Hálendisþjóðgarður – augnablik
Í hvert sinn sem ég fer inn á fésbókina og les mér til um nýja hálendisþjóðgarðinn þá finnst mér eins og ekki sé verið að hugsa um náttúruna. Af hverju fær maður þannig tilfinningu? Jú, frá upphafi, þegar frumvarpið kom fram, þá var alltaf talað um að nú þyrfti að grípa í taumana og fara að vernda náttúruna.
Haft er eftir einum aðila að ef þú værir ekki fylgjandi hálendisþjóðgarði þá værir þú ekki fylgjandi náttúruvernd. Þá kemur spurningin, hvað er náttúruvernd? Þarna hef ég bara ekki fengið nein almennileg svör. Þessu orði er kastað fram aftur og aftur og allir eiga að hlýða, af hverju er verið að misnota annars mjög gott orð?
Misnotkun á orðinu náttúruvernd
Náttúruvernd á að vera orð sem notað er þegar virkilega þarf að vernda eitthvað t.d. gegn ágangi. Það eru mörg svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem náttúruvernd er alls ekki höfð að leiðarljósi, t.d. með gönguleið um Snapadal. Eða að banna akstur um svarta örfoka sanda í Vonarskarðinu. Þar er verið að nota hugtakið náttúruvernd í einhverju markmiði sem enginn skilur. Þegar verið er að loka leiðum eins og Vonarskarðinu er það kallað að nota svarta náttúruvernd. Það er skilgreint þannig að orðið náttúruvernd sé notað til að það þurfi ekki að útskýra hvers vegna verið sé að loka. Þarna skreytir fólk sig með orði sem það skilur sennilega ekki sjálft en það er orðið náttúruvernd.
Annað orðasamband er mikið notað, en það er; „að vernda fyrir komandi kynslóð“. Þetta er frábært og erfitt að rengja.
Flestallir eiga börn, sumir barnabörn og einhverjir eiga barnabarnabörn. Þarna er komið illa við kaunin hjá manni en spurningin er, hver er þessi komandi kynslóð? Hvenær kemur hún? Ef við ætlum að gera eins og Norðmenn, sem lokuðu öllu með boðum og bönnum og hafa þannig tapað þeirri kunnáttu að ferðast um náttúruna og takast á við náttúruöflin. Til gamans þá þurftu Íslendingar að smíða bíla fyrir norska herinn því þeir höfðu ekki þá kunnáttu sem við eigum og hvers vegna? Jú, við höfum í gegnum árin haft ákveðið ferðafrelsi sem hefur gert það að verkum að kunnátta og tækni til að ferðast um hálendið að sumri sem vetri er til hér á landi en ekki í Noregi.
Stofna hálendisþjóðgarð til að „massa“ inn túristum
Það nýjasta sem kemur nú fram á sjónarsviðið er túristatalið, nú munu engir túristar koma nema við búum til hálendisþjóðgarð. Þarna er rúsínan í pylsuendanum komin, við verðum að stofna þjóðgarð til að bjarga fjárhag landsins, þetta er eina leiðin út úr efnahagkrísu COVID, stofnum stærsta þjóðgarð í Evrópu og þannig getum við „massað“ túristum inn í landið. Tekjurnar yrðu gífurlegar og öllu bjargað.
– Augnablik, augnablik, erum þið ekki að gleyma einhverju? – Hvar er náttúruverndin? Eða er komandi kynslóðin búin að koma? – Allt sem búið er að berja á manni við náttúruvernd í gegnum árin, öræfakyrrðin, hvað verður um hana? Ég bara spyr, er þetta fólk svona rosalega fljótt að gleyma? Er þá þjóðgarður einungis ætlaður öðrum þjóðum, ferðamönnum sem hægt er að græða á? Má þá náttúran gleymast og á komandi kynslóð að fá þetta bara á geisladiski?
Einhvern veginn finnst mér allt þetta tal um hálendisþjóðgarð lykta af einhverju allt öðru en þeirri hugsun að bjarga einu eða neinu, af hverju ekki? Jú, það þarf ekkert að bjarga neinu, það er allt í góðu standi á hálendinu, þarna ferðast fólk um, nýtur náttúrunnar, hálendiskyrrðar og alls þess besta sem náttúran býður upp á. Þetta erum við búin að gera í 100 ár án þess að þurfa að stofnvæða hálendið.
Fullt af smákóngum í formi ríkisstarfsmanna
Hingað til hefur ríkt mikið traust á milli útivistarfólks og sveitarstjórna sem koma að stjórnun hálendisins. Einu vandamálin á hálendinu er innan Vatnajökulsþjóðgarðs, önnur svæði eru í góðum málum og mikil samvinna í gangi. Að eiga við Vatnajökulsþjóðgarð er ekki á færi venjulegs fólks, til dæmis óskaði Ferðaklúbburinn 4x4 eftir að fá að stika Breiðbakssvæðið. Lögð var inn ósk um að fá að fara þar inn að stika en tveimur mánuðum síðar gáfumst við upp, hringdum í UST og stikuðum Fjallabakssvæðið sem klúbburinn hefur verið að vinna á síðastliðin ár. Af hverju? Hvers vegna er þetta svona? Það er spurning, en því miður er svarið einfalt, það er búið að búa til lítið ríki inni í ríkinu með fullt af smákóngum í formi ríkisstarfsmanna.
Eftir alla þessar pælingar og lestur frumvarpsins og greinargerðarinnar sem liggur núna fyrir þinginu þá skil ég ekki til hvers náttúruverndarlög eru? Ef þau eru réttlægri innan þjóðgarðs þá skil ég ekki hvers vegna við þurfum nýtt ISAVÍA. Er þetta það sem okkur vantar í dag, enn eina ríkisstofnun eða annað ríki í ríkinu með forstjóra eða konungi yfir 30% af landinu? Því segi ég:
NEI TAKK, ÉG VILL EKKI HÁLENDISÞJÓÐGARÐ.
Sveinbjörn Halldórsson
Formaður Ferðaklúbbsins 4x4