árum áttu bændur almennt enga fjármuni til að leggja í verndun á handónýtu sandlendi sínu eða töldu þeim betur varið í annað. Allmargir landeigendur, víða um land, brugðu því á það ráð að afsala Sandgræðslu Íslands landi sínu til fullrar eignar og umráða, gegn því að þar yrði unnið að sandgræðslu. Með þessu var a.m.k. tvennt unnið, landeigendur þurftu ekki að greiða lögbundinn hluta kostnaðar, sem og að í mörgum tilfellum má gera ráð fyrir að sú friðun og sú sandgræðsla sem unnið var að á hinu afsalaða svæði hafi orðið til þess að bjarga nærliggjandi svæðum/bæjum frá því að fara undir sand. Sú mikla áhersla sem um og fyrir miðja síðustu öld var lögð á það að ríkið eignaðist verstu og hættulegustu sandsvæðin var ekki til komin að ástæðulausu. Gunnlaugur Kristmundsson, sandgræðslumaður og sandgræðslustjóri á árunum 1908 til 1947, hafði langa reynslu af því að um leið og gróður tók að ná sér á strik á sandgræðslusvæðum, þar sem stofnunin hafði ekki full umráð yfir landinu, var of mikil freisting fyrir suma bændur að fara að beita landið fljótlega í óleyfi og fórna þar með árangrinum.

Eftir 1940 jókst ágangur sandsins stöðugt í Meðallandi og hlutaðeigandi bændur og hreppsnefnd sóttu fast að Sandgræðslunni að taka til friðunar hraunbrúnirnar frá Kúðafljóti og austur að Eldvatni í Meðallandi. Jörðin Leiðvöllur fór í eyði 1944 vegna sandfoks og Feðgarnir ári síðar. Þessum jörðum og jarðahlutum frá fleiri jörðum, þar á meðal frá Slýjum, var því afsalað til Sandgræðslunnar. Bændur í Meðallandi, á launum hjá Sandgræðslunni, reistu nærri 40 km langa girðingu í afar erfiðu girðingastæði sem friðaði nærri fimm þúsund hektara af sandauðnum, norðan byggðarinnar. Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá að árangurinn kom fljótt í ljós.

Gunnlaugur Kristmundsson skrifaði í starfsskýrslu sinni eftir að þessu stóra verkefni lauk: „ Eigi að bjarga Meðallandinu frá sandfoki, þarf að girða framan við byggðina, sjávarsandana ...“

Í Meðallandi sáu bændur árangurinn af friðun sandfoks­svæðanna fyrir beit og óskuðu um 1950 stíft eftir að Sandgræðslan tæki verst förnu löndin í Meðallandi til friðunar og sandgræðslu. Bændur og þingmenn lýstu í bréfum sínum til Sandgræðslunnar að ef ekkert frekara yrði aðhafst þá legðist sveitin í eyði af völdum sandsins.

Allt fram til ársins 1965, þegar Alþingi setti enn ný lög um landgræðslu, voru yfir eitt hundrað jörðum og jarðahlutum afsalað til Sandgræðslunnar samkvæmt óskum þáverandi landeigenda. Það ár var lögunum breytt og samið við bændur um friðun sandfokssvæðanna, sem oftast gekk vel.

Undirskrift yfirlýsingar vegna sandgræðslusvæðis sunnan byggðar

Hjónin á Syðri­Fljótum vita ekkert um hvenær skjal það sem þau hafa sem mest gagnrýnt var upphaflega undirritað og segja ýmist í viðtalinu að skjalið sé án dagsetningar eða undirritað 1954. Það eru til tvö frumrit, annað er ársett 1954 en hitt er án dagsetningar. Rétt er að geta þess að í bréfi þingmanns Skaftfellinga til Runólfs Sveinssonar sandgræðslustjóra kemur fram að byrjað var að flytja gaddavír á fyrirhugað girðingarstæði sumarið 1951 og var undirbúningur að suðurgirðingunni, frá Eldvatni og vestur í Kúðafljót, þar með hafinn.

Undirritaður man vel eftir því að við Páll Sveinsson landgræðslustjóri vorum að fara yfir tilurð og stöðu allra landgræðslugirðinga landsins veturinn 1970. Kom þá fram að þeir bræður, Runólfur og hann, hefðu um og eftir 1950 farið að vinna að því að ná samningum við hlutaðeigandi landeigendur vegna suðurgirðingarinnar í Meðallandi. Það hefði verið auðsótt mál, enda þeir flestir beðið um að sandarnir þeirra yður teknir til friðunar og sandgræðslu. Samið hefði verið fljótlega við alla landeigendur nema einn, vegna ágreinings um fjörureka, en dregist hefði að fá hlutaðeigandi ráðuneyti til að skrifa undir afsalið fyrir ríkisjarðirnar. Af hverju er þetta mér minnisstætt? Jú, það var mitt lán að fá að vera í sveit í fimm sumur á Strönd í Meðallandi og fara ríðandi um vesturhluta svæðisins. Páll kom í heimsókn sumarið 1958 og tók mig með sér austur að Lyngum og þaðan gengum við í mýrlendi suður að sandgræðslugirðingunni og þar tók fyrst við enn meiri gróður en stutt var í svartan sandinn, sem teygði sig svo langt sem augað eygði. Þannig að ég þekkti þá betur til þessa sandgræðslusvæðis en margra annarra.

Ekki er ljóst af hverju ekki tókst að ljúka þinglýsingu yfirlýsingarinnar varðandi Suðursvæðið. Þeir sjö landeigendur sem undirrituðu yfirlýsinguna um sandsvæðið sunnan byggðar vissu vel að þeir voru að afsala landinu til Sandgræðslu Íslands. Til vitnis um það má nefna að Sveinbjörg Ásmundsdóttir, hver erfði land Slýjanna og Syðri-Fljóta frá Sigríði fósturmóður sinni, fól Eyjólfi Eyjólfssyni, hreppsstjóra á Hnausum, að leita eftir því við Landgræðsluna með bréfi 28. febrúar 1968 að hún fengi landskika keyptan sem fósturmóðir hennar hefði afhent Sandgræðslunni með fyrrnefndri yfirlýsingu.

Árangur af friðun sandsvæðisins sunnan byggðarinnar var mjög mikill, sandágangur inn á gróið land var stöðvaður og mikið land greri upp. En stór svæði upp frá fjörunni eru enn þá sandi orpin. Var girðingin lögð af um 1980.

Undirritaður fullyrðir að ef ekki hefði komið til sandgræðsla fyrrgreindra stofnana og friðun sandsvæðanna, annars vegar á allri norðurhlið Meðallandsins og hins vegar að sunnanverðu, ásamt átta km löngum varnargörðum við Kúðafljót, þá hefði öll sveitin lagst undir sand og sveitin orðið óbyggileg. Áréttað skal að þessum varnargörðum er meðal annars ætlað að vernda byggðina fyrir Kötluhlaupi.

Það er eðlilegt að fólk sem fer um sveitina geri sér enga grein fyrir að byggðin hefði öll farið undir sand ef hið opinbera hefði ekki gripið í taumana. En ætlast er til þess að þeir sem búa þarna núna þekki söguna um sandinn og harðbýlið í Meðallandi.

Landamerki jarða

Vegna mistaka í skráningu í þinglýsingu hjá Sýslumanninum í Vík á þeim hluta Slýja sem afsalað var 1944 til Sandgræðslunnar, féll hún niður í innfærslu þinglýsinga í tölvukerfi um 1999. Þetta var leiðrétt með bréfi sýslumannsins í Vík þann 1. ágúst 2013. Á þessum árum lögðu hlutaðeigandi ráðuneyti hart að Landgræðslunni að ganga formlega frá landamerkjalýsingum á þeim jörðum og jarðahlutum er voru á forræði stofnunarinnar. Undirritaður ferðaðist víða um Suður- og Norðausturland til þess að ganga frá landamerkjum þar sem það var hægt, en einhvers staðar varð ekki komist hjá því að ríkið færi í dómsmál til að fá niðurstöðu um eignarhald.

Víða um landið hafa landeigendur ásælst ríkisland af ýmsum hvötum. Á 44 ára starfsferli undirritaðs sem landgræðslustjóra varð ég oft var við þá furðulegu sýn nokkurra landeigenda að mér bæri að afhenda landsvæði möglunar- og endurgjaldslaust til fyrri landeigenda, enda þótt fullgild eignarafsöl væru um að ræða, ég ætti sem sagt að gefa þeim ríkiseignir. Sama var upp á teningnum þegar ég fór að heimsækja hjónin á Syðri-Fljótum 2015. Um þetta vil ég segja; það er án vafa ekki vilji íbúa þessa lands að einstaklingum séu gefnar ríkiseignir, þó ekki væri nema að slíkt er auðvitað skýrt lögbrot. Hjónin hafa að undanförnu tönnlast á, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, að um einhvers konar glæp eða yfirgang hafi verið að ræða þegar undirritaður leitaði eftir samþykki þeirra um landamerki hlutaðeigandi jarða og jarðahluta.

Á sama hátt hafa þau nítt niður starfsfólk fjármálaráðuneytis og stofnana þess sem hafa eingöngu verið að vinna það sem þeim bar við að komast að lögfræðilegri niðurstöðu um landamerki Slýja og eignarhald jarðanna við fjörusandinn í Meðallandi.

Ásakanir þeirra hjóna um að ríkisvaldið og Landgræðslan hafi stuðlað að örlögum fjölda eyðibýla í Meðallandi er röng. Sandgræðslan og síðar Landgræðslan hafa varið tugum milljóna króna til að vernda gróður og efla byggðina og það skilaði miklum árangri.

Hjónin á Syðri-Fljótum keyptu jarðirnar Slýjar og Syðri-Fljótar af hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri í mars 1999. Í fyrrnefndu viðtali segjast þau hins vegar hafa sameinað jarðirnar 1998.

Því er harðlega mótmælt að Landgræðslan hafi verið að ásælast þeirra land á liðnum árum. Stofnunin og starfsfólk fjármálaráðuneytis hafa eftir bestu getu verið að sinna hlutverki sínu og lagalegum kvöðum.

Skætingur þeirra í garð undirritaðs í viðtalinu, fjölmiðlum og samskiptamiðlum er ekki svara verður. Undirritaður ætlar ekki að standa í frekari orðaskiptum við þessi hjón en óskar þeim velgengni í hrossabúskap þeirra.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...